Formaður SA: Sala eigna getur lækkað árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs um þriðjung

"Þegar horft er til langs tíma blasa við mjög stór viðfangsefni. Þjóðin eldist og þeim fjölgar sem fara á eftirlaun og kostnaður við lífeyris- og heilbrigðiskerfið mun aukast. Um leið fækkar þeim hlutfallslega sem standa undir velferðarkerfinu.

Við höfum séð það á undanförnum árum að skattar sem fyrirtækin greiða til ríkisins hafa aukist hlutfallslega mun meira en skattar á einstaklinga. Það getur verið að stjórnmálamönnum finnist þægilegra að skattleggja atvinnulífið beint fremur en að auka skatta á einstaklingana. Fyrirtækin greiða jú ekki atkvæði í kosningum.

En þegar upp er staðið greiða fyrirtækin ekki þessa skatta heldur innheimta þá hjá viðskiptavinum sínum. Þegar ekki tekst að hækka verð vöru og þjónustu þá hafa fyrirtækin möguleika til að draga úr vöruþróun, nýsköpun, rannsóknum og fresta því í lengstu lög að ráða til sín nýtt starfsfólk. Þau draga úr fjárfestingum.

Dæmi um þetta allt höfum við séð á undanförnum árum. Kostnaður bankanna vegna sífellt hækkandi skatta og eftirlitsgjalda kemur fram í gjaldskrám þeirra. Mjög há veiðigjöld ásamt stöðugri óvissu um stjórn fiskveiða urðu til að draga úr fjárfestingum í sjávarútvegi. Tryggingargjaldið jafngildir því að 10 manna fyrirtæki sé með ellefta manninn á bekknum.

Það er engin leið til þess að aukin skattlagning geti leyst þau verkefni sem blasa við.

Þvert á móti þarf að draga úr skattlagningu á fyrirtækin og auka hvata þeirra til að byggja upp til framtíðar með fjárfestingum, rannsóknum, vöruþróun og markaðssókn. Þannig eykst samkeppnishæfni hagkerfisins. Skatttekjurnar aukast.

Samtök atvinnulífsins hafa lengi kallað eftir því að skattkerfið sé skilvirkt. Það þarf að vera laust við flækjur. Skattstofnar eiga að vera breiðir og sem mest án undanþága. Skatthlutföll þurfa að vera fá og sem lægst. Þannig er best að draga úr undanskotum. Nauðsynlegt er að skattkerfið sé fyrirsjáanlegt og að fólk og fyrirtæki geti tekið ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna sinna án þess geta átt von á því að skattkerfið kollvarpi öllum forsendum. Skref sem stigin hafa verið að undanförnu eru  mjög jákvæð. Þar á ég við afnám vörugjalda á mörgum vörutegundum, einföldun virðisaukaskattsins og fyrirhugaða lækkun gjalda á matvælum og fleiri vörum.

Stöðugleiki í efnahagslífinu er einnig viðfangsefni ríkisfjármálanna. Það verður að gæta  aðhalds í ríkisrekstrinum á tímum almennrar þenslu. Á undanförnum árum og áratugum höfum við oft séð að ríkisfjármálin hafi orðið til þess að magna efnahagssveiflurnar.

Á samdráttarárunum var dregið úr öllum fjárfestingum hins opinbera og þrengt að heilbrigðis- og menntakerfinu en sumar stofnanir fengu engu að síður að auka umsvif sín verulega.  Þar skorti á langtímasýn og forgangsröðun. Eftirlitsiðnaðurinn óx en grunnstoðir samfélagsins urðu veikari.

Í kjölfar efnahagshrunsins jukust skuldir ríkissjóðs mjög mikið og á árinu 2014 voru vaxtagreiðslur 11% af tekjum ríkissjóðs. Nú virðist ljóst að unnt verði að greiða niður skuldir ríkissjóðs verulega á næstu árum.  Annars vegar hefur verið ákveðið að slitabú fallinna banka greiði til ríkissjóðs svokallað stöðugleikaframlag og að í kjölfarið verði hin skaðlegu gjaldeyrishöft afnumin. Hins vegar getur ríkissjóður aflað nokkur hundruð milljarða króna með því að selja að hluta eða í heild eignir sínar í bönkunum, flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, ÁTVR, Íslandspóst ásamt hlut í Landsvirkjun og Landsneti. Sala eigna getur lækkað árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs um þriðjung. Ríkissjóður yrði þá vel búinn til þess að takast á við nauðsynlega fjárfestingu í innviðum á næstu árum þegar aðstæður leyfa, en víða hefur myndast mikil þörf til úrbóta, til dæmis í nýjum Landspítala, menntun og samgöngukerfinu.

Til þess að atvinnulífið geti sýnt styrk sinn er nauðsynlegt að fyrirtækin starfi í opnu og alþjóðlegu hagkerfi. Öflugt atvinnulíf er grunnur að betri lífskjörum. Ég hef þá trú að um það ríki pólitísk samstaða.

Ég þakka fulltrúum stjórnmálaflokkanna fyrir að koma og fjalla um þessi mál með okkur. Þau eru mjög brýn. Samtök atvinnulífsins vilja leggja sitt af mörkum og eru sem fyrr reiðubúin til samstarfs."

Ávarp Björgólfs Jóhannssonar, formanns SA, á opnum umræðufundi með stjórnmálaflokkunum um fjármál ríkisins sem fór fram miðvikudaginn 18. nóvember í Hörpu.