Framkvæmdastjóri SI: Nú er tækifæri að auka öryggi á vegum og efla hagvöxt

Á opnum fundi SA um samgöngumál sem fram fór í morgun sagði Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), að nýjar samgönguframkvæmdir snúist um að auka öryggi á vegum auk þess að skapa ný störf og efla hagvöxt. Tækifærið sé til staðar, framleiðsluslaki nú sé meiri en í tæpa hálfa öld og atvinnuleysi mikið. Fjárfesting þjóðarbúsins í heild nemi nú 13% af landsframleiðslu en hefði numið 25% á síðustu áratugum. Einkaneysla væri lítil og útflutningur taki ekki við sér þrátt fyrir lágt gengi krónunnar. Orri sagði kjarasamninga til þriggja ára gera ráð fyrir öflugum hagvexti en þeir væru bjarnargreiði ef það brygðist.

Gróska í hugverkaiðnaði, heilbrigðistækni, tölvugeira og líftækni breyta heildarmyndinni ekki mikið að mati Orra. Sköpuð hafi verið óvissa í sjávarútvegi og sandur sé í tannhjólunum í orkuframleiðslu og orkunýtingu. Tillögur hafi verið settar fram um að lífeyrissjóðir fjármagni samgönguframkvæmdir en nú endurtaki það sig að innanríkisráðherra telji sig óbundinn af nýlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar um þau mál líkt og gerðist hjá umhverfis- og sjávarútvegsráðherrum í tengslum við stöðugleikasáttmálann sem undirritaður var fyrir tveimur árum.

Orri sagði að umgjörð  gjaldeyrishafta virki letjandi á fjárfestingar ásamt umræðusem fór fram í tengslum við eignarhald Magma að HS orku. Þá valdi það áhyggjum að Seðlabankinn sé farinn að íhuga vaxtahækkanir þrátt fyrir mikinn slaka í hagkerfinu. Það vanti vilja og hröð og markviss vinnubrögð til þess að ráðast í  umfangsmiklar samgönguframkvæmdir og vinna þannig upp slakann. Þær hafi verið slegnar út af borðinu með skammaryrðinu vegtollar.

Þegar umfang byggingariðnaðarins var sem mest störfuðu 18 þúsund manns í greininni, en nú stefnir í að þar starfi aðeins 4-6 þúsund manns. Fyrirtækjum hefur fækkað og þau fara jafnframt minnkandi. Framkvæmdasjóri SI lagði áherslu á að sem kaupandi ætti hið opinbera nú að nýta slakann þar sem hagstæð verð fengjust og birgjasamband héldist. Á teikniborðinu væru arðbærar framkvæmdir sem leiddu til aukinnar samkeppnishæfni. Hið opinbera magnaði hagsveifluna, hvort sem áraði vel eða illa, og fjárfestingar þess hefðu dregist saman um 60% undanfarin ár. Að lokum kallaði Orri eftir uppbyggilegri umræðu um framtíðarsýn í þessum málaflokki, Íslendingar gætu orðið leiðandi í tækniþróuninni og í stöðunni fælust mikilvæg tækifæri.

Tengt efni:

Glærur Orra Haukssonar