Forstjóri Ölgerðarinnar: Fáránlegt vaxtastig hamlar fjárfestingu og hækkar verðlag

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar,  segir vaxtastig á Íslandi fáránlegt, það hamli fjárfestingu og hækki verðlag í landinu. Andri var á meðal fjölmargra stjórnenda sem stigu á stokk á fundi SA um atvinnu- og efnhagsmál sem fram fór í Hörpu í morgun undir yfirskriftinni Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara. Andri sagði íslensku krónuna rýra stórkostlega möguleika íslenskra iðnfyrirtækja til útflutnings og vísaði til nýrrar skýrslu SA sem kom út í dag. Þar er bent á að krónan hafi nú aðeins 0,05% af því verðmæti sem hún hafði gagnvart dönsku krónunni árið 1920 eða frá því að hún öðlaðist sjálfsætt gengi.

R Andri

Í ræðu sinni sagði Andri ennfremur:

"Með flöktandi gengi má líkja tilboðsgerð í erlendri mynt sem fjárhættuspili. Í tilboðsgerð þurfa íslensk iðnfyrirtæki að reikna sér talsvert áhættuálag auk þess sem fjármagnskostnaður er margfaldur á við samkeppnisaðila.  Ölgerðin hefur að undanförnu skoðað fjárfestingu í vélbúnaði sem einkum yrði notaður til framleiðslu útflutningsvöru. Hátt vaxtastig krónunnar og óvissa í gengismálum útilokar í raun þesskonar fjárfestingu. Vaxtastig á Íslandi er fáránlegt, það hamlar fjárfestingu og hækkar verðlag í landinu."

Í skýrslu SA kemur fram að opinber útgjöld hæst á Íslandi af ESB  löndunum og Ísland er því háskattaland. Andri setti  þetta í samhengi við rekstur Ölgerðarinnar:

"Ég tók saman í gær hve mikið Ölgerðin innheimtir fyrir ríkissjóð.  Velta fyrirtækisins (án vsk) á yfirstandandi ári er um 17,5 milljarðar króna.  Af þeirri upphæð skilar Ölgerðin 6,4 milljörðum í ríkissjóð í formi áfengisgjalda, vörugjalda, staðgreiðslu skatta og tryggingargjalds. Þetta eru 36% af veltu fyrirtækisins.

Framleiðsluvörur fyrirtækisins eru skattlagðar óhóflega. Fyrir tveimur árum voru sett á vörugjöld - svokallaður sykurskattur sem reyndar er ekki sykraðri en svo að hann legst á hreinan ávaxtasafa og kolsýrt vatn.  Kókómjólkin var auðvitað ekki skattlögð þrátt fyrir hátt sykurinnihald.

Áfengisgjöld hafa hækkað um það bil 45% frá árinu 2008. Sala á vodka hefur dregist saman um 36% á sama tímabili.  Nú er enn lagt til að áfengisgjöld hækki. Er þetta framlag ríkisstjórnarinnar til eflingar heimaiðnaði?  Landa- og spírasala hefur á sama tíma stóraukist og þess eru dæmi að veitingastöðum sé boðinn spíri til sölu á verði sem er talsvert lægri en áfengisgjöldin ein.

Sala á bjór hjá ÁTVR minnkað um 12% frá árinu 2008. Það er alveg ljóst að þessar aðgerðir eru ekki til að skapa ný störf á Íslandi."

Andri sýndi meðfylgjandi mynd á fundinum um hvernig skattlagningu ríkis á sterku áfengi og bjór. Yfir 90% af verði 1L Tindavodkaflösku rennur til ríkisins og ríflega 68% af verði Egils Gull.

Smelltu til að stækka!

"En ef það væri ekki nóg hefur innanríkisráðherra enn einu sinni lagt fram frumvarp sem tekur fyrir alla kynningu á áfengum drykkjum. Frumvarpið gengur svo langt að óheimilt er að merkja bjórdælur, glasamottur og penna.  Á meðan geta erlendir framleiðendur kynnt vöru sína óheft á Íslandi - ja nema ráðherra reyni að banna internetið og beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum.  Þetta er algjörlega óskiljanleg mismunum á milli innlendra og erlendra framleiðenda.   Hverskonar forgangsröðun er þetta? Eru ekki meira brennandi mál til að ræða á Alþingi? 

Svona framganga er sannarlega ekki gerð til að rjúfa kyrrstöðuna sem við ræðum hér í dag. Það er heldur ekki framganga ríkistollanefndar sem í fyrradag skilaði niðurstöðu í kærumáli Ölgerðarinnar vegna þess að Tollstjóri mismunar íslenskri framleiðslu á kostnað innflutnings. Það tók nefndina hvorki meira né minna en 485 daga að komast að niðurstöðu þrátt fyrir ítrekaðar óskir okkar um flýtimeðferð.  Mér finnst embættismennirnir taka kyrrstöðuhugtakið FULL langt þarna. 

Upp er komin fáránleg staða þar sem  ljóst er að Ölgerðin þarf að höfða skaðabótamál á hendur ríkinu fyrir því tjóni sem hún hefur orðið fyrir.

Góðir fundarmenn - við hjá Ölgerðinni höfum að minnsta ekki ekki staðið kyrrir að undanförnu.  Við höfum staðið í ströngu við að brugga jólabjórinn og maltið sem að sjálfsögðu verður drukkið sem aldrei fyrr um þessi jól. Skál."

Tengt efni:

Smelltu til að sækja

Nýtt rit SA: Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)

Úr fjölmiðlum:

Umfjöllun RÚV - Sjónvarps Áfengisskattar aldrei hærri

mbl.is: Ríkið hirðir 90% af Tindavodka