Formaður SA: Samningsrof ríkisstjórnarinnar

"Fjármálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um að leggja á kolefnisgjald á rafskaut í orkufrekum iðnaði frá ársbyrjun 2013. Ráðherra gengur þarna gegn samkomulagi sem gert var við Samtök atvinnulífsins og stóriðjufyrirtækin í desember 2009. Þar féllust Alcoa á Reyðarfirði, Alcan í Straumsvík, Elkem og Norðurál á að greiða fyrirfram tekjuskatta á árunum 2010-12 til að létta undir með rekstri ríkissjóðs. Þess í stað féll ríkið frá álagningu kolefnisgjalds á rafskaut. Markmið samkomulagsins var að þegar viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir tæki gildi 2013 yrðu starfsskilyrði fyrirtækjanna almennt ekki verri en í Evrópu.

Áform ríkisstjórnarinnar eru skýrt brot á samningunum við fyrirtækin. Kolefnisgjald á rafskaut er hvergi innheimt í ESB og þýddi að starfsskilyrði fyrirtækjanna hér yrðu mun verri en annarra. Stóriðjufyrirtækin munu þurfa að kaupa hluta af losunarheimildum frá 2013 og ríkissjóðir á evrópska efnahagssvæðinu munu öðlast hlutdeild í tekjum vegna sölu losunarheimilda á markaði. Íslenska ríkið mun væntanlega öðlast hlut í tekjum vegna sölu losunarheimilda strax 2012 og enn meiri 2013.

Einnig stendur yfir endurskoðun á reglum ESB um samræmda skattlagningu á orkugjafa. Þar kemur fram að fyrirtæki í orkufrekum iðnaði séu undanþegin viðbótar skattlagningu á losun. Tvöföld skattheimta sé ekki til þess fallin að draga frekar úr losun heldur til að auka kostnað fyrirtækjanna og rýra samkeppnisstöðu þeirra gagnvart fyrirtækjum utan evrópska efnahagssvæðisins.

Nú standa nú yfir viðræður við erlend fyrirtæki um orkukaup og uppbyggingu framleiðslu m.a. á Bakka við Húsavík. Áform ríkisstjórnarinnar bregða fæti fyrir samningaviðræður og munu verða til að lækka verð til íslenskra orkufyrirtækja og hindra áformaða uppbyggingu. Fyrirtæki og fjárfestar hverfa á braut og atvinnuleysið eykst.

Það er bæði slæmt og skaðlegt að ráðherrar í ríkisstjórninni ganga ítrekað gegn yfirlýsingum sínum munnlegum og skriflegum að ekki sé talað um skriflega lagalega bindandi samninga við einstök fyrirtæki. Þetta er ólíðandi."

Vilmundur Jósefsson, formaður SA

Greinin birtist í Fréttablaðinu 23. nóvember 2011