Fólk vantar í vinnu fyrir austan

Fyrirtæki á Austurlandi vantar fólk í vinnu og þar er kraftur í atvinnulífinu. Austfirðingar bjóða jafnframt fólk velkomið sem vill skjóta rótum fyrir austan og taka þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér þar stað. Mikill útflutningur er frá svæðinu en fjölmörg öflug fyrirtæki í sjávarútvegi, iðnaði, ferðaþjónustu og fleiri greinum skapa þjóðfélaginu dýrmætar gjaldeyristekjur. Niðurskurður á opinberri þjónustu, einkum, heilbrigðisþjónustu, ógnar þó búsetuskilyrðum fólks á svæðinu gangi hann eftir og gerir fyrirtækjum erfiðara fyrir að manna störf. Þetta kom m.a. fram á fundi SA með fyrirtækjum á Austurlandi sem fór nýverið fram á Reyðarfirði.

Frá fundi SA á Reyðarfirði

Það kom skýrt fram á fundinum að fyrirtæki í sjávarútvegi eru orðin langþreytt á þeirri óvissu sem ríkir innan greinarinnar vegna misráðinna aðgerða stjórnvalda. Raunar var það niðurstaða könnunar meðal fyrirtækja innan SA sem var kynnt í síðustu viku að helsta vandamál fyritækja á Íslandi í dag væru aðgerðir og aðgerðarleysi stjórnvalda. Það var undirstrikað skýrt á fundinum að útgerðarfyrirtæki á svæðinu myndu ekki ráðst í neinar meiriháttar fjárfestingar á meðan sjávarútvegurinn fái ekki starfsfrið og óljóst sé hvert stefni.

Einn fundarmanna sagði næg tækifæra vera í atvinnulífinu fyrir austan og þar væri gott að búa. Hann væri reyndar orðinn þreyttur á að hlusta á "erlendu fréttirnar" í útvarpinu af vandræðum fólks og fyrirtækja fyrir sunnan. Það ástand væri austfirðingum sem betur fer framandi um þessar mundir.

Frá fundi SA á Reyðarfirði

Fundurinn markaði lok fyrstu lotu í fundaröð SA um stöðuna á vinnumarkaðnum og komandi kjarasamninga, en SA heimsóttu Ísafjörð, Akureyri, Húsavík og Reyðarfjörð dagana 9.-12. nóvember sl. Fréttir af fundunum má nálgast hér að neðan en fleiri fundir Vilmundar Jósefssonar, formanns SA og Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, verða auglýstir síðar. Hátt í 200 manns sóttu fundina.

Fundur SA á Ísafirði 9. nóvember

Fundur SA á Akureyri 11. nóvember

Fundur SA á Húsavík 12.nóvember

Fundur SA á Reyðarfirði 12. nóvember