Fordæmalaus gjaldtaka Umferðarstofu

Fyrir Alþingi liggur nú tillaga frá samgöngunefnd þingsins um að fela Umferðarstofu mjög víðtækar heimildir til að hækka kostnað og gjöld sín fyrir ýmsa þjónustu sem hún veitir s.s. skráningar , eigendaskipti og fleira. Verði tillagan að lögum skal lagður til grundvallar þeim gjöldum sem innheimt verða kostnaður Umferðarstofu vegna launa og launatengdra gjalda, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, búnaðar og tækja, stjórnunar- og stoðþjónustu. Að auki kostnaður vegna alþjóðlegrar samvinnu í þágu umferðar- og umferðaröryggismála auk ferða og uppihalds. Gjöldin skuli taka mið af þeim kostnaði sem almennt hlýst af þeirri þjónustu sem Umferðarstofa veitir.

Engar hömlur á kostnað

Hér er um að ræða víðtækari heimildir til gjaldtöku en áður hafa sést og fela Umferðarstofu nánast sjálfdæmi um það hvað kostnaði verður velt yfir á þá sem fyrir þjónustuna greiða. Notendur þjónustunnar hafa enga möguleika á því að gera athugasemdir við gjaldtökuna og engar hömlur eru lagðar á kostnað Umferðarstofu.

Fjölmargar spurningar vakna í þessu samhengi. Eins og kunnugt er þá eru skráningarmerkin framleidd á Litla Hrauni og Umferðarstofa hefur af þeim beinan kostnað. Hvaða alþjóðasamstarf ætli sé tengt framleiðslu merkjanna? Eða þjálfun og endurmenntun? Hvaða ferðir ætli starfsmenn sem framleiða merkin fari og hvert? Einnig má spyrja hvaða aðkeypt þjónusta felist í að fá útprentað skráningarskírteini? Hvaða alþjóðlegu samvinnu þarf stofnunin að efna til svo að hún geti tekið við tilkynningum um eigendaskipti?

Þetta ákvæði er alveg fordæmalaust og felur í sér nýja og útvíkkaða skilgreiningu á hugtakinu þjónustugjöld. Yfirleitt hefur verið miðað við þann beina kostnað sem stofnanir verða fyrir við að veita tiltekna þjónustu svo sem beinan kostnað við framleiðslu skráningarmerkja og afhendingu þeirra. Nú er hins vegar ætlunin að greiðendur þjónustugjalda standi undir öllum almennum kostnaði stofnunarinnar s.s. að  starfsmenn Umferðarstofu hafi þekkingu til þess að taka á móti umsóknum og afgreiða þær, að þeir geti stundað sínar ferðir í friði og ró til að ganga úr skugga um að kerfið standist alþjóðlegar skuldbindingar og notið til þess uppihalds.

Ólíðandi sjálftaka

Enginn vafi er á því að stórum hluta af þeirri umfangsmiklu starfsemi nú fer fram hjá Umferðarstofu megi koma fyrir hjá einkaaðilum. Engin ástæða er til dæmis að opinberir embættismenn sjái um skráningarkerfi ökutækja. Það geta einkaaðilar annast fullkomlega eftir að ríkið hefur skilgreint þær kröfur sem skráningarkerfið á að uppfylla.

Það er algerlega ólíðandi að fela Umferðarstofu sjálftöku á fé að þannig að hún sjái sjálf um að skilgreina nauðsynlegt umfang þjónustunnar án aðkomu greiðenda og geti rukkað þá eins og henni sýnist.

Nefndarálit samgöngunefndar