Framkvæmdastjóri Suðurverks: Enginn verksamningur í hendi og ástandið svart

Dofri Eysteinsson, framkvæmdastjóri Suðurverks, sagði á opnum fundi SA um atvinnu- og  efnahagsmál sl. föstudag, mikilvægt að rjúfa kyrrstöðuna sem ríkir í mannvirkja- og vegagerð á Íslandi. "Kátir dagar koma og fara" sagði Dofri sem hefur verið eigandi og framkvæmdastjóri Suðurverks frá 1967 en hann hefur upplifað ýmsar sveiflur í gegnum tíðina. Nú er hins vegar svo komið að Suðurverk er í fyrsta sinn með engan verksamning í hendi og horfurnar svartar ef ekki verður brugðist við.

Dofri Eysteinsson

Þegar mest var störfuðu um 300 manns hjá Suðurverki en þá var m.a. unnið að stíflugerð við Kárahnjúka og við álverið á Reyðarfirði. Nýlega lauk svo fyrirtækið við 14 km langan kafla við Suðurstrandarveg. Í dag er fyrirtækið um 15% af því sem það var þegar það var stærst.

Atvinna þeirra sem enn starfa í greininni hefur dregist saman og tekjur minnkað og því hafa fjölmargir haldið til Noregs þar sem næga vinnu er að fá og góðar tekjur. Oftar en ekki er um að ræða starfsfólk með dýrmæta sérþekkingu.

 "Þetta lítur alls ekki vel út. Ástandið er mjög svart ef það eru engar vega- eða virkjanaframkvæmdir framundan," sagði Dofri á fundinum og hvatti hann stjórnmálamenn til að opna augu sín fyrir vanda greinarinnar, fyrirtækja innan hennar og starfsfólks þeirra. Staðan væri mjög alvarleg sem ekki væri hægt að afgreiða sem "nöldur í einhverjum gröfuköllum."

Tengt efni:

Smelltu til að sækja

Nýtt rit SA: Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)