Formaður SI: Aukin fjárfesting í öllum greinum atvinnulífsins nauðsynleg

Samtök iðnaðarins efndu til almenns félagsfundar í morgun á Hótel Nordica um stöðu og horfur í yfirstandandi kjaraviðræðum og atvinnulífinu almennt. Helgi Magnússon, formaður SI, sagði m.a. að auka verði fjárfestingu í öllum greinum atvinnulífsins - jafnt í stórum fyrirtæjum sem smáum - ef takast eigi að kveða niður það mikla atvinnuleysi sem Íslendingar búi nú við. Þörf sé á nýrri atvinnusókn til að vinna til baka töpuð lífskjör.

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram sýn SA á leiðina út úr kreppunni og hefur hún verið nefnd atvinnuleiðin. Helgi ræddi megininntak hennar en hann sagði það sameiginlega hagsmuni landsmanna að atvinnuleiðin verði farin þannig að hægt sé  að skapa umtalsverðan hagvöxt á næstu árum, kveða niður atvinnuleysið og skapa ný störf.

Atvinnuleiðin byggir á því að gerðir verði kjarasamningar til næstu þriggja ára sem lagt geti grundvöll að stöðugleika og tiltrú á batnandi tíð. Helgi sagði það sameiginlegt verkefni aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingarinnar, Alþingis og ríkisstjórnarinnar að velja atvinnuleiðina út úr kreppunni.

Þá sagði formaður SI það ljóst að standa verði þétt gegn kröfum fámennra hópa á vinnumarkaðnum um tuga prósenta launahækkanir á meðan almennt ríki um það góður skilningur í samfélaginu að samið verði um sambærilegar launahækkanir fyrir alla hópa með áherslu á að auka kaupmátt fólks í stað þess að hleypa verðbólgunni af stað með tilheyrandi tjóni.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, svöruðu á fundinum félagsmanna SI en kjaraviðræður eru nú í fullum gangi við ASÍ og landssambönd þess.

Tengt efni:

Ályktun stjórnar SA um atvinnuleiðina 1. febrúar 2011