Formaður SA: Vinnum saman

"Samtök atvinnulífsins vilja kalla sem flesta til samvinnu um að skapa fleiri störf og betri störf. Við munum á næstu vikum móta sameiginleg áhersluatriði í þessum efnum með Alþýðusambandi Íslands. Í kjölfarið verður óskað eftir viðbrögðum stjórnmálaflokkanna. Von okkar er sú að það sé grundvöllur að víðtækri samvinnu stjórnmálamanna og samtaka á vinnumarkaði þar sem markmiðið verði að sækja fram, skapa fleiri og betri störf, auka hagvöxt og bæta lífskjör."

Vilmundur Jósefsson, formaður SA.

Mynd: BIG

Þetta sagði Vilmundur Jósefsson, formaður SA, m.a. við upphaf opins fundar SA um atvinnumálin sem fram fór í Hörpu í morgun. Vilmundur kynnti þar nýtt tímarit Samtaka atvinnulífsins þar sem er að finna uppskriftina að fleiri og betri störfum á Íslandi.  

"Við héldum til fundar við stjórnendur fjölmargra fyrirtækja til að rekja úr þeim garnirnar um hvernig fyrirtækin hafi brugðist við í kjölfar efnahagshrunsins og ekki síst um hvernig þau hyggjast sækja fram.

Niðurstaðan liggur fyrir framan ykkur í nýju tímariti sem kemur út í dag. Það kemur í ljós ákaflega áhugaverð mynd þegar ritið er lesið. Fyrirtækin eru öll í sóknarhug. Þeir sem ekki sækja fram dragast aftur úr. Fyrirtækin leggja áherslu á að skapa aukin verðmæti með nýjum vörum, nýrri þjónustu, rannsóknum, nýsköpun og vöruþróun. Þau leggja áherslu á umhverfismál, sjálfbæra nýtingu auðlinda og að skapa sér framtíðarsýn um vöxt og ábata fyrir eigendur og aðra sem hagsmuni eiga undir velgengni fyrirtækjanna.

Í ritinu kynnumst við því hvað fyrirtækin telja að megi betur fara í starfsumhverfinu, hvað stöðugleikinn er mikilvægur og hvað óvissa er vond, hvað einfalt og gott skattkerfi skiptir miklu máli, hvað skilvirkt menntakerfi er mikilvægt, hvað gjaldeyrishöftin eru skaðleg og að samkeppnishæft rekstrarumhverfi er forsendan fyrir auknum hagvexti og bættum lífskjörum almennings í landinu."