Efnahagsmál - 

06. október 2005

Framhald kjarasamninga krefst samstarfs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Framhald kjarasamninga krefst samstarfs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar

Ályktun stjórnar Samtaka atvinnulífsins

Ályktun stjórnar Samtaka atvinnulífsins

Mikið jafnvægisleysi einkennir íslenskan þjóðarbúskap um þessar mundir. Hátt framkvæmdastig reynir á þanþol efnahagslífsins.  Neysla heimilanna hefur aldrei aukist meira en á þessu ári og viðskiptahallinn slegið fyrri met. Að baki þessari neysluaukningu stendur mikil skuldaaukning heimilanna samhliða mikilli hækkun fasteignaverðs og aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann sem nemur 12% á síðastliðnum þremur árum. Hin mikla eftirspurn eftir vöru og þjónustu veldur vaxandi verðbólguþrýstingi og standa allar verðbólguspár til þess að verðbólga verði langt umfram þá 2,5% verðbólgu sem ríkisstjórnin samdi um við Seðlabankann í mars 2001 að stefnt skyldi að.

Hættuástand hefur skapast

Ítrekaðar hækkanir Seðlabankans á stýrivöxtum undanfarna mánuði miða að því að draga úr innlendri eftirspurn og halda verðbólgu sem næst verðbólgumarkmiði með því að hækka vaxtastig í landinu. Skuldir heimila og fyrirtækja eru hins vegar að meirihluta til verð- eða gengistryggðar. Stýrivaxtahækkanir hafa aðeins að takmörkuðu leyti haft áhrif á vexti þessra lána, en áhrifin hafa fyrst og fremst birst í því að styrkja sífellt gengi krónunnar. Er ekki um það deilt að raungengi krónunnar er nú langt fyrir ofan langtíma jafnvægi. Afleiðingin er sú að viðskiptahalli hefur náð hættustigi og hrun blasir við í atvinnugreinum í alþjóðlegri samkeppni.

Takmarkað aðhald opinberra fjármála

Við þessar aðstæður er lagt fram frumvarp til fjárlaga með 14 milljarða afgangi sem nemur 1,4% af landsframleiðslu. Gjaldahlið frumvarpsins má að ýmsu leyti telja fremur aðhaldssama. Halli er aftur á móti á rekstri sveitarfélaganna þannig að aðhald opinberra fjármála í heild er fremur takmarkað. Áhyggjuefni er að mat fjármálaráðuneytis og Seðlabanka á eftirspurnarástandi er mjög ólíkt, auk þess sem í áætlunum ráðuneytisins virðist ekki gert ráð fyrir því að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist á næstu árum.

Tímabært að endurmeta stöðu Íbúðalánasjóðs

Ein megin skýring verðbólgunnar undanfarið eitt og hálft ár liggur í hækkun fasteignaverðs sem rekja má til ódýrari lánsfjármögnunar. Viðbúið var að efling fjármálafyrirtækja og aukin samkeppni myndi leiða til vaxtalækkana. Hækkun lánshlutfalls og hámarkslánsfjárhæða Íbúðalánasjóðs, sem í raun fól í sér áform um að ryðja bönkum út af þessum markaði, hratt af stað holskeflu útlána á óheppilegum tíma. Stjórnvöld bera með öðrum orðum mikla ábyrgð á því að verðbólga hefur farið umfram 2,5% verðbólgumarkmiðið og á þeirri útlánaþenslu og skuldaaukningu heimilanna sem fylgt hefur í kjölfar harðrar samkeppni Íbúðalánasjóðs og fjármálastofnana á íbúðalánamarkaði. Löngu er tímabært að bregðast við aðstæðum með því að fyrirbyggja að uppgreiðslur opinberra íbúðalána verði áfram veitt út í lánakerfið með tilheyrandi þensluáhrifum.

Afnema takmarkanir á atvinnurétti borgara nýrra ESB landa

Aðstæður á vinnumarkaði hafa úrslitaþýðingu varðandi verðlagsstöðugleika. Ólíkt því sem gerst hefur í mörgum öðrum aðildarlöndum EES samningsins hafa íslensk stjórnvöld nýtt til hins ýtrasta tímabundnar heimildir til að takmarka aðgang borgara nýrra ESB landa að vinnumarkaði hér á landi. Fyrir liggur að afnám slíkra takmarkana hefur ekki raskað jafnvægi á vinnumarkaði nágrannalanda okkar heldur þvert á móti verið til góðs. Við núverandi aðstæður, þar sem mikil umframeftirspurn er eftir starfsfólki, er fráleitt að halda fast í slíkar takmarkanir og ber að aflétta þeim hið fyrsta.

Kaupmáttur aldrei meiri

Kaupmáttur launa landsmanna er nú hærri en nokkru sinni fyrr. Það hefur gerst m.a. með því að launabreytingar hér á landi hafa verið tvöfalt til þrefalt meiri en gerst hefur á meðal okkar viðskiptalanda. Það hefur haft þær afleiðingar að hærra hlutfall verðmætasköpunar gengur til launagreiðslna en áður og að útflutningsfyrirtæki og önnur fyrirtæki sem berjast í alþjóðlegri samkeppni búa við algerlega óviðunandi aðstæður og afleita rekstrarafkomu vegna hás gengis krónunnar. Við þessar aðstæður vofir yfir uppsögn kjarasamninga vegna verðbólguþróunar þrátt fyrir að kaupgeta launafólks sé meiri nokkru sinni fyrr. Það er vissulega öfugsnúið og örugglega fordæmislaust að hækkun á verðmæti íbúða geti orðið tilefni til krafna um almennar breytingar á kjarasamningum. Við blasir að frekari hækkanir launa en þegar hefur verið samið um að taki gildi um næstu áramót myndu valda tjóni sem íslenskt efnahagslíf þarf síst á að halda.

Rétt er að árétta að hugsanleg viðbrögð samkvæmt forsenduákvæðum kjarasamninga hafa ekki einungis áhrif á afmarkaða hópa, t.d. þá sem eru í lægri enda launastigans, heldur myndu ganga jafnt yfir alla launamyndun í landinu.  Afleiðing slíkrar miðstýrðrar launahækkunar yrði enn meiri verðbólga og vaxtahækkanir Seðlabankans.

Kallað eftir samstarfi

Stjórn Samtaka atvinnulífsins kallar því eftir samstarfi við verkalýðshreyfinguna og aðkomu stjórnvalda um lausn sem komið geti í veg fyrir uppsögn kjarasamninga þannig að þeir geti haldið gildi sínu í þau tvö til þrjú ár sem eftir lifa af samningstíma flestra samninga. Kjarasamningarnir eru byggðir á því að stöðugleiki haldist á samningstímanum og þann grundvöll þarf að endurnýja. Hagsmunir almennings, ekki síður en fyrirtækja, felast í því að það takist.

Samtök atvinnulífsins