Formaður iðnaðarnefndar Alþingis: Aukinn hagvöxtur eina leiðin út úr kreppunni. Ekki eftir neinu að bíða

Kristján Möller, alþingismaður og formaður iðnaðarnefndar Alþingis, var meðal frummælenda á opnum fundi SA um samgöngumál sem fram fór í morgun. Kristján sagði að aðgerða væri þörf til að bæta samgöngur og auka umferðaröryggi. Í stöðunni væru tveir kostir, að efna til ca. 40 milljarða króna flýtiframkvæmda á umferðaræðunum að og frá höfuðborgarsvæðinu sem stæðu yfir í fjögur ár, og yrðu fjármagnaðar með lánum sem endurgreidd yrðu með notendagjöldum, eða fara hefðbundna leið  ríkisframkvæmda sem tæki 15-25 ár. Lagði hann áherslu á hagvöxt og fjárfestingar sem skiluðu auknum útflutningi.

Umræða á villigötum
Kristján sagði áform í stöðugleikasáttmálanum 2009 um auknar vegaframkvæmdir með aðkomu lífeyrissjóða hefðu ekki gengið eftir og hefði viðræðum verið slitið 10. desember 2010 þar sem ekki náðist saman um vaxtakjör. Þá hefði andstaða og áróður FÍB haft mikil áhrif sem safnaði 41 þúsund undirskriftum gegn þeim hugmyndum sem unnið hafði verið með.

Kristján minnti á þingræðu sína frá 7. júní 2010 þar sem hann lýsti framtíðarsýn sem við blasti, sem væri rafræn innheimta notenda- eða notkunargjalda í gegnum gervihnött. Á þeim tíma var rætt um að þverpólitísk nefnd allra flokka, og e.t.v. fleiri aðila,  endurskoðaði framtíðartekjuöflun til vegagerðar, viðhalds og reksturs. Eitt gjald kæmi í stað annarra gjalda, eins og olíugjalda og bensíngjald. Við blasti að gjaldtöku þyrfti að endurskoða þar sem það kostaði rafbíl 2.500 kr. að aka hringinn en eldsneytiskostnaður díselbíls væri 40 þúsund á sömu leið.

Alþingi samþykkti að ráðast í framkvæmdir
Formaður iðnaðarnefndar minnti á lög nr. 97/2010 sem samþykkt voru samhljóða á Alþingi 28. júní 2010. Lögin veita innanríkisráðherra heimild til að stofna opinbert hlutafélag sem hafi þann tilgang að standa að vegalagningu umhverfis höfuðborgarsvæðið, auk Vaðlaheiðarganga, og taka gjald af umferð um viðkomandi vegi. Staða mála væri sú að áform um auknar vegaframkvæmdir hefðu verið ítrekaðar í tengslum við kjarasamningana en nú væru horfur á því að Vaðlaheiðagöng yrðu eina verkefnið.

Kristján gagnrýndi harðlega ýmis ummæli talsmanna FÍB undanfarið og taldi þá ekki hafa farið með rétt mál. Hann rifjaði upp að árið 2006 hefði þáverandi samgönguráðherra verið afhent áskorun um breikkun Suðurlandsvegar með 25 þúsund undirskriftum og síðar hefði hann sem samgönguráðherra tekið á móti 27 þúsund undirskriftum sama efnis. Nú hefði 41 þúsund undirskriftum verið safnað í kjölfar áróðursherferðar. Í framhaldinu væri innanríkisráðherra búinn að slá þessi áform af þrátt fyrir mikinn undirbúning.

Að lokum sagði Kristján að leysa þyrfti þetta mál, stofna þverpólitíska nefnd með aðild hagsmunaaðila og sveitarfélaga. Aukinn hagvöxtur væri eina leiðin út úr kreppunni.