Forstjóri Haga: Kjötskortur reyndist íslenskum neytendum dýr

"Stjórnvöld loka augunum fyrir þeirri augljósu staðreynd að framleiðendur hafa í skjóli tollverndar og innflutningshafta, hækkað verð á allri kjötvöru til íslenskra heimila langt umfram verðlagsþróun." Þetta sagði Finnur Árnason, forstjóri Haga m.a. á opnum fundi SA í morgun sem fram fór undir yfirskriftinni Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara. Finnur ræddi um verðhækkanir í kjölfar kjötskorts sl. sumar en verslanir fengu eingöngu brot af því kjöti afgreitt sem þær pöntuðu. Finnur sagði að hægt væri að áætla að lán heimilanna hafi hækkað um 7,6 milljarða vegna kjötskortsins sl. sumar og takmarkana á innflutningi.

Finnur Árnason

Erindi Finns má lesa hér að neðan ásamt því að nálgast  meðfylgjandi glærur en Finnur sagði sagði verslunina vilja sátt við bændur um breytingar á því kerfi sem nú er við lýði. Þá sagði hann fjölda vara í matvöruverslunum vera margskattlagðar og því verði að breyta. Landsmenn búi við vörugjöld, magntolla, verðtolla og virðisaukaskatt.

 "Stjórnvöld lögðu á yfirstandandi kjörtímabili svokallaðan sykurskatt á hreint íslenskt vatn. Geri aðrir betur. Einangrun, höft og óhófleg skattlagning í verslun með sjálfsagðar neysluvörur heimilanna er tímaskekkja. Hún er dýr fyrir heimilin og í mörgum tilfellum falin. Stjórnvöld verða að horfa á frjálsa verslun sem öflugt verkfæri til þess að styrkja efnahag heimilanna og þar með íslenskt atvinnulíf. "

Erindi Finns í heild:

"Á hverjum degi eru fréttir í fjölmiðlum af atvinnulífinu.  Eins og gengur finnst okkur þær misáhugaverðar og oftar en ekki eru þær gleymdar daginn eftir.

Mig langar að segja ykkur litla sögu af frétt frá því í sumar, þegar verslunin kvartaði yfir kjötskorti.

Kjötskortur getur nú varla verið stórt vandamál á Íslandi, enda komu skjót viðbrög landbúnaðarráðuneytis, greinaskrif þingmanna og hagsmunaaðila um að allar skýrslur sýndu að það væri nóg til af kjöti.  Við seljum reyndar ekki skýrslukjöt í Bónus, en það er annað mál.  Það kom einnig fram að starfsmenn ráðuneytisins höfðu farið út í búð og séð kjöt.  Niðurstaðan var því sjálfgefin, það var enginn skortur á kjöti. Verslunin fór með rangt mál.

Innan okkar fyrirtækis rekum við kjötvinnslu. Á þessum tíma voru 58 starfsmenn á launaskrá þar. Auk þess starfar fjöldi fólks í verslunum okkar sem sinnir kjötvörum.  Fimm af sex afurðastöðvum landsins gátu ekki selt kjötvinnslu okkar lambakjöt vegna skorts á þessum tíma.  Ein var tilbúin að selja okkur takmarkað magn á verulega hærra verði en vikuna áður en hinn meinti kjötskortur átti sér stað og þeim kaupum fylgdu skilyrði.

Það sem gerði ástandið sérstakt á þessum tíma var að það var skortur á lambakjöti og nautakjöti, auk þess sem sýkingar í kjúklingaframleiðslu gerðu það að verkum að ítrekað vantaði vörur í verslanir. Markvisst hafði verið dregið út svínakjötsframleiðslu og verð hækkað.

Á þessum tíma kom eingöngu brot af því kjöti, sem verslanirnar pöntuðu til afgreiðslu.

