Formaður SVÞ: Brýnt að skapa nýja þjóðarsátt

"Það er ljóst að fjárlög komandi árs verða þjóðinni afar erfið og því brýnt að skapa nýja þjóðarsátt um framhaldið. Til þess þurfum við ríkisstjórn um þjóðarhag - ríkisstjórn með virkan þingmeirihluta,  sem býr ekki við hótanir einstakra stjórnarliða í hverju málinu á eftir öðru. Ef þessi ríkisstjórn á að eiga einhverja möguleika á því - að sitja með sæmd út kjörtímabilið - verður Samfylkingin að stíga niður fæti - og neita að vera eins og meðvirkur maki í ofbeldishjónabandi. Við erum komin með þann stimpil - að hér sé áhættusamara að fjárfesta en í nokkru öðru landi í Vestur-Evrópu."

Þetta sagði Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu í upphafi ávarps á opnum fundi SA um atvinnumál sem fram fór fyrr í dag. Margrét fjallaði um þær hindranir sem eru framundan og ryðja þarf úr vegi til að hefja nýja atvinnusókn. Hún ræddi um Evrópumálin, stuðning SVÞ við aðildarumsókn Íslands að ESB og gjaldmiðilsmál Íslendinga auk þess að ræða þau tækifæri sem hægt er að nýta til að efla land og þjóð.

Margrét Kristmannsdóttir.

"Það eru alltaf tækifæri og í núverandi stöðu leggjum við áherslu á - að flytja verslun til landsins.  Í fyrsta lagi með því að taka af krafti þátt í því starfi er snýr að fjölgun ferðamanna til landsins - ekki síst yfir vetrarmánuðina. Í öðru lagi viljum við flytja inn verslun Íslendinga sem hið opinbera flytur úr landi með skattlagningu. Þekktasta dæmið um þetta er að af þeim 90.000 i-podum sem til eru í landinu eru yfir 70.000 keyptir erlendis og má áætla að ríkissjóður hafi orðið af um 250 milljónum með ofurskattlagningu á þessari einu vörutegund.  Aðilar í byggingaverslunum telja að hægt sé að örva viðhaldsmarkaðinn ef vörugjald yrði afnumið af t.d. gólfefnum, hreinlætistækjum o.fl.  Mikill samdráttur er í fataverslun og er ekki spurning að niðurfelling vörugjalda þar myndi blása nýju lifi í þá verslun - og því ekki að taka Breta okkur til fyrirmyndar og afnema virðisaukaskatt af barnafötum?"

Formaður SVÞ vék einnig að nauðsynlegum breytingum á úreltu vörugjaldakerfi og landbúnaðarkerfinu í ræðu sinni. Margrét sagði ýmislegt ganga vel í atvinnulífinu en staða margra sé þó alvarleg og við því þurfi að bregðast. Hún hvatti því stjórnendur og stjórnmálamenn til að leggja sitt af mörkum til þess að snúa þróuninni við.

Erindi Margrétar og glærur má sjá hér að neðan:

"Formaður - ágæta samkoma

Það er ekki óeðlilegt að líta á stöðuna framundan sem hálfgert hindrunarhlaup og það má segja að framundan séu hindranir sem eru á okkar færi að komst yfir - en jafnframt hindranir sem við fáum engu um ráðið. (Glæra)

Það er ljóst að fjárlög komandi árs verða þjóðinni afar erfið og því brýnt - að skapa nýja þjóðarsátt um framhaldið. Til þess þurfum við ríkisstjórn um þjóðarhag - ríkisstjórn með virkan þingmeirihluta,  sem býr ekki við hótanir einstakra stjórnarliða í hverju málinu á eftir öðru.  Ef þessi rikisstjórn á að eiga einhverja möguleika á því - að sitja með sæmd út kjörtímabilið - verður Samfylkingin að stíga niður fæti - og neita að vera eins og meðvirkur maki í ofbeldishjónabandi.  Við erum komin með þann stimpil - að hér sé áhættusamara að fjárfesta en í nokkru öðru landi í Vestur-Evrópu.

Nýjasta dæmið er að á sama tíma og forsætisráðherra fagnar fréttum um erlendar fjárfestingar á Grímsstöðum - lætur sá ráðherra sem fer með forræði ríkisins í  málinu hafa þetta eftir sér (Glæra).   Maður verður náttúrulega bara kjaftstopp - enda er ekki boðlegt að taka á móti erlendum fjárfestum með fyrirfram gefinni tortryggni.   Ríkisstjórnin verður þvi að svara því sjálf með verkum sínum - hvort að hún er hugsanlega stærsta hindrunin sem ryðja þarf úr vegi (Glæra).

