Formaður SVÞ: Mikilvægt að ná samstöðu um brýnar samgönguframkvæmdir

Samtök atvinnulífsins héldu í morgun opinn fund um mikilvægi þess að fjárfesta í samgöngubótum. Í upphafi fundar lagði Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ og  fundarstjóri, áherslu á mikilvægi hagvaxtar og fjárfestingar til að styrkja samkeppnishæfni atvinnulífsins og skapa störf. Mikið hefði verið rætt um auknar samgönguframkvæmdir í því sambandi en þær ættu sér margar hliðar. Ræðumenn  á fundinum voru Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI, Kristján Möller, alþingismaður og formaður iðnaðarnefndar, og Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga.

Umfjöllun um erindi frummælenda má nálgast á vef SA hér að neðan, en í lok fundar sagði Margrét tvo kosti vera í stöðunni: Að fara leið sérstakrar fjármögnunar þessara mikilvægu samgönguframkvæmda og framkvæma þær á næstu árum. Um það hefði verið þverpólitísk samstaða á Alþingi. Nú hefðu þessi áform verið slegin af vegna ósamstöðu. Því þyrftu hlutaðeigandi sveitarfélög, FÍB, stjórnmálamenn og aðilar vinnumarkaðarins og koma sameiginlega að borðinu og marka stefnuna. Hinn kosturinn væri að framkvæma þessar brýnu samgöngubætur á 25 árum sem ekki væri áhugaverð framtíðarsýn.