Framkvæmdastjóri Bláa Lónsins: Byggja þarf upp hvetjandi umhverfi fyrir fjárfestingar og eyða óvissu

Dagný H. Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa Lónsins, ræddi um nauðsynlega hvatningu og hvata í atvinnumálmu á opnum fundi SA sem fram fór í Hörpu í morgun undir yfirskriftinni Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara. "Það er mikill hugur og uppgangur í ferðaþjónustu á Íslandi.  Stjórnvöld og ferðaþjónustufyrirtæki hafa tekið höndum saman, snúið ógn upp í tækifæri og náð frábærum árangri í landkynningu á síðustu mánuðum.  Í því samhengi er mikilvægt að einblína ekki einungis á fjölda ferða  manna heldur einnig hvers konar ferðamenn við sækjum og muna það að okkar mikilvæga auðlind og söluvara landsins, náttúran, er viðkvæm, takmörkuð og þarf því að vernda og fjárfesta í."

Dagný Pétursdóttir

Á fundinum var kynnt ný skýrsla Samtaka atvinnulífsins um fjölmargar leiðir sem hægt er að fara til að bæta lífskjörin, einkum með því að efla atvinnulífið þannig að það geti skilað hinu opinbera öflugum tekjum til að fjármagna velferðarkerfið.

"Í skýrslunni sem kynnt er hér í dag kemur fram að í nýlegri könnun SA kom í ljós að á meðan einungis 14% fyrirtækja hyggjast ráðast í umtalsverðar fjárfestingar á næsta ári þá segjast 26% fyrirtækja í ferðaþjónustu ætla að ráðast í umtalsverðar fjárfestingar á sama tímabili.  Þetta er ánægjulegt því það er orðið afar brýnt að ráðast í metnaðarfullar fjárfestingar í innviðum ferðaþjónustunnar til að styðja við áframhaldandi vöxt þessarar atvinnu- og gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar.  Á sama tíma ber okkur að vernda okkar mikilvægu söluvöru og bygga upp gæði hennar til að mæta kröfum og væntingum gesta okkar í framtíðinni.

Ég tek því af heilum hug undir þau tilmæli Samtaka atvinnulífsins að byggja þurfi upp hvetjandi umhverfi fyrir fjárfestingar, eyða óvissu, t.d. með því að setja fram skynsamlega og í senn sanngjarna skilmála um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi.

En þá að atvinnumálum og þar þurfum við aldeilis hvatningu.

Þessum góða uppgangi í ferðaþjónustu fylgja aukin umsvif og fjölgun starfa sem svo sannarlega er reyndin. Það  er hins vegar mikið áhyggjuefni að á sama tíma og atvinnuleysi á suðurnesjum er í hæstu hæðum reynist okkur erfitt að manna ákveðnar stöður.  Þetta er alls ekki eindæmi og í fréttatímum í gær var einmitt fjallað um fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem var í sömu sporunum og við og uggandi yfir ástandinu.

Ég verð því nýta tækifærið hér í dag og hvetja stjórnvöld til að innleiða nauðsynlegan hvata inn í núverandi atvinnuleysisbótakerfi. Það ætti að vera sjálfsögð framkvæmd til úrbóta fyrir alla aðila."

Tengt efni:

Smelltu til að sækja

Nýtt rit SA: Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)

Úr fjölmiðlum:

mbl.is: Fáar umsóknir um laus störf