Förum atvinnuleiðina - höfnum verðbólguleiðinni

Samtök atvinnulífsins telja vænlegustu leiðina út úr kreppunni vera atvinnuleiðina. Í henni felst áhersla á atvinnusköpun, fjárfestingu í atvinnulífinu og aukinn útflutning á vöru og þjónustu. Til að atvinnuleiðin sé fær þarf að ná samstöðu aðila á vinnumarkaði og stjórnvalda um kjarasamninga til þriggja ára. Hinn valkosturinn er að fara verðbólguleiðina. Í henni felst samstöðuleysi á vinnumarkaði, kröfur um tuga prósenta launahækkanir, verkföll, hratt hækkandi verðlag, kaupmáttarhrap og aukið atvinnuleysi.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, ræddu um alvarlega stöðu atvinnumála á opnum fundi í Reykjanesbæ í gærkvöld og um mikilvægi þess að brugðist verði sem fyrst við til að kveða niður atvinnuleysið. Um 14 þúsund eru án vinnu, langtímaatvinnuleysi fer vaxandi og hefur Vinnumálastofnun spáð því að atvinnuleysi aukist enn frekar.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA. Mynd Víkurfréttir

Formaður SA fór á fundinum yfir stöðu kjaraviðræðna en ASÍ ákvað í gær að ræða ekki frekar við SA að sinni um gerð kjarasamninga til þriggja ára vegna afstöðu Samtaka atvinnulífsins til sjávarútvegsmála. SA telja tímabært að ná sátt um stjórn fiskveiða sem lengi hefur verið deilt um og í yfirlýsingu ASÍ segir að ASÍ taki undir með SA um nauðsyn þess að óvissu verði eytt í sjávarútvegi og að sú vinna verði á grundvelli niðurstöðunnar  í sáttanefndinni svokölluðu. Í yfirlýsingu ASÍ kemur jafnframt fram að að aðildarsamtök ASÍ muni ekki ljúka kjarasamningi meðan ekki liggur fyrir niðurstaða um opinbert framfærsluviðmið.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA. Mynd Víkurfréttir

Varðandi afstöðu SA til sjávarútvegsmála þá hafa SA bent á að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur starfað og lokið störfum sérstök endurskoðunarnefnd (sáttanefnd) sem náði víðtækri sátt um málið. Aðild að þeirri sátt áttu fulltrúar stjórnarflokkanna, tveggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna og allra helstu hagsmunasamtaka í sjávarútvegi, bæði fyrirtækja og starfsfólks.  Samtök atvinnulífsins telja þá leið vænlegasta frá núverandi stöðnun að fjárfestingar og útflutningur aukist og þannig skapist atvinna í bráð og lengd. Slík leið er líklegri til árangurs en tímabundinn vöxtur byggður á aukinni einkaneyslu eða hallarekstri ríkissjóðs. Óhugsandi er að hefja sókn þjóðarinnar til framfara og aukins útflutnings og fjárfestinga án þess að sjávarútvegurinn, ein helsta útflutningsgreinin og um leið ein helsta stoð samfélagsins, eigi þar öflugan hlut að máli.

Verkefni ríkisstjórnar og Alþingis er að semja frumvarp úr þeirri sátt sem síðan þarf að afgreiða sem lög. Óskiljanlegt er, og alls ekki boðlegt, hversu tafist hefur að ganga frá í lagabúning þeirri víðtæku sátt sem náðist. Samtök atvinnulífsins þrýsta því á af fullum þunga að málið sé klárað. Það er ein lykilforsenda fyrir sókn þjóðarinnar út úr kreppunni og hefur afgerandi þýðingu fyrir getu atvinnulífsins til þess að taka á sig launahækkanir.

Þessa afstöðu SA fóru formaður og framkvæmdastjóri vandlega yfir á fundi SA í Stapanum í gærkvöld en engin formleg viðbrögð bárust við óskum aðila vinnumarkaðarins um aðkomu ríkisstjórnarinnar að nýjum kjarasamningum fyrir samningafund SA og ASÍ í gær.

Fjölmargir stjórnendur úr atvinnulífinu á Suðurnesjum sóttu fund SA um atvinnumálin en þar kom m.a. fram að pólitísk andstaða aðila innan ríkisstjórnarflokkanna við atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum hafi reynst skaðleg þó svo að stjórnmálunum verði ekki eingöngu kennt um stöðu mála.

Frá fundi SA: Mynd Víkurfréttir

Varðandi mögulegar framkvæmdir sagði forstjóri Norðuráls, Ragnar Guðmundsson, að öllum undirbúningi fyrir álver í Helguvík væri lokið og fyrirtækið tilbúið að fara á fulla ferð. Fjárfesting í verkefninu nemur nú þegar 15 milljörðum, en heildarfjárfesting er áætluð 250 milljarðar og áætlað að um 8.000 ársverk skapist.

Í máli Ásgeirs Margeirssonar, stjórnarformanns HS Orku kom fram, að orðspor Íslands meðal erlendra fjárfesta færi versnandi vegna pólitískra óvissu og umræðu um þjóðnýtingu fyrirtækja. Nú væri svo komið að menn væru farnir að hugsa um að kaupa sér tryggingar fyrir pólitískum upphlaupum líkt og tíðkast í ríkjum þar sem stjórnarfar er óstöðugt og leikreglur í viðskiptum óskýrar.

Á fundinum ítrekaði Ásgeri jafnframt að orkulindirnar sem HS orka nýtir eru ekki í eigu einkaaðila heldur sveitarfélaga á Suðurnesjum sem hafi tryggt sér góðar tekjur af þeim næstu 65 árin. Ef ríkið ætli sér að þjóðnýta þær verði það að ræða við sveitarfélögin um hvort þau séu til í að stytta nýtingartímann.

Frá fundi SA: Mynd Víkurfréttir

Glærukynningar frummælenda:

Vilhjálmur Egilsson

Ásgeir Margeirsson

Ragnar Guðmundsson