Frá aðalfundi SFF 2012

Aðalfundur Samtaka fjármálafyrirtækja fór fram þann 27. apríl. Á fundinum var Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, kjörinn formaður stjórnar samtakanna. Höskuldur tók við af Birnu Einarsdóttir, bankastjóra Íslandsbanka, sem hefur gegnt stöðu stjórnarformanns undanfarin tvö ár. Birna situr áfram í stjórn samtakanna.

Í stjórn SFF sitja auk Höskuldar og Birnu þau Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingabanka, Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, Sigurður Atli Jónsson,  forstjóri MP banka, Sigurður Viðarsson, forstjóri TM og Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.

Ræða Birnu Einarsdóttir, fráfarandi stjórnarformanns

Í ræðu sinni á aðalfundinum lagði Birna áherslu þann árangur sem náðst hefur í tengslum við stefnumótunarvinnu samtakanna undanfarin tvö ár. Nefndi hún meðal annars gerð siðferðisviðmiða fjármálafyrirtækja, verkefnið um vottun fjármálaráðgjafa og baráttu samtakanna fyrir eflingu fjármálalæsis ungmenna. Birna sagðist í ræðu sinni sannfærð um að þegar litið verður yfir farin veg eftir tíu ár verði það þessi mál sem hafa sett mark sitt á starf samtakana.

Birna fjallaði einnig um hagsmunagæslu samtakana á undanförnum tveim árum. Hún sagði stóran hluta krafta SFF hafa farið í að spyrna gegn gegndarlausri hækkun opinberra álaga á fjármálageirann, takast á við þá óvissu sem hefur skapast vegna dóma Hæstaréttar um gengistryggð lán og að vera í lykilhlutverki í samskiptum við stjórnvöld vegna skuldavanda heimila og fyrirtækja fyrir hönd aðildarfélaganna.

Af þeim málum sem eru í deiglunni hjá SFF lagði Birna áherslu á þá vinnu sem er unnin á vettvangi samtakana í tengslum við áform stjórnvalda um að leggja fram meginlínur til frambúðar um framtíðarskipan fjármálakerfisins hér á landi. Auk þess nefndi hún væntanlega skýrslu SFF um nauðsynlegar umbætur á gerð örorkumats á Íslandi og vinnu sérfræðihóps samtakanna um gerð áætlunar um afnám gjaldeyrishafta. Í ræðu sinni nefndi hún jafnframt tvö veigamikil mál: Framlag SFF til umræðunnar um verðtryggingu en það verður kynnt í maí í formi yfirgripsmikillar skýrslu og fyrirhuguð vinna samtakanna við að kanna umfang svokallaðrar skuggabankastarfsemi hér á landi.

Að lokum sagði Birna verkefnin framundan vera næg  og mikilvægt væri að nálgast þau með gildi SFF í huga: Traust, fagmennska og liðsheild.