Formaður SA: Baráttan gegn verðbólgu stærsta hagsmunamálið

"Íslenskt þjóðfélag stendur á krossgötum eftir hálfan áratug stöðnunar og það er okkar að tryggja að sú stöðnun verði rofin. Ekki með innihaldslausum yfirlýsingum um bjartari tíma, heldur með vel útfærðum hugmyndum sem við hrindum jafnt og þétt í framkvæmd. Sigrar vinnast hægt og bítandi. Þannig vil ég að Samtök atvinnulífsins starfi. Þannig vinnast innihaldsríkir sigrar." Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, nýr formaður SA, m.a. á opinni dagskrá aðalfundar SA 2013. Björgólfur var í gær kjörinn formaður samtakanna með 98,5% greiddra atkvæða.

Björgólfur Jóhannsson á aðalfundi SA 2013

Björgólfur þakkaði félagsmönnum SA fyrir góðan stuðning og sagðist taka mjög alvarlega það hlutverk sem honum væri falið - að leiða SA. Hann þakkaði Vilmundi Jósefssyni jafnframt fyrir vel unnin störf í þágu samtaka og fyrirtækja í landinu allt frá árinu 1992 en Vilmundur tók við formennsku í SA árið 2009.

Björgólfur sagði mikilvægt að stefna að því að kyrrstaðan verði rofin strax á þessu ári. Einhugur samtakanna væri sterkasta vopnið í þeirri baráttu en innan SA eru um 2000 fyrirtæki þar sem starfar um helmingur launamanna á almennum vinnumarkaði.

"Nýjum mönnum fylgja nýjar áherslur. Samtök atvinnulífsins eru ekkert annað en félagarnir sem að baki samtökunum standa. Ég tel því mikilvægt að hlusta á hvaða áherslur þeir telja að eigi að vera í forgrunni. Í framhaldinu mun ég ásamt nýkjörinni stjórn leggja fram áherslur okkar til framtíðar. Ég vil byggja brýr á milli einstaklinga. Við sem þjóð höfum glatað of miklum tíma í það sem skilur að menn og flokka - í stað þess að einblína á það sem sameinar okkur. Áherslan á að vera á það sem sameinar okkur - en ekki á það sem sundrar

okkur."

Björgólfur sagðist ekki vera í pólitík og aldrei hafa verið. "SA eiga að styðja góðar hugmyndir óháð flokkspólitískum línum. Allir - sama í hvaða flokki þeir standa - verða að leggjast á eitt við að kveða niður verðbólgudrauginn úr hagkerfinu. Það er stærsta einstaka hagsmunamál okkar allra. Í þeim efnum geta Samtök atvinnulífsins ekki skorast undan ábyrgð. Saga okkar sýnir að með því að byggja brýr á milli aðila getum við náð árangri í þeirri baráttu."

Að lokum horfði nýr formaður SA til framtíðar.

"Velverð íslensku þjóðarinnar í framtíð byggir á því hversu vel okkur tekst að leysa vanda dagsins í dag og stuðla að aukinni verðmætasköpun og fjárfestingu. Fjárfesting dagsins í dag er hagvöxtur morgundagsins. Velferð okkar til lengri tíma verður að byggja á athafnaþrá og hugmyndaauðgi. Það er okkar að skapa forsendur til að sá kraftur finni sér farveg á Íslandi - okkur öllum til hagsbóta."