Formaður SA: Mikilvæg efnahagsleg aðgerð

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir nýtt samkomulag um leiðir við úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja mikilvæga efnahagslega aðgerð. Hann hvetur stjórnendur fyrirtækjanna til að snúa sér sem fyrst til bankanna til að skoða hvaða lausnir standi þeim til boða. Samkomulagið verður kynnt á opnum kynningarfundi á Grand Hótel Reykjavík í fyrramálið kl. 8:30 og stefnir í fjölmennan fund. Vel á annað hundrað stjórnenda hafa nú þegar skráð sig á fundinn en hægt er að skrá þátttöku hér á vef SA.

Rætt var við Vilmund í sjónvarpsfréttum RÚV og Stöðvar 2 þar sem fjallað var um samkomulagið en að því standa efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Félag atvinnurekenda, fjármálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráð Íslands. Vilmundur telur að samkomulagið geti haft mjög jákvæð áhrif á atvinnumálin. Ef vel takist til megi minnka atvinnuleysið þar sem fyrirtæki geti farið að fjárfesta á ný og ráða fólk í vinnu en lítil og meðalstór fyrirtæki eru stærsti vinnuveitandi landsins.

Samkomulagið felur í sér að úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði hraðað verulega. Stefnt er að því að fyrir 1. júní 2011 hafi fjármálafyrirtæki lokið skoðun á fjárhagsstöðu þessara fyrirtækja og gert lífvænlegum fyrirtækjum sem eru í fjárhagsvanda tilboð um úrvinnslu skulda þeirra.

Vilmundur segir að það hafi tekið langan tíma að ná þessari niðurstöðu en unnið hafi verið hratt og vel á undanförnum mánuðum og samkomulaginu beri að fagna. Hann hvetur fyrirtæki til að leita til bankanna og reyna að klára sín mál eins hratt og mögulegt er.

SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG Á KYNNINGARFUNDINN Á MORGUN

Sjá nánar:

Sjónvarpsfréttir RÚV kl. 22 - 15. desember

Sjónvarpsfréttir Stöðvar 2 - 15. desember

Umfjöllun á vef SA um samkomulagið