Ekkert aðildarfélag innan SA hefur eins víðtækan stuðning við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og SVÞ. (Glæra) Og hvað sem má svo sem segja um þetta stjórnarsamstarf er þetta í augnablikinu eina samstarfið sjáanlegt - sem mun tryggja að umsóknarferlið haldi áfram - þó með hangandi haus sé.  Samkvæmt skoðanakönnunum vilja 64% landsmanna klára umsóknarferlið - og ég er ekki í nokkrum vafa að innan atvinnulífsins er þetta hlutfall enn hærra. 

Örmynt eins og íslenska krónan verður aldrei sá gjaldmiðill sem atvinnulífið þarf enda hafa stærstu fyrirtæki landsins þegar yfirgefið hana (Glæra).   Þetta geta hins vegar þorri íslenskra fyrirtækja og heimilin ekki gert.   Að svipta þau möguleikanum á þvi að sjá hvernig rekstrarumhverfi og lífskjör gætu breyst með aðild - er óþolandi forræðishyggja. Hlutverk stjórnvalda í þessu máli er að tryggja okkur sem bestan samning - en okkar að taka ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu.    

Stjórnmálamenn sem hafa skyndilega kúvent í Evrópumálum - virðast enda sumir fagna ástandinu í Evrópu þessa dagana.  Þeir koma nú fram og segja að til ESB sé ekkert sækja - lausnin felist í því að við þurfum sjálf að aga okkur.   En hér hræða sporin.  Enda segir hagstjórnarsaga undanfarna áratugi okkur allt um þann aga - sem við Íslendingar höfum haft.  En vissulega ber að fagna góðum ásetningi - en mín skoðun er - að Evrópusambandið myndi veita okkur góðan agaramma.   Enda finnst mér nokkur samhljómur að segja - að við þurfum nú einungis að aga okkur sjálf - og alkanum sem segist ætla að hætta að drekka á morgun.

En þá að tækifærunum - því það eru alltaf tækifæri og í núverandi stöðu leggjum við áherslu á - að flytja verslun til landsins.   Í fyrsta lagi með því að taka af krafti þátt í því starfi er snýr að fjölgun ferðamanna til landsins (Glæra).   - ekki síst yfir vetrarmánuðina.   Í öðru lagi viljum við flytja inn verslun Íslendinga sem hið opinbera flytur úr landi með skattlagningu.  (Glæra),  Þekktasta dæmið um þetta er að af þeim 90.000 ipodum sem til eru í landinu er yfir 70.000 keyptir erlendis og má áætla að ríkissjóður hafi orðið af um 250 milljónum með ofurskattlagningu á þessari einu vörutegund.   Aðilar í byggingaverslunum telja að hægt sé að örva viðhaldsmarkaðinn ef vörugjald yrði afnumið af t.d. gólfefnum, hreinlætistækjum o.fl.   Mikill samdráttur er í fataverslun og er ekki spurning að niðurfelling vörugjalda þar myndi blása nýju lifi í þá verslun - og því ekki að taka Breta okkur til fyrirmyndar og afnema virðisaukaskatt af barnafötum?  (Glæra)

Að frumkvæði SVÞ stendur nú yfir greining á vörugjaldakerfinu í samvinnu við  fjármálaráðuneytið.   Hér inni eru þingmenn sem hafa þetta hins vegar allt í hendi sér - það er ykkar að breyta þessu kerfi nú í vetur.  Vörugjaldakerfið stórskaðar innlenda verslun  og á þessum erfiðu tímum kemur ákall frá versluninni - ÁKALL - að þessari atvinnugrein verði gert kleift að vera samkeppnishæf við nágrannalöndin þ.a. verslun flytjist heim, skapi störf og tekjur. 

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum að mikil umræða hefur verið um kjötskort undanfarnar vikur og landbúnaðarkerfið.  (Glæra) - kerfi sem allir tapa á -  skattgreiðendur, neytendur - en ekki síst bændur sjálfir.  En hugsanlega er kerfi ekki réttnefni því þegar starfsmannafjöldi SA og allra aðildarfélaga er borinn saman við ríkisrekinn starfsmannafjölda Bændasamtakanna kemur eftirfarandi í ljós (Glæra).  Er eitthvað skrýtið þó að aðrar atvinnugreinar í landinu verði hugsi.   Að það þurfi svo til sama starfsmannafjölda til að halda upp hagsmunagæslu fyrir bændur og restina af atvinnulífinu.   En til að fyrirbyggja allan misskilning á verslunin ekki í stríð við bændur - heldur kerfið sem hið opinbera hefur gert þeim að starfa í.  (Glæra)

