Fréttir - 

20. október 2015

Fram af hengifluginu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fram af hengifluginu

Íslenskt efnahagslíf er komið á skrið eftir hrunið haustið 2008 og uppsveifla hefur staðið yfir í allmörg ár. Mikill árangur hefur náðst og þrátt fyrir meiri samdrátt árin 2009 og 2010 en í öðrum ríkjum er staðan að mörgu leyti góð í alþjóðlegum samanburði. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra SA, á fundi sem haldinn var á vegum Virðingar 16. október sl.

Íslenskt efnahagslíf er komið á skrið eftir hrunið haustið 2008 og uppsveifla hefur staðið yfir í allmörg ár. Mikill árangur hefur náðst og þrátt fyrir meiri samdrátt árin 2009 og 2010 en í öðrum ríkjum er staðan að mörgu leyti góð í alþjóðlegum samanburði. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra SA, á fundi sem haldinn var á vegum Virðingar 16. október sl.

Þrátt fyrir góða efnahagslega stöðu glímum við enn við gamalkunnug vandamál sem reynist erfitt að vinna bug á. Í gegnum tíðina hefur íslensk hagstjórn reynst hamfarasaga útflutningsgreina þar sem styrking raungengis, vegna ósjálfbærra launahækkana, mikillar verðbólgu og agaleysis í fjármálum hins opinbera, hefur að lokum gengið til baka með gengisfalli krónunnar. Í ljósi þessarar hagstjórnarsögu er ekki að undra að útflutningur Íslendinga er að mestu bundinn við náttúruauðlindir landsins því fjölbreyttir útflutningsatvinnuvegir munu aldrei dafna nema að tryggt sé stöðugt rekstrarumhverfi til langs tíma.

Endurtekin mistök
Íslendingar eru ekki eina þjóðin sem glímir við litla framleiðni. Í raun hafa flest ríki innan OECD glímt við lítinn sem engan framleiðnivöxt eftir fjármálakreppuna árið 2008. Það sem aðskilur Ísland frá öðrum ríkjum er sífelld endurtekning fyrri mistaka. Við lítum ekki til vaxtar framleiðni heldur hækkum laun enn og aftur langt umfram vöxt verðmætasköpunar. Afleiðingin verður sem fyrr verðbólga og hærri vextir.

Tveggja tölustafa verðbólga í kortunum?
Samtök atvinnulífsins hafa gert sviðsmyndagreiningu á áhrifum launabreytinga á verðlag miðað við að aðrar efnahagsstærðir séu fastar. Tilgangur sviðsmyndanna er að varpa ljósi á hugsanleg áhrif á verðlag ef allur vinnumarkaðurinn eltir úrskurð gerðadóms í máli BHM og Fíh. Niðurstaðan leiðir í ljós að verðbólgan gæti náð hámarki í 9-12% eftir því hvaða forsendur eru gefnar um launaskrið umfram kjarasamninga. Vissulega geta aðrir þættir eins og gengisstyrking krónunnar og batnandi viðskiptakjör dregið úr verðbólguáhrifum kjarasamninga, en að sama skapi geta þau orðið meiri ef krónan veikist eða viðskiptakjör versna.

Launahækkanir sem eru langt umfram framleiðnivöxt og launabreytingar í nágrannalöndum okkar valda mikilli hækkun á raungengi krónunnar sem aftur veikir samkeppnisstöðu útflutningsgreina og minnkar útflutningstekjur þjóðarinnar. Slík raungengisstyrking er ósjálfbær til lengri tíma litið sökum þess að á sama tíma og grafið er undan útflutningsgreinum eykst innflutningur. Viðskiptajöfnuður versnar og að lokum næst jafnvægi á ný með gengisfalli. Þessi þróun hefur alltaf leitt til sömu niðurstöðu og engin ástæða er til að ætla annað í þetta sinn.

Greining samtakanna endurspeglar þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin. Verðstöðugleika síðustu ára er ógnað af launahækkunum langt umfram verðmætasköpun hagkerfisins. Við bætist að ríkisfjármálin magna hagsveifluna  í stað þess að jafna hana.

Tökum við flugið?
Niðurstaðan er því sú að enn eru efnahagsmálin í þeirri stöðu að armar hagstjórnar vinna ekki saman. Í stað þess að vinna sameiginlega að því markmiði að tryggja stöðugleika  ógnar skortur á samhæfingu þeim árangri sem náðst hefur á síðustu árum. Það stefnir allt í að sagan endurtaki sig, enn og aftur. Íslendingar stefna fram af hengifluginu og ekki útlit fyrir að menn ætli að læra af fyrri mistökum.

Kynningu Þorsteins má nálgast hér (PDF)

Samtök atvinnulífsins