Efnahagsmál - 

25. mars 2010

Formaður SA: Kornin í mælinum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formaður SA: Kornin í mælinum

Ummæli í leiðara Fréttablaðsins þann 24. mars um "afleik" og "upphlaup" SA vegna þess að ríkisstjórnin vísaði Samtökum atvinnulífsins frá stöðugleikasáttmálanum eru úr lausu lofti gripin. Önnur ummæli á borð við að verið sé að beygja sig undir "áhrifavald hagsmunaaðila í sjávarútvegi" og að verið sé að "hrópa ábyrgðarlaust á vanhugsuð úrræði" eru órökstudd því ákvörðun SA á sér langan aðdraganda og byggir á heildstæðu mati samtakanna á samstarfinu við ríkisstjórnina og árangur þess. Það hefur skort verulega á að stjórnvöld hafi gert það sem í þeirra valdi stendur til þess að stuðla að atvinnuuppbyggingu en Samtök atvinnulífsins hafa lagt sig fram um að standa við það sem um hefur verið samið og í raun sýnt ótrúlega biðlund vegna seinagangs ríkisstjórnarinnar.

Ummæli í leiðara Fréttablaðsins þann 24. mars um "afleik" og "upphlaup" SA vegna þess að ríkisstjórnin vísaði Samtökum atvinnulífsins frá stöðugleikasáttmálanum eru úr lausu lofti gripin. Önnur ummæli á borð við að verið sé að beygja sig undir "áhrifavald hagsmunaaðila í sjávarútvegi" og að verið sé að "hrópa ábyrgðarlaust á vanhugsuð úrræði" eru órökstudd því ákvörðun SA á sér langan aðdraganda og byggir á heildstæðu mati samtakanna á samstarfinu við ríkisstjórnina og árangur þess. Það hefur skort verulega á að stjórnvöld hafi gert það sem í þeirra valdi stendur til þess að stuðla að atvinnuuppbyggingu en Samtök atvinnulífsins hafa lagt sig fram um að standa við það sem um hefur verið samið og í raun sýnt ótrúlega biðlund vegna seinagangs ríkisstjórnarinnar.

Þetta segir Vilmundur Jósefsson, formaður SA, í grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag, 25. mars. Greinina má lesa í heild hér að neðan og á vef Vísis:

Kornin í mælinum
Samtök atvinnulífsins og ASÍ hófu vinnu að gerð víðtæks sáttmála á vinnumarkaði með aðkomu stjórnvalda fyrir rúmu ári síðan þegar endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fór fram. Niðurstaða þess starfs var stöðugleikasáttmálinn, með aðild helstu samtaka á vinnumarkaði og stjórnvalda, sem undirritaður var 25. júní 2009.

Sáttmálinn var gerður í dýpstu efnahagskreppu landsins í meira en hálfa öld sem gerbreytti starfsskilyrðum atvinnulífs og afkomu heimila til hins verra og hraðvaxandi atvinnuleysi. Þörf var á samstilltu og öflugu átaki í atvinnumálum og skapa skilyrði fyrir aukinni fjárfestingu innlendra sem erlendra aðila, auknum hagvexti og leggja grunn að bættum lífskjörum til framtíðar.

Í dag eru 15 þúsund Íslendingar án atvinnu og vilja SA bregðast við því af krafti. Í janúar 2009 gáfu SA út rit um hagsýna, framsýna og áræðna atvinnustefnu og í febrúar síðastliðnum kynntu samtökin aðgerðaáætlun undir yfirskriftinni "Atvinna fyrir alla". Markmið alls þessa er að Ísland komist upp úr kreppunni sem allra fyrst. Í aðgerðaáætluninni er m.a. sýnt fram á að það dugar ekkert minna en 5% árlegur hagvöxtur á árunum 2011 til 2015 til þess að Íslendingar vinni bug á atvinnuleysinu og endurheimti að mestu það sem tapast hefur í lífskjörum og velferð. Ef hagvöxtur verður t.d. 3,5% mun atvinnuleysi enn verða mikið árið 2015 og Íslendingar lítið sótt fram. Ef hagvöxtur verður um 2% næstu árin, eins og ýmsar spár gera ráð fyrir, verða Íslendingar fastir í fjöldaatvinnuleysi og ítrekuðum skerðingum í mennta-, heilbrigðis- og velferðarmálum.

