Formaður SA: Lagfæra þarf frumvörp um stjórn fiskveiða

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, segir það mikil vonbrigði að frumvörp um stjórn fiskveiða hafi ekki tekið meiri breytingum hjá atvinnuveganefnd Alþingis - ekki síst í ljósi þeirra fjölmörgu neikvæðu umsagna sem hafi borist Alþingi hvaðanæva að um málið. Í samtali við fréttastofu RÚV, segir Vilmundur að frumvörpin eins og þau líti út núna séu mjög skaðleg fyrir íslenskan sjávarútveg. Verði frumvörpin óbreytt að lögum muni það skaða bæði atvinnulífið og heimili landins. Vilmundur segir sjálfsagt og eðlilegt að sjávarútvegurinn greiði veiðigjald en allt of langt sé gengið í áformum ríkisstjórnarinnar um gjaldtöku sem greinin geti ekki staðið undir. "Fyrr má nú rota en dauðrota."

Vilmundur vonast til þess að frumvörpin muni taka umtalsverðum breytingum í meðförum Alþingis og  skorar á þingmenn að endurskoða mikla hækkun á veiðigjaldinu og áform um að setja fiskveiðiheimildir í potta sem verði úthlutað með pólitískum hætti - það gangi ekki.

Vilmundur segir frumvörpin sýna einbeittan vilja ríkisstjórnarinnar til að eyðileggja sjávarútveginn.

Tengt efni:

Frétt RÚV 31. maí 2012 - smelltu til að hlusta

Umsögn SA um frumvörpin

Innsendar umsagnir til Alþingis um frumvörpin