Formaður og framkvæmdastjóri SA: Stöðugleiki í augsýn (1)

Það er okkur mikið ánægjuefni að náðst hafi samningar við þorra verkalýðshreyfingarinnar um kjarasamninga sem gilda til loka næsta árs. Í upphafi settu Samtök atvinnulífsins það markmið að launahækkanir skyldu ekki verða meiri en rúmuðust innan verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Það kæmi einnig launafólki að bestum notum og væri líklegast til að auka kaupmátt og atvinnu. Um leið og launahækkanir verða meiri eykst hætta á að verðbólga fari úr böndunum, skuldir fólks og fyrirtækja aukist, atvinna aukist minna en ella og að kaupmáttur vaxi ekki.

Verkefni ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækjanna í landinu er nú að stilla gjaldskrárhækkunum og verðhækkunum í hóf. Markmið samningsins munu ekki nást nema allir aðilar virði þau og myndi samstöðu gegn verðbólgu.

Ríkisstjórnin lagði sitt af mörkum til að samningar gætu náðst. Hækkanir á einstökum gjöldum ríkissjóðs verða nær þriðjungi minni en til stóð og breyting var gerð á áformum um lækkun tekjuskatts sem skilar ávinningi til hinna tekjulægri. Þá var gengið frá hallalausum fjárlögum sem er mikilvægt skref til að tryggja aukinn stöðugleika.

Formenn nokkurra verkalýðsfélaga innan Starfsgreinasambandsins ákváðu að standa til hliðar og undirrita ekki kjarasamningana að þessu sinni þótt félög þeirra hefðu falið sambandinu umboð til samningsgerðar. Ástæður þess geta verið mismunandi en ljóst er að svigrúm til launahækkana er fullnýtt í þeim samningum sem undirritaðir hafa verið og allar vonir um meiri launahækkanir til félagsmanna þessara félaga því tálsýn.

Það má segja að hér hafi verið stigið fyrsta skrefið í átt að nýju líkani kjarasamninga og um leið að nýju stöðugleikatímabili. Við gildistöku samninganna munu hefjast viðræður um nýja samninga sem verði til tveggja ára og hafi efnahagslegan stöðugleika að meginmarkmiði. Þar með verði verðbólga svipuð og í nágrannaríkjum, vextir lægri en ella sem skapar forsendur fyrir aukinni verðmætasköpun. Þannig getum við best lagt grunn að bættum lífskjörum hér á landi.

Að þessu verkefni verður ríkisstjórnin einnig að vinna af fullri einurð. Ríkissjóð verður að reka með afgangi, stíga verður skref til að afnema gjaldeyrishöftin og móta stefnu í efnahags- og peningamálum til lengri tíma.

Stöðugleiki, lág verðbólga og batnandi hagur ríkissjóðs eru forsendur þess að fjárfestingar aukist. Með stöðugleikanum er lagður grunnur að nýrri sókn til bættra lífskjara.

Það er nauðsynlegt að allir leggist á árarnar til að koma á og viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Atvinnurekendur, verkalýðsleiðtogar og forystumenn eru sammála um markmiðin. Það vilja allir skapa forsendur fyrir auknum umsvifum fyrirtækjanna, sem aftur er forsenda aukinnar atvinnu og bættra lífskjara.

Núna er tækifæri. Grípum það.

Með ósk um gott stöðugleikaár 2014.

Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. desember 2013.