Formaður SA: Rauða ljósið hefur logað of lengi á Íslandi

"SA sætta sig hvorki við ástand efnahagsmálanna né horfurnar framundan. Spár benda til þess að hagvöxtur verði lítill, framkvæmdir í lágmarki, atvinnu­leysi mikið og að hægt muni ganga að bæta lífskjörin. Þetta þarf ekki að vera svona." Þetta sagði Vilmundur Jósefsson, formaður SA, við setningu fundar SA um atvinnumál sem nú stendur yfir.

Vilmundur Jósefsson

Í ávarpi sínu sagði Vilmundur ennfremur:

"Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað sent frá sér tillögur til að ná fram nauðsynlegum efnahagsbata, auka hagvöxt, draga úr atvinnuleysi, minnka brottflutning fólks af landinu og bæta lífskjör.

Því miður hefur íslensku þjóðinni ekki gengið vel að ná vopnum sínum eftir efnahagshrunið. Það má segja að síðan þá hafi rauða ljósið logað samfellt á Íslandi og komið í veg fyrir nauðsynlega endurreisn efnahagslífsins. 

Í gær samþykkti stjórn SA ályktun þar sem mótmælt er nýjum og síhækkandi sköttum sem einungis eru til þess fallnir að draga úr þrótti atvinnulífsins, fresta fjárfestingum og koma í veg fyrir framkvæmdir.

Þetta þarf ekki að vera svona.

Samtök atvinnulífsins leggja hér fram  fjölmargar tillögur til úrbóta og meðal annars má nefna þessar:

  • Móta verður efnahagsstefnu til lengri tíma sem snýst um stöðugleika með lágri verðbólgu, viðráðanlegu vaxtastigi og raunhæfu gengi gjaldmiðilsins. Hagstjórnin verður að hvetja til nýsköpunar, fjárfestingar, atvinnu, hagvaxtar og betri lífskjara.

  • Móta þarf trúverðuga stefnu í peningamálum til næstu framtíðar og afnema gjaldeyrishöftin sem fyrst. Góð hagstjórn verður að treysta íslensku krónuna sem gjaldmiðil til skemmri sem lengri tíma þar til ákveðið verður að taka upp evru samhliða aðild að ESB eða taka einhliða upp annan gjaldmiðil.

  • Byggja verður upp skilvirkt og hagkvæmt fjármálakerfi á næstu árum með erlendri eignaraðild og greiðum alþjóðaviðskiptum.

  • Greiða verður fyrir fjárfestingum með öllum ráðum en þær eru aflvaki verðmætasköpunar. Árásum stjórnvalda á tilteknar atvinnugreinar verður að linna.

  • Jöfnuður í ríkisfjármálum er lykilatriði í endurreisn efnahagslífsins. Ísland er háskattaríki með einna hæst opinber útgjöld OECD ríkja. Draga verður úr reglubundnum útgjöldum ríkissjóðs þannig að tekjurnar dugi fyrir þeim.

Beri stjórnvöld gæfu til að fara að tillögum og ábendingum SA mun rauða ljósið slokkna, kyrrstaðan rofna og við horfa fram á betri tíð."

Tengt efni:

Smelltu til að sækja

Nýtt rit SA: Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)

Úr fjölmiðlum:

Hádegisfréttir Bylgjunnar: SA sætta sig ekki við ástandið

Rætt við Vilmund Jósefsson í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni