Flugvallarstarfsmenn slitu viðræðum við Isavia í morgun

Í morgun slitnaði upp úr viðræðum samninganefndar SA fyrir hönd Isavia og samninganefnda flugvallarstarfsmanna, Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR), Stéttarfélags í almannaþjónustu (SFR) og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS). Samningafundur hafði staðið óslitið frá því í gærmorgun hjá ríkissáttasemjara.

Reynt var til þrautar að ná samningum og var samninganefnd SA vongóð um að grundvöllur væri til staðar til að skrifa undir nýjan kjarasamning í dag og afstýra boðuðu verkfalli. Samninganefndir flugvallarstarfsmanna litu hins vegar ekki svo á og slitu viðræðum á sjöunda tímanum í morgun.

Því mun allsherjarverkfall flugvallarstarfsmanna hefjast kl. 4 aðfaranótt miðvikudagsins 30. apríl  að óbreyttu og allt innanlands- og utanlandsflug stöðvast, bæði farþegaflug og vöruflutningar með alvarlegum afleiðingum.