Forstjóri HB Granda: Sjávarútvegurinn getur leikið lykilhlutverk í endurreisn efnahagslífsins

Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda, var á meðal ræðumanna á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins sl. föstudag sem fram fór undir yfirskriftinni Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara. Þar sagði Eggert sjávarútveginn að mörgu leyti vel í stakk búinn til að vera hryggjarstykkið í efnahagslegri endurreisn. Reksturinn gangi að mörgu leyti vel, en fjárfestingar vanti. Það sé afar bagalegt eins og bent er á í nýrri skýrslu SA. "Enda eru fjárfestingar annars vegar lykill að meiri verðmætasköpun til langs tíma og hins vegar atvinnuskapandi á framkvæmdatíma."

Eggert B. Guðmundsson

En hvað veldur? "Um er að kenna óvissu í rekstrarumhverfinu, sem aftur er að kenna fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þegar stjórnin komst valda, lá fyrir að ráðist yrði í breytingar. Ólík sjónarmið voru þó uppi um efni breytinganna og var skipuð fjölmenn sáttanefnd til að vinna að sameiginlegum tillögum. Að fengnum þeim tillögum var ráðist í frumvarpsgerð, sem unnin var án nokkurs samráðs við greinina og tók lítið mið af niðurstöðum sáttanefndarinnar.  Úr varð frumvarp, sem hefur fengið falleinkun allra sem um hafa fjallað, þ.á.m. ASÍ og hagfræðinganefndar, sem ráðherra sjálfur skipaði."

Eggert benti á að nú væri unnið að gerð nýs frumvarps en enn væri sami háttur hafður á, þ.e. ekkert samráð haft við greinina. Eggert sagði þetta skaðleg vinnubrögð sem skili engum árangri.

"Þótt menn greini á um efni nauðsynlegra breytinga, hljóta þau sem málin skoða af skynsemi að skilja að slík vinnubrögð eru skaðleg og skila engum árangri.  Með bættum vinnubrögðum og samstilltri vinnu allra sem hlut eiga að máli, væri þó hægt að snúa þessari sneypuför við. Slíkt myndi skila mun betri ávinningi fyrir alla, jafnt fyrirtækin í greininni sem þjóðina í heild, og leggja grunn að þeim stöðugleika, þeirri uppbyggingu og þeim fjárfestingum, sem sjávarútvegurinn getur lagt þjóðinni til."

Tengt efni:

Smelltu til að sækja

Nýtt rit SA: Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)