Efnahagsmál - 

03. febrúar 2006

Formanni svarað

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formanni svarað

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, forstöðumanns stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu:

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, forstöðumanns stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu:

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, ritar grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann finnur ráðstefnunni Orkulindinni Ísland allt til foráttu. Skal hér brugðist við nokkrum atriðum sem fram koma í grein formannsins, en þar er vægast sagt af mörgu að taka.

Um könnun Gallup

Fyrst ber að nefna umfjöllun formannsins um könnun sem IMG Gallup gerðu að beiðni Samtaka atvinnulífsins, um afstöðu til virkjana, áliðnaðar og umhverfismála. Könnunina er hægt að skoða í heild á vef SA, sa.is. Spurt var tólf spurninga og kýs formaðurinn að einblína á eina sem sker sig nokkuð úr, en þegar spurt er hvort svarendur séu hlynntir eða andvígir frekari uppbyggingu áliðnaðar hér á landi segjast 47,5% vera hlynntir, 37% andvígir en 15,5% taka ekki afstöðu. Formaðurinn segir þetta sýna að þjóðin sé þverklofin í afstöðu sinni. Athyglisvert er að bera þessa niðurstöðu saman við svörin þar sem uppbygging áliðnaðar er tengd virkjun endurnýjanlegra orkuauðlinda. Þegar spurt er hvort svarendur séu jákvæðir eða neikvæðir gagnvart frekari uppbyggingu áliðnaðar sem byggir á gufuaflsorku segjast 58,6% vera jákvæðir, 25,6% neikvæðir og 15,7% taka ekki afstöðu. Ef spurt er á sama hátt um vatnsorku og áliðnað eru 52,6% jákvæðir, 33,7% neikvæðir en 13,7% taka ekki afstöðu. Stuðningur við áframhaldandi uppbyggingu áliðnaðar mælist sem sagt mun meiri þegar sú uppbygging er tengd virkjun orkuauðlindanna.

10% andvíg frekari virkjun gufuafls

Með virkjun fallvatna eða háhitasvæða til raforkuframleiðslu og sölu til orkufrekra iðnfyrirtækja er orkuauðlindum Íslands umbreytt í útflutningstekjur. Óhjákvæmilegt er að fjalla um uppbyggingu virkjana og stóriðju saman því frekari uppbygging áliðnaðar án þess að virkjað sé er ekki möguleg. Mikil neikvæð umræða um virkjanir og áliðnað virðist hins vegar hafa meiri áhrif á afstöðu fólks til áliðnaðarins heldur en orkuiðnaðarins. Erfitt er að fullyrða um ástæður þess, en þess má þó geta að þótt 72% svarenda telji álfyrirtæki á Íslandi standa sig vel í umhverfismálum (en 16% illa) þá eru það vissulega álverin fremur en virkjanirnar sem valda mengun. Álver sem byggja á kolabrennslu valda þó 5-6 sinnum meiri mengun en álver sem byggja á endurnýjanlegum orkulindum, líkt og hér á landi. Ál verður áfram framleitt í heiminum og við notum öll hluti og þjónustu sem byggir á áli.

Ekki verður lokið við þessa umfjöllun um könnun IMG Gallup án þess að rifja upp að 57% svarenda eru hlynntir frekari virkjun vatnsafls hér á landi, 28% andvíg, og að 77% svarenda eru hlynntir frekari virkjun gufuafls hér á landi, 10% andvíg. Í umræðunni er spjótunum gjarnan beint gegn frekari virkjunarframkvæmdum sökum áhrifa þeirra á náttúru landsins. En eru þessar mælingar vitnisburður um að þjóðin sé þverklofin í afstöðu sinni til virkjana?

Áhrifin á aðrar útflutningsgreinar

Formaðurinn lýsir furðu sinni á því að Samtök atvinnulífsins komi að ráðstefnuhaldi þar sem m.a. er vakin athygli á ýmsum jákvæðum áhrifum ál- og orkuframleiðslu á íslenskt samfélag. Spyr hann m.a. hvort samtökin séu ekki jafnframt samtök annarra útflutnings- og samkeppnisgreina, sem hann segir nú sem óðast "rutt úr vegi í þágu álvæðingarinnar". Þess ber hér fyrst að geta að hátt gengi íslensku krónunnar verður ekki nema að hluta rakið til mikilla virkjana- og álversframkvæmda, en kerfisbreytingar á fjármálamarkaði, og mikil eignaaukning í kjölfarið, vega þar þyngra. Hitt veit formaðurinn mæta vel, að Samtök atvinnulífsins (og Samtök iðnaðarins sem fá sömu gagnrýni formannsins) hafa ítrekað og árum saman haldið fram nauðsyn öflugra mótvægisaðgerða í fjármálum hins opinbera, einmitt til þess að forðast svonefnd ruðningsáhrif af stórframkvæmdum á sviði orku- og áliðnaðar. Samtökin hafa árum saman gagnrýnt ríki og sveitarfélög fyrir að standa sig ekki nægilega vel í þessum efnum.

"Þrælabúðir"

Að lokum er rétt að gera hér athugasemd við þær köldu kveðjur sem formaðurinn sendir því fólki sem starfar að framkvæmdunum við Kárahnjúkavirkjun. Þarna vinna þúsundir karla og kvenna á grundvelli sérstaks kjarasamnings, svonefnds virkjunarsamnings, sem ákvarðað hefur lágmarkskjör við allar virkjunarframkvæmdir frá því á 8. áratug síðustu aldar, og felur m.a. í sér hærri launataxta en í gildi eru fyrir sambærileg störf utan virkjunarsvæða. Á þessum þenslutímum hefur ekki gengið vel að manna þessi hálendisstörf Íslendingum enda mikil umframeftirspurn eftir starfsfólki. Engu að síður hafa hundruðir Íslendinga kosið að starfa við þessar framkvæmdir á hálendinu, flestir hjá íslenskum undirverktökum aðalverktakans en þó hefur hann haft umtalsverðan fjölda Íslendinga í vinnu, þótt stór meirihluti sé af erlendu bergi brotinn. Aðbúnaður og aðstæður við byggingu Kárahnjúkavirkjunar eru á allan hátt sambærilegar við fyrri virkjunarframkvæmdir á hálendinu og eftirlitsstofnanir og verkalýðshreyfing fylgjast náið með því að farið sé eftir þeim reglum sem um framkvæmdirnar gilda. Það er því ekki sæmandi af formanninum að nota orðaleppinn "þrælabúðir" um þennan vinnustað.

Samtök atvinnulífsins