Formaður SA: Sköpum 2011

Nú í lok desember 2010 er atvinnuleysi allt of mikið hér á landi. Það er nánast óbreytt frá fyrra ári þrátt fyrir að þúsundir manna hafi flutt úr landi á þessu og síðasta ári og reyni fyrir sér annars staðar þar sem betra ástand ríkir á vinnumarkaði. Atvinnuleysið er skýrasta birtingarmynd úrræðaleysis stjórnvalda og fækkun starfa er afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum, andstöðu við fjárfestingar stórar sem smáar, gjaldeyrishöftum, háu vaxtastigi, óvissu sem stjórnin hefur skapað í sjávarútvegi og almennum seinagangi við úrlausn mála. Stjórnmálamenn verða að sýna að þeir standi undir þeirri ábyrgð sem þeim er falin. Skollaleikurinn í þinginu er algjörlega ólíðandi.

Samtök atvinnulífsins vinna nú að undirbúningi kjarasamninga sem vonandi geta stuðlað að  stöðugleika og vinnufriði til næstu þriggja ára og lagt grunn að nýrri sókn í atvinnumálum. Til þess að það geti tekist þarf að snúa við blaðinu, hætta að horfa í baksýnisspeglana og leysa þess í stað þau mál sem brýnust eru - hvert af öðru. Þannig er unnt að komast á nýja braut framfara.

Sköpum atvinnu
Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram ítarlega stefnumörkun í efnahags- og atvinnumálum sem miðar að því að útrýma atvinnuleysi og skapa störf fyrir þá sem koma nýir inn á vinnumarkaðinn á komandi árum.  Nauðsynlegt er að árlegur hagvöxtur verði í kringum 5% svo lífskjör geti batnað. Því lengur sem dregst að ná þessu marki þeim mun lengur mun það taka þjóðina að ná þeirri velmegun og velferð sem hún bjó við fyrir hrunið 2008. Árið 2010 er því miður að renna sitt skeið án þess að sá viðsnúningur hafi orðið sem mögulegur var.

Meginleiðin til að ná aftur fyrri styrk er með fjárfestingum í atvinnulífinu og þá fyrst og fremst í útflutningsgreinum. Fjárfestingar eru nú minni hlutfallslega en nokkru sinni undanfarin 70 ár. Með sama áframhaldi mun samkeppnishæfni atvinnulífsins versna og engin leið verður til að endurheimta fyrri lífskjör á skömmum tíma.

Atvinnulífið þarf að búa við stöðugleika, greiðan aðgang að erlendu og innlendu lánsfé án gjaldeyrishafta og hér verða samkeppnisskilyrði að vera hagstæð þeim sem vilja fjárfesta og byggja upp eigið fé atvinnulífsins og nýja starfsemi. Stjórnvöld verða að vinna með atvinnulífinu til að stórfjárfestingar í orkugeiranum og tengdri framleiðslu nái fram að ganga. Ófært er að þær stöðvist vegna pólitískra kredda eða hugsjóna. Hraða verður uppbyggingu í ferðaþjónustu sérstaklega utan háannatíma.  Skapa verður sátt til frambúðar við þá sem starfa í sjávarútvegi um stjórn fiskveiða, sjávarútvegur er vel rekin atvinnugrein og Íslendingar þurfa á öllu sínu að halda til að komast upp úr kreppunni.

Markmiðið þarf að vera að auka útflutning um 7-8% á ári á næstu árum til að skapa nauðsynlegan hagvöxt. Engin leið er til þess að hagvöxtur byggður á einkaneyslu leysi þann vanda sem við er að etja. Útflutningur þarf að aukast á öllum sviðum, þ.e. frá sjávarútvegi, stóriðju, ferðaþjónustu, hátæknifyrirtækjum og öðrum greinum. Lágt gengi krónunnar næstu ár skapar tækifæri til fjárfestinga í arðbærum útflutningsfyrirtækjum ef starfsskilyrðin eru eins og best verður á kosið og allt verður gert til að laða fram sóknarhug og hvetja fólk og fyrirtæki til dáða.

Sköpum líf
Í fyrirtækjunum endurspeglast væntingar og viðhorf almennings til framtíðarinnar. Með stöðugleika, sóknarhug og með því að eyða óvissu geta stjórnvöld skapað þannig umhverfi að fyrirtæki hefji fjárfestingar að nýju. Stöðugleiki og vissa um framtíðina ýtir undir að fólk vilji hefja rekstur og taka áhættu til að geta notið ávinnings ef vel gengur.

Til þess að þetta geti orðið þarf skattkerfið að stuðla að samkeppnishæfni efnahagslífsins og skapa aðlaðandi skilyrði fyrir innlenda og erlenda fjárfesta. Hóflegar álögur og einfalt skattkerfi er líklegast til að skila ríkissjóði mestum ávinningi til lengri tíma og um leið til að ýta undir hagvöxt, tryggja atvinnu og betra líf almennings.

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að aðilar á vinnumarkaði taki yfir stjórn og rekstur atvinnuleysistrygginga og telja að með því megi ná mun meiri skilvirkni, auka eftirlit og koma fólki hraðar til starfa að nýju.

Sköpum 2011
Samtök atvinnulífsins telja algera nauðsyn að hefjast þegar handa við þau stóru verkefni sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Samtökin eru reiðubúin að leggja sitt af mörkum til að hefja á árinu 2011 nýja sókn sem byggir á bættum  samkeppnisskilyrðum atvinnulífsins, sókn til fjölgunar starfa og bættra lífskjara í landinu.

Það veldur hver á heldur.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA - skrifað á síðustu dögum ársins 2010.

Greinin birtist í Fréttablaðinu.