Framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi: 120 milljarða í samgönguátak

Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, lagði til á opnum fundi SA um samgöngumál sem fram fór í morgun, að stjórnvöld, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, taki nú ákvörðun um að á næstu 12 árum verði ráðist í stórframkvæmdir í samgöngumálum fyrir 120 milljarða króna, eða 10 milljarða á ári.  Lífeyrissjóðirnir láni til framkvæmdanna eins og stefnt hefur verið að og settur verði á laggirnar stórframkvæmdasjóður sem verði fjármagnaður með sérstökum hætti utan hefðbundinna framlaga til samgöngumála. Þorvarður hvatti til þess að þessi vegferð hefjist sem allra fyrst með sameiginlegu og samstilltu átaki stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila.

Umferð mun tvöfaldast
Í erindi sínu fór Þorvarður yfir umferð á Suðurlandsvegi sl. áratug sem numið hefði 6-10 þúsund bílum á sólarhring. Aukningin á 10 árum væri 45% þrátt fyrir áhrif kreppunnar og sagði hann að umferðin muni tvöfaldast næstu tvo áratugi. Þungaflutningar væru mun meiri en áður og Landeyjarhöfn hefði mikil áhrif. Fjölgun erlendra ferðamanna leiddi einnig til aukinnar umferðar og allt þetta kallaði á auknar framkvæmdir þar sem líta þyrfti til langtímasjónarmiða. Banaslys hefðu verið 12 á síðustu 9 árum á þessari leið, 35 alvarleg slys, 219 minni háttar slys og 789 önnur óhöpp, eða samtal 1.055 slys og óhöpp. Árlegur heildarkostnaður vegna slysa á þessari leið hefði verið áætlaður um einn milljarður króna á ári.

Mikill stuðningur við tvöföldun Suðurlandsvegar
Þorvarður benti á að samkvæmt Gallupkönnun 2009 hefðu 55% landsmanna talið tvöföldun Suðurlandsvegar brýnustu framkvæmdina, en í næsta sæti var framkvæmd sem 8% töldu mikilvægasta. Hann sagði Sunnlendinga leggjast gegn vegtolli þar sem jafnræðis væri ekki gætt. Tekjur ríkisins af umferð á veginum næmu 1,5 milljörðum króna á ári og að viðbættu 370 kr. veggjaldi pr. ferð bættist við einn milljarður króna á ári við tekjur ríkisins af umferð um veginn. Ef miðað væri við að framkvæmdin kostaði 20 milljarða króna þá greiddist hún upp á innan við 10 árum m.v. framangreindar forsendur.

Tillaga Sunnlendinga nr. 1 væri að dregið yrði úr kostnaði við framkvæmdina og ekki verði lagður á sérstakur vegtollur. Valkostur nr. 2 væri að fjármagna framkvæmdina með vegtollum með þeim skilyrðum að einn samræmdur vegtollur verði lagður  á alla tvöfalda vegi út frá Reykjavík og stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu með fjórum eða fleiri akreinum. Samræmdur jarðgangatollur verði lagður á umferð um öll jarðgöng með tveimur akreinum. Vegtollarnir falli inn í samræmt veggjaldakerfi þegar það verður tekið upp í stað eldsneytisgjalda.

Sjá nánar:

Glærur Þorvarðar Hjaltasonar