Þegar málið kom upp upplýstum við um miklar hækkanir frá afurðastöðvum og framleiðendum á kjöti frá júní á síðasta ári og fram til sumarloka í ár.  Verðhækkanir voru langt umfram verðlag.  Við töldum þær óeðlilegar.

Áður hafði landbúnaðarráðherra gert  breytingu á fyrirkomulagi um framkvæmd alþjóðasamninga um innflutning á kjöti innan svokallaðra fríkvóta. Breytingin gerði það að verkum að það var ódýrara að flytja inn kjöt á þeim ofurtollum sem í gildi eru, en á fríkvótum skv. alþjóðlegum samningum okkar. 

Á 15 mánaða tímabili, þar sem verðbólga hafði mælst 5,27% hafði svínakjöt hækkað til okkar um 44%, nautakjöt um 25-28%, lambakjöt um 20% og kjúklingur um 20%. Vegin meðalhækkun kjötvöru var því um 28% í 5,27% verðbólgu.

Í framhaldi af þessu velti ég fyrir mér hvort hægt er að reikna út áhrifin af stefnu stjórnvalda í þessu máli.  Stjórnvöld loka augunum fyrir þeirri augljósu staðreynd að framleiðendur hafa í skjóli tollverndar og innflutningshafta, hækkað verð á allri kjötvöru til íslenskra heimila langt umfram verðlagsþróun.

Ef ég nota þá forsendu að kjöt hafi hækkað til allra á markaði, jafnmikið og það hækkaði til okkar fyrirtækis og að verðhækkun framleiðenda og afurðastöðva hefði skilað sér út í verðlagið eins og eðlilegt er, þá kemst ég að eftirfarandi niðurstöðu.

Kjöt vegur um 2,62% af vísitölugrunninum.

Eitt prósent hækkun á kjötvörum, veldur því 0,026% hækkun á vísitölunni. Ef kjöt hefði hækkað jafnt og verðlag almennt, hefði kjöthækkunin haft 0,13% áhrif til hækkunar  á vísitölunni.

Kjöt hækkaði hinsvegar um 28% á þessu tímabili miðað við hlutdeild kjöttegunda.

Sú hækkun gerir það að verkum að vísitöluáhrifin verða 0,7%.

Í júní síðastliðinn, skulduðu heimilin 1.300 milljarða króna hjá bönkum og lífeyrissjóðum.  Viðbótarhækkun vísitölunnar vegna kjötskorts um 0,57% hækkar þessi lán heimilanna um 7,6 milljarða króna.

Hafta og einangunarstefna stjórnvalda er dýr fyrir íslensk heimili.  Kostnaðurinn er víða falinn.

Verslunin vill sátt við bændur um breytingar á því kerfi sem nú er við líði.  Það er óásættanlegt að kerfið okkar sé með dýrustu kerfum veraldar á sama tíma og bændur njóta þess ekki, neytendur njóta þess ekki og skattgreiðendur, íslensk heimili borga fyrir óhagræðið.

Ég get ekki látið hjá líða að minna á að fjöldi vara í matvöruverslunum er margskattlagður. Við búum m.a. við vörugjöld, magntolla, verðtolla og virðisaukaskatt.   

Stjórnvöld lögðu á yfirstandandi kjörtímabili svokallaðan sykurskatt á hreint íslenskt vatn. Geri aðrir betur.

Einangrun, höft og óhófleg skattlagning í verslun með sjálfsagðar neysluvörur heimilanna er tímaskekkja. Hún er dýr fyrir heimilin og í mörgum tilfellum falin. Stjórnvöld verða að horfa á frjálsa verslun sem öflugt verkfæri til þess að styrkja efnahag heimilanna og þar með íslenskt atvinnulíf.  "

Glærur Finns Árnasonar, forstjóra Haga (PDF)

Tengt efni:

Smelltu til að sækja

Nýtt rit SA: Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)

Úr fjölmiðlum:

Stöð 2: Óeðlilegar verðhækkanir

vb.is: Grillkjötið reyndist allt of dýrt