Formaður SA: Af meintri fyndni Samtaka atvinnulífsins

"Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sendir Samtökum atvinnulífsins kveðju í Morgunblaðinu á mánudaginn og segir samtökin hafa farið með gamanmál á opnum fundi um atvinnumál sem fram fór í Hörpu 26. september sl. Þar hvöttu samtökin til nýrrar atvinnsóknar og að ráðist verði að rótum atvinnuleysisins en 11 þúsund manns eru nú án vinnu. Á fundinum bentu SA á að hægt væri að bæta þjóðarhag um 46 milljarða króna á ári með því að koma vinnufúsum höndum til starfa auk jákvæðra samfélagslegra áhrifa sem af því hlytust. Það er fjarri að erfitt ástand í atvinnumálum þjóðarinnar hafi nokkuð með kímni að gera. Nú þegar þrjú ár eru liðin frá hruni er sorglegt hversu mörg tækifæri til að skapa ný störf og snúa vörn í sókn hafa runnið út í sandinn.

Ráðherra segir Samtök atvinnulífsins ekki vilja framar tala við stjórnvöld og að öll atvinnusköpun verði stöðvuð á meðan ekki verði farið að ráðum SA. Þetta er rangt. Á fyrrgreindum fundi SA sagði ég hins vegar að SA myndu að svo komnu máli ekki hafa frumkvæði að frekari samskiptum við ríkisstjórnina.

Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, í tengslum við stöðugleikasáttmálann og nýja kjarasamninga í maí sl., lofuðu góðu en því miður hefur ríkisstjórnin ekki haft kraft til að fylgja þeim eftir. Það ætti að vera forgangsverk stjórnvalda að virkja atvinnulífið til góðra verka í stað þess að halda því niðri og tefja nauðsynlegan efnahagsbata. Takist ekki að leggja grunn að öflugum hagvexti sem byggir á verðmætasköpun og útflutningi, þá verður það árviss viðburður að skera niður útgjöld ríkisins til velferðarmála og hækka skatta á almenning.

Á fundi SA um atvinnumál var dregin upp raunsönn mynd af stöðu mála. Ummælum um persónulegar árásir og ómálefnalega umræðu er vísað til föðurhúsanna og því fer víðs fjarri að aðildarsamtök SA séu í áróðursstríði gegn íslenskum landbúnaði. Þau hafa hins vegar bent á að aukið frelsi í innflutningi landbúnaðarafurða komi íslenskum neytendum til góða og að landbúnaðarkerfið sem við búum nú við sé of dýrt.

Jón Bjarnason nefnir að framundan sé mikilvæg vinna við að leita sátta um fjölmörg mál, t.a.m. um stjórn fiskveiða. Þar er ég algjörlega sammála. Samtök atvinnulífsins voru harðlega gagnrýnd fyrir að vekja máls á skaðsemi fyrirhugaðra breytinga sl. vetur en þær fjölmörgu umsagnir sem bárust um frumvarpið sýna að varnaðarorð SA áttu við rök að styðjast. Hvet ég ráðherrann til að taka mark á þeim.

Ráðherra kallar eftir hófsemd og sanngirni í umræðunni en sakar um leið íslenska útgerðarmenn um að hóta að stöðva alla uppbyggingu til að knýja fram yfirráð sín yfir stjórn landsins! Þetta er hvorki sanngjarnt né hófsamt. Á fundi SA lýsti Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, því yfir að útgerðin gæti fjárfest fyrir tugi milljarða ef henni yrðu sköpuð sanngjörn rekstrarskilyrði og vissa um starfsskilyrði til lengri tíma. Þannig gætu skapast hundruð afleiddra starfa. Fullyrðing um að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki búi nú við meira og betra starfsöryggi en áður er í besta falli öfugmæli.

Látum hófsemdina ráða för, tryggjum atvinnulífinu samkeppnishæf rekstrarskilyrði og hefjum af krafti sköpun nýrra starfa sem byggja á íslensku hugviti og  verðmætasköpun."

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins

Greinin birtist í Morgunblaðinu, miðvikudaginn 5. október 2011