Frá helsi til frelsis

Í ár er aldarfjórðungur liðinn frá gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Íslensk hagsaga er saga hafta en með samningnum var nýtt bindi skrifað í þeirri sögu sem einkennist af mun meira frelsi. Með samningnum fékk Ísland aðgang að innri markaði Evrópu með frjálsu flæði fólks, vöru, þjónustu og fjármagns. Hann færði okkur úr gjaldeyrishöftum sem höfðu þá varað í rúm 60 ár. Þessi stórtíðindi fóru þó ekki hátt. Engin fagnaðarlæti voru á götum úti og forsíður blaðanna minntust hvergi á gildistöku EES samningsins og fjölluðu fremur um verkföll og ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Að því leyti hefur því miður ekki mikið breyst á 25 árum.

Ísland er lítið og landfræðilega einangrað. Lífsgæði okkar byggja því á frjálsum viðskiptum við önnur lönd. Það er nánast ómögulegt að meta til fjár þann ávinning sem Ísland hefur haft af EES. Aðeins ábati tollfríðinda á útflutningsvörur okkar er a.m.k. 30 milljarðar króna á ári, svo dæmi sé tekið, enda er EES mikilvægasti markaður íslenskra útflutningsfyrirtækja. Þá höfum við aðgang að margfalt stærri vinnumarkaði með frjálsu flæði fólks innan EES. Mikill meirihluti þess 37.000 erlenda launafólks sem starfar hér í dag kemur frá EES. Án þeirra væru lífsgæði okkar allra lakari og mannlíf okkar fábreyttara. Þá hefur fjöldi Íslendinga fengið tækifæri til að læra og starfa í EES ríkjum og afla sér þannig mikilvægrar þekkingar og reynslu sem skilar sér í mörgum tilfellum aftur hingað heim.

Sigurður Líndal fyrrverandi lagaprófessor hefur sagt að inngangan í EES hafi falið í sér mestu breytingar á löggjöf á Íslandi frá því að Járnsíða og Jónsbók voru lögfestar á 13. öld. Sú breyting var svo sannarlega til hins betra. Eðli málsins samkvæmt er stjórnsýslan og lögfræðingastéttin hér fámenn í samræmi við fámennið. Við höfum því ekki sama bolmagn og fjölmenn ríki til að vinna og þróa nýja löggjöf frá grunni. Fyrir tíma EES var algengt að ný íslensk löggjöf væri þýðing og staðfæring á dönskum lögum sem oft voru komin til ára sinna. 

Gæði löggjafar á þeim sviðum sem EES tekur til hefur því stórbatnað. Samræmdar reglur á EES jafna samkeppnishæfni fyrirtækja á svæðinu. En þá er líka mikilvægt að Ísland gangi ekki lengra en önnur lönd EES þegar íþyngjandi reglur eru lagðar á atvinnulífið. Það væri eins og knattspyrnuleikur þar sem liðin færu ekki eftir sömu reglum. Í landi þar sem launastig er hátt og skattar háir er ekki á það bætandi að fyrirtæki þurfi að hlíta meira íþyngjandi reglum en samkeppnisaðilar þeirra í öðrum löndum.

Vaxandi verndarhyggja í heiminum er áhyggjuefni. Hvað það varðar má segja að EES sé brjóstvörn okkar, bæði hér innanlands og erlendis. EES, og allt sem því fylgir, er orðið svo samofið íslensku samfélagi að almenningur verður oft ekki var við allan ávinninginn sem af því hlýst. Ávinningurinn er samt ótvíræður og það er ljóst að lífskjör á Íslandi væru lakari fyrir alla landsmenn ef við værum ekki hluti af svæðinu. EES er mun mikilvægara fyrir okkur en það er fyrir Evrópusambandið. Það er því grundvallaratriði fyrir Ísland að við stöndum vörð um samstarfið og uppfyllum skyldur okkar gagnvart því í hvívetna.

Ásdís Kristjánsdóttir og Davíð Þorláksson, forstöðumenn hjá Samtökum atvinnulífsins. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2019

Tengt efni:

Ásdís og Davíð flytja erindi á opnum fundi um EES og atvinnulífið miðvikudaginn 13. mars á Grand Hótel Reykjavík.

Dagskrá og skráning á vef utanríkisráðuneytisins