Formaður SA: Gósentíð eftirlitsstarfseminnar

"Nú ber vel í veiði fyrir þá sem hafa eftirlit með atvinnulífinu í landinu. Það er oft sagt án þess að fyrir því séu endilega sannfærandi rök að hrunið megi kenna slöku eftirliti með atvinnulífinu. Verulega hefur því fjölgað þeim sem sinna fjármálaeftirliti með bönkum og öðrum fjármálastofnunum. Gjaldeyriseftirlit þenst út og þar mun starfsmönnum halda áfram að fjölga. Merki um aukin umsvif eftirlitsstofnana eru víðar. Samdrætti í föstum fjárframlögum er mætt með nýjum gjaldskrárheimildum og hækkun gjalda þar sem unnt er. Eftirlitsstarfsemin treystir tök sín og er ófeimin að beita valdi sínu. Þetta verður meðal annars til þess að fyrirtækin eru ófús að leita eftir leiðbeiningum hjá viðkomandi stofnunum, til að fá upplýsingar um hvernig best sé að fara að lögum og reglum, af ótta við að þau gjaldi þess síðar.

Nýlega voru sett á Alþingi lög um skeldýrarækt sem lýsa vandanum ágætlega og hvernig eftirlitsaðilar og stofnanir tryggja vald sitt. Kræklingarækt er í grunn afar einföld og felst í því að leggja kaðla í sjó og bíða eftir því að kræklingar festi sig þar á og vaxi upp í tiltekna stærð. En það þarf eftirlit þriggja aðila Fiskistofu, Landhelgisgæslu og Matvælastofnunar með starfseminni undir stjórn ráðherra. Tilraunaleyfi eru veitt til að hámarki 6 ára og um þau fjalla Fiskistofa, viðkomandi sveitarstjórn, Matvælastofnun, Landhelgisgæslan, byggingarfulltrúi, Hafrannsóknarstofnun, Siglingastofnun, Umhverfisstofnun, Orkustofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Svo þarf að sækja um ræktunarleyfi að loknu tilraunatímabili og þá þurfa sömu aðilar að fjalla um málið að nýju. Að sjálfsögðu er allur kostnaður innheimtur hjá umsækjanda. Hvenær sem er má afturkalla leyfin af ýmsum ástæðum. Þegar þetta er hugleitt er miklu nær að kalla þetta lög um bann við skeldýrarækt. Það er erfitt að sjá fyrir sér að þessi lög verði til að hvetja til fjárfestingar á þessu sviði.

Í miklu fleiri tilvikum en þessu þurfa opinberar stofnanir að skila umsögnum um atvinnustarfsemina. Þrátt fyrir að þeim sé veittur ákveðinn frestur til að skila inn umsögn þá segir reynslan að eftir því er ekki farið og víða er miklu algengara en ekki að stofnanir hafa lögbundna tímafresti að engu hvort sem um er að ræða umsagnir, leyfisveitingar eða úrskurði. Í lögum er nú víða að finna ákvæði um að stofnanir geti lagt á dagsektir til að kalla eftir gögnum. Ekki virðist síður nauðsynlegt að leggja dagsektir á stofnanir sem ekki skila gögnum á tilsettum tíma. 500 þúsund krónur á dag er líklega hæfilegt í þessu skyni eins og ein stofnun hótaði að leggja á fyrirtæki sem ekki skilaði áhættumati í tæka tíð.

Í stað þess að flækja hlutina ættu stjórnvöld að leggja upp áætlun um hvernig einfalda megi allt þetta kerfi og setja sér markmið eins og fjölmörg ríki hafa gert um að draga úr eftirlits- og skriffinnskukostnaði vegna atvinnulífsins um tugi prósenta. Það er til dæmis umhugsunarefni að einstakar sveitarstjórnir skuli hafa í hendi sér örlög uppbyggingar innviða sem nýtast allri þjóðinni. Þessu ætti að breyta þannig að sveitarfélögum sé skylt að heimila lagningu t.d. raflagna, samgöngumannvirkja eða fjarskiptalagna án þess að setja fram skilyrði sem verða til að þess að þjónustan verði allri þjóðinni dýrari en þyrfti án nokkurs ávinnings."

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins

Tengt efni:

Umfjöllun Stöðvar 2 um yfirþyrmandi eftirlit með kræklingaeldi

Rætt við Vilmund Jósefsson, í hádegisfréttum Bylgjunnar 1. maí 2012