Formannsskipti hjá SA

Finnur Geirsson, formaður Samtaka atvinnulífsins frá stofnun samtakanna árið 1999, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs nú í vor, en aðalfundur SA verður haldinn 29. apríl. Kjörgengir til formanns SA eru stjórnendur og stjórnarmenn aðildarfyrirtækja og aðildarfélaga samtakanna. Breið samstaða myndaðist meðal forystumanna aðildarfélaga SA um að leita til Ingimundar Sigurpálssonar, forstjóra Eimskipafélags Íslands hf., um að gefa kost á sér til formennsku. Ingimundur hefur orðið við þeirri beiðni og er einn um að hafa formlega lýst yfir framboði til formanns Samtaka atvinnulífsins starfsárið 2003-2004. Ingimundur hefur setið í stjórn SA í um tvö og hálft ár.

Formaður kosinn í beinni póstkosningu
Samkvæmt samþykktum Samtaka atvinnulífsins skal formaður samtakanna kosinn árlega í beinni óbundinni póstkosningu allra aðildarfyrirtækja. Skal kjörstjórn minnst tveimur vikum fyrir aðalfund senda út atkvæðaseðla í samræmi við gildandi atkvæðaskrá með áskorun til félaga um kosningu formanns, sem nú hefur verið gert. Atkvæði í formannskjöri skulu talin á aðalfundi og úrslit tilkynnt þar, en sem fyrr segir verður aðalfundur SA haldinn þriðjudaginn 29. apríl nk.

Sjá nánari upplýsingar um aðalfund SA