Formaður SA: Að standa vörð um atvinnuleysið

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, skrifar grein í Morgunblaðið sl. laugardag þar sem hann furðar sig á því að Samtök atvinnulífsins hvetji til þess að ráðist verði í umfangsmiklar samgöngubætur á Suðvesturlandi. Reyndar hefur ríkisstjórnin bæði 2009 og nú aftur 2011 gefið yfirýsingu um að reyna skuli til þrautar að ráðast í þessar framkvæmdir. Og Alþingi hefur að auki heimilað ráðherra samgöngumála að stofna félag um framkvæmdirnar.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana í maí kemur fram eindreginn vilji til að auka fjárfestingar í landinu og að þær séu besta leiðin til að efla hagvöxt og um leið draga úr atvinnuleysi og leggja grunn að því að lífskjör fólks geti batnað.

Ríkisstjórnin og samningsaðilar á almennum vinnumarkaði þ.e. Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa verið sammála um þessa stefnu og hún nýtur víðtæks stuðnings. Það grundvallast á því að allir sem til þekkja vita hve mikið böl atvinnuleysið er og það sé þjóðarnauðsyn að tryggja vinnufúsum höndum arðbær störf á almennum vinnumarkaði.

Fjárfestingar koma hreyfingu á atvinnulífið og það sem meira er þær auka tekjur ríkissjóðs. Um leið og dregur úr atvinnuleysinu er unnt að lækka framlög fyrirtækja landsins til atvinnuleysistrygginga og það skapar aftur möguleika til hækkunar launa síðar.

Allt eru þetta vel þekktar staðreyndir sem flestum eru ljósar. Þröngur hópur á hins vegar erfitt með að  átta sig á þessu og gerir allt sem unnt er til að þvælast fyrir auknum fjárfestingum. Það á við um arðbærar samgönguframkvæmdir, uppbyggingu í orkugeiranum og tengdum iðnaði og fjárfestingu einkaaðila í heilbrigðisgeiranum. Afleiðingin er sú að kreppan varir hér lengur en annars staðar og atvinnuleysi verður áfram mikið. Einnig er fyrirsjáanlegur frekari niðurskurður ríkisútgjalda ásamt skattahækkunum.+

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, er einn þeirra sem stendur hvað dyggast vörð um atvinnuleysið hér á landi.

Vilmundur Jósefsson,

formaður Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. júní 2011