Formaður SVÞ: Hingað og ekki lengra

Atvinnulífið og krónan  

var yfirskrift aðalfundar SVÞ sem haldinn fimmtudaginn 17. mars. Margrét Kristmannsdóttir formaður SVÞ flutti þar skelegga ræðu og gagnrýndi m.a. stjórnvöld harðlega.  Hún sagði móralinn í landinu einfaldlega orðinn þannig að ógerlegt væri að halda áfram án breytinga. "Ég lít á þetta ekki ósvipað og þegar íþróttalið lenda í vandræðum. Þá er oft gripið til þess ráðs að reka þjálfarann - þó enginn viti með vissu hvort nýi þjálfarinn muni standa sig betur. Þetta er hins vegar talin fljótlegasta leiðin til að ná liðinu aftur á skrið."

Margrét sagði að taka verði stöðu mála alvarlega. "Menn eru þreyttir - vonlitlir - svartsýnir - reiðir - enda leitandi að þeim aðila í samfélaginu sem talar kjark og kraft í þjóðina."

Margréti ræddi um stöðu atvinnulífsins og stjórnmálanna.

"Ég hef ítrekað haldið því fram að hlutverk okkar hjá SVÞ og SA sé að reka atvinnupólitík - ekki pólitík. Ég hef lagt áherslu á að það sé hlutverk okkar að starfa með hvaða flokkum sem er og að allar okkar ákvarðanir séu teknar á faglegum grunni. Ég hef verið þeirra skoðunar að þeir sem hafa viljað fara aðra leiðir séu á rangri hillu og eigi ekki að starfa að hagsmunagæslu. Hins vegar hef ég komist á þá skoðun að "nauðsyn brýtur lög" - nú sé einfaldlega þannig komið að atvinnulífið geti ekki setið lengur á sér og verði að segja hátt og skýrt - hingað og ekki lengra!"

Margrét sagði ljóst að þjóðin sé komin að ákveðnum tímamótum en það sé þó langt því frá svo að hægt sé að kenna ríkissstjórninni um allt sem miður fer.

"Ég fylli ekki þann flokk sem kyrjar í sífellu að allt sem miður fari á Íslandi í dag sé einni ríkisstjórn að kenna - enda það í versta falli ósanngjarnt. Ég tel jafnframt að allt of margir sem eiga að vera að leggja hönd á plóginn hafi misst allt frumkvæði - og horfi til ríkisstjórnarinnar með lausnir á öllum vandmálum og öllum verkefnum - stórum og smáum. Helsta verkefni núverandi ríkisstjórnar var rústabjörgun og ég er á þeirri skoðun að sagan muni dæma hana mun betur en almannarómur gerir um þessar mundir. En í stöðunni í dag er það hins vegar algjört aukaatriði. Að mínu viti er mórallinn í landinu einfaldlega orðinn með þeim hætti - að ógerlegt er að halda áfram án breytinga."

Margrét fjallaði um mikilvægi þess að skapa hagvöxt á ný.

"Mikilvægast er að ná hagvexti í gang á ný - og blómlegt atvinnulíf er undirstaða hagvaxtar. Nú er hins vegar svo komið að allt of mörg fyrirtæki eru eins og skrælnuð lauf sem kalla á betri rekstrarskilyrði - og verða mörg að fá betri rekstrarskilyrði innan fárra mánaða til að lifa af.

Við verðum að stækka kökuna þ.a. meira verði til skiptanna og til þess verðum við að nýta allar okkar auðlindir til sjávar og sveita á sjálfbæran hátt - og tryggja að við göngum ekki um auðlindir landsins eins og við séum síðasta kynslóðin sem muni erfa þetta land. Árið í fyrra skilaði okkur neikvæðum hagvexti og nú er fyrsti ársfjórðungur þessa árs að renna sitt skeið. Að óbreyttu munu fjárlög komandi árs verða okkur afar erfið, með enn meiri skattahækkunum og enn meiri niðurskurði. Sú vinna bíður allra þingmanna ef fer fram sem horfir.

Við verðum að skapa nýja þjóðarsátt. Til þess þurfum við ekki þjóðstjórn - til þess þurfum við ekki enn einar kosningarnar. Við þurfum ríkisstjórn um þjóðarhag. Ég tel að við séum kominn á þann tímapunkt að "þjálfaraskipti" eru óumflýjanleg og ríkisstjórnarflokkarnir þurfa að stokka upp í forystusveitinni."

Ræða Margrétar í heild sinni

Ítarlega umfjöllun um aðalfund SVÞ má nálgast á vef samtakanna:

Aðalfundur SVÞ 2011