Uppbygging tafin
Alveg frá því sáttmálinn var undirritaður hafa SA knúið á um efndir hans. Til dæmis að greitt væri fyrir framkvæmdum sem gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun og eru nauðsynlegar til að hagkerfið haldi ekki áfram að dragast saman. Það gekk ekki eftir og öllum er kunnur sá dráttur sem orðið hefur á ýmsum ákvörðunum stjórnvalda og nægir þar að nefna SV línu, skipulagsmál við Þjórsá og málefni HS Orku. Meira að segja hefur komið fram að einstakir ráðherrar telja sáttmálann sér óviðkomandi og talað um "þá" sem gerðu stöðugleikasáttmálann. Hægt hefur miðað við að koma fjármunum lífeyrissjóða til atvinnuskapandi verkefna í samstarfi við stjórnvöld. Það hefur skort verulega á að stjórnvöld hafi gert það sem í þeirra valdi stendur til þess að stuðla að atvinnuuppbyggingu.

Í sáttmálanum var lagður grunnur að því hvernig standa mætti að ríkisfjármálum á næstu árum og SA ákváðu að sætta sig við tilteknar skattahækkanir enda væri það hluti af heildarlausn málsins. Í sáttmálanum var gengið út frá því að skattahækkanir yrðu minni hluti aðlögunaraðgerða í ríkisfjármálum en síðan hafa skattahækkanir orðið langt umfram það sem menn gerðu sér í hugarlund. Í ljósi þess sem um var samið liggur fyrir að ríkissjóður hefur tæmt svigrúm til skattahækkana og verður að reiða sig alfarið á lækkun gjalda í fjárlögum 2011. Þá hafa þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattalegri umgjörð atvinnulífsins allar verið óhagstæðar fyrirtækjum og alls ekki til þess fallnar að auka fjárfestingar í atvinnulífinu og örva hagvöxt, þvert á móti.

Háir vextir og höft
SA hafa ekki gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir háa stýrivexti Seðlabankans en það er samt eitt af markmiðum stöðugleikasáttmálans að vaxtamunur gagnvart evru verði 4% í árslok 2010 sem þýðir við núverandi aðstæður að stýrivextir Seðlabankans verði 5%. Ríkisstjórnin hefur á hinn bóginn ekkert beitt sér í málinu þótt í gildi sé samkomulag milli ríkisins og Seðlabankans um framkvæmd peningastefnunnar og að hún sé hrunin.

Gjaldeyrishöftin eru ákveðin með lögum frá Alþingi. SA hafa með gildum rökum bent á að höftin halda niðri gengi krónunnar og lítil von sé á styrkingu hennar á meðan þau eru við lýði. SA hafa bent á þá leið út úr höftunum að bjóða þeim erlendu aðilum sem eiga hér skammtíma eignir í krónum að kaupa langtímaskuldabréf í evrum og tilkynna samhliða að höftunum verði aflétt innan fárra vikna.

Dæmi um vanefnd er að ekki er áformað að standa við ítrekuð loforð um lögfestingu iðgjalds í Starfsendurhæfingarsjóð. Það stendur skýrum stöfum í sáttmálanum að það skuli gert á árinu 2009.

Ótrúleg biðlund
Samtök atvinnulífsins hafa lagt sig fram um að standa við það sem um hefur verið samið og í raun sýnt ótrúlega biðlund vegna seinagangs ríkisstjórnarinnar. Í lok október var ríkisstjórninni gerð grein fyrir óánægju SA með framgang ýmissa mála, í desember fékk ríkisstjórnin tvö bréf þar sem hnykkt var enn frekar á því og svo einnig þann 22. febrúar síðastliðinn.

Kornið sem fyllti mælinn var síðan þegar Alþingi samþykkti lög sl. mánudag um breytingar á fiskveiðistjórninni, þrátt fyrir loforð í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. október 2009, um að það mál færi í sáttafarveg í nefnd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Brostið traust
Þar með var traust stjórnar SA á samstarfi við ríkisstjórnina endanlega brostið og ljóst að samstarf við aðila sem ekki telur sig þurfa að standa við gefin loforð verður að taka annað form en gert var með stöðugleikasáttmálanum sem svo miklar vonir voru bundnar við.

Af framansögðu má ljóst vera að ummæli leiðarahöfundar Fréttablaðsins þann 24. mars um "afleik" og "upphlaup" SA eru úr lausu lofti gripin. Önnur ummæli á borð við að verið sé að beygja sig undir "áhrifavald hagsmunaaðila í sjávarútvegi" og að verið sé að "hrópa ábyrgðarlaust á vanhugsuð úrræði" eru órökstudd því ákvörðun SA á sér langan aðdraganda og byggir á heildstæðu mati samtakanna á samstarfinu við ríkisstjórnina og árangur þess.

Vilmundur Jósefsson, höfundur er formaður Samtaka atvinnulífsins.

Sjá nánar:

Grein Vilmundar í vefútgáfu Fréttablaðsins

Samtök atvinnulífsins