Undanfarna áratugi hefur lítið gengið að hrófla við þessu kerfi - og maður hefur stundum á tilfinningunni að það séu 63 bændur inn á þingi.   En núverandi landbúnaðarráðherra hefur hins vegar stigið skref aftur á bak og svo gott sem komið í veg fyrir alla erlenda samkeppni á kjötmarkaðinum - með því að þverbrjóta gildandi alþjóðasamninga.   Sem dæmi þá skuldbatt ríkið sig (Glæra) til að flytja inn 59 tonn (neðsta línan) af alifuglakjöti á lægri tollum - og voru þessi 59 tonn þá um 3% af neyslu Íslendinga.   Þessi innflutningur átti síðan að fylgja 3% af neyslu landsmanna - (rauða línan) og aukast í 5%  (bláa línan).   En hvað gerum við?   Jú - við höfum alla tíð haldið okkur við neðstu línuna.  Ef samningnum hefði hins verið fylgt þá gæti verslunin nú flutt inn um 350 tonn.   Þannig að ekki einu sinni erum við að brjóta samninga um að miða okkur við aukna neyslu - heldur virðum ekki einu sinni að flytja inn upphaflegu tonnin.   Við Íslendingar erum oft eins og barbarar þegar kemur að alþjóðaviðskiptum - viljum fá allt fyrir ekkert.  Sjálf teljum við sjálfsagt að flytja út landbúnaðarvörur, en lokum á sama tíma öllum dyrum fyrir innflutningi.  

Afhverju er íslenskum neytendum gert að greiða miklu hærra verð fyrir t.d. kjúklinga- og svínakjöt en hægt væri að bjóða þeim upp á?  Þessi kjötskortur hefur valdið 20 - 40% verðhækkun á heildsöluverði í 5% verðbólgu?   Og þið haldið að þetta hafi ekki áhrif inn í vísitöluna?   Við Íslendingar eigum að sameinast um að standa vörð um hinn hefðbundna landbúnað í sveitum landsins - en setjum ekki iðnaðarframleitt kjúklinga- og svínakjöt sem að mestu fer fram í verksmiðjum í útjaðri höfuðborgarsvæðisins undir sama hatt. 

En því skyldum við leggja svona mikla áherslu á þetta mál?   Jú einfaldlega vegna þess að þegar fjölskyldur landsins eru búnar að borga afborganir og vexti, skatta, tryggingar, og kaupa í matinn er hjá mörgum afar lítið ef nokkuð eftir - og það kemur mjög illa niður á annarri verslun.   Og þegar landbúnaðarvörur vega um 45% af matarkörfu heimilisins er ekki að undra að við viljum gera allt til að lækka matarverð og færa þá neyslu yfir í aðrar greinar verslunar og þjónustu. (Glæra) Sá tilflutningur gæti skipt sköpum á komandi misserum - því um hver mánaðarmót fer fram barátta um þær krónur sem eru afgangs.

En þegar allt er týnt til óttast ég samt mest af öllu nokkurs konar andlegt gjaldþrot margra kollega minna - enda margir baráttulúnir eftir 3ja ára streð.  Það er því lykilatriði að við í forystusveit atvinnulífsins gerum allt til að viðhalda baráttuþreki hjá atvinnurekendum og forðumst að koma fram eins og grátkór, sem málar þá mynd að hér sé allt að fara til helvítis - því afkomutölur í mörgum greinum atvinnulífsins segja aðra sögu.  Hins vegar er staðan alvarleg hjá mörgum, ekki síst í versluninni og því verðum við í sameiningu að vinna upp glataðan tíma.  Hér þarf pólitíkin ekki síður að taka sér tak enda var nýafstaðið haustþing flestum til vansa og beini ég því til þingmanna - örugglega í nafni allra landsmanna - að þegar þing kemur saman 1. október n.k. og fer að vinna eftir nýjum þingskaparlögum - að þingmenn núllstilli sig - og taki upp ný vinnubrögð.

Eins og ég sagði áðan er í þeirri vinnu sem framundan er lykilatriði að halda baráttuþrekinu í hæstu hæðum þ.a. ég ætla að lokum að gefa ykkur mitt leyndarmál til að setja sig í stellingar fyrir daginn......algjörlega óbrigðult ráð til að mæta hressastur í vinnuna á morgnana og vera þessi fyrirmynd sem við þurfum að vera.   Nokkrir hér inni hafa prófað þetta, þetta svínvirkar en er um leið ótrúlega hallærislegt - en hvað um það.

Um leið og þið komið út í bíl á morgnana eigið þið að slökkva á útvarpinu í bílnum - alls ekki hlusta á Bylgjuna, Rás eitt eða Rás 2.   Setjið Abba, Björgvin Halldórsson, Queen eða álíka músík í geislaspilarann (Glæra) - stillið á hæsta og syngið af lífs og sálarkröfum alla leið í vinnuna.   Þá fer endorphin framleiðslan á fullt - þetta náttúrulega gleðiefni líkamans - og trúið mér - þið mætið syngjandi kát í vinnuna - í bókstaflegri merkingu og gefið tóninn fyrir alla sem vinna hjá ykkur;  að framundan sé frábær vinnudagur. (Glæra)"

Tengt efni:

Glærur Margrétar (Power Point)

Frétt RÚV frá fundi SA

Grímur Sæmundsen varaformaður SA og Margrét Kristmannsdóttir formaður SVÞ ræddu stöðuna í atvinnumálunum á Bylgjunni.