Flug og ESB. Samkeppnisstöðu Íslands ógnað?

Í lok september kynnti Evrópusambandið áætlun sína um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum. Ætlunin er að fella flugsamgöngur undir tilskipun um kvóta á losun gróðurhúsalofttegunda þannig að þak verði sett á losunina. Þannig geta flugfélög ekki aukið losun sína heldur verða að kaupa sér losunarheimildir eða standa fyrir verkefnum sem draga úr losun annars staðar í heiminum. Ætlun sambandsins er að tilskipunin nái yfir allt flug í Evrópusambandinu hvort sem ferðinni er heitið til sama lands, annars lands í ESB eða til lands utan ESB. Þannig yrði gildissvið tilskipunarinnar mun víðtækara en gildissvið Kyotosamningsins en hann nær einungis til innanlandsflugs.

Aukinn kostnaður
Þar sem því er spáð að flugsamgöngur muni aukast mjög á næstu árum og áratugum verða afleiðingar af tilskipuninni nánast einungis efnahagslegar þ.e. þessu mun fylgja aukinn kostnaður flugfélaga og svo flugfarþega og farmflytjenda. Nú er það þannig að flugsamgöngur skapa aðeins lítinn hluta þess vanda sem stafar af losun gróðurhúsalofttegunda. Árið 2000 var talið að 13% losunar í heiminum væri vegna samgangna og eiga vegasamgögnur langstærsta hluta þess eða 73% en innanlandsflug 7% og alþjóðaflug 6%. Af heildarlosun má sem sagt rekja um eða innan við 2% til flugsamgagna. Bent hefur verið á í þessu samhengi að á undanförnum árum og áratugum hefur losun CO2 hefur minnkað um 70% á hvern farþegakílómeter í flugi og verulega dregið úr annari mengun og hávaða frá flugvélum. Evrópskur flugvélaiðnaður (flugfélög og framleiðendur) hafa bent á mikilvægi þess að haldið verði áfram þeim öflugu rannsóknum og tækniþróun sem þessir aðilar hafi staðið fyrir sem munu smám saman draga úr losun frá flugsamgöngum. Ef miklir fjármunir verða bundnir við að kaupa losunarheimildir mun það hugsanlega hægja á þessari þróun. Auk þess sé unnt að draga úr losun með betri flugumferðarstjórn, minni biðtíma, betri leiðastjórn og með því að auka framleiðni á flugvöllum og taka á ýmsum þáttum sem flugfélögin hafa sjálf ekki stjórn á. Flugvélaiðnaðurinn hefur þannig mikinn áhuga á að halda áfram að draga úr mengun.

Mest áhrif á fjarlægari staði
En hverjar verða afleiðingar þess að fella flugið undir útblásturstilskipun Evrópusambandsins:
a) Þar sem ekki er ætlunin að fella vegsamgöngur og lestir undir tilskipunina að minnsta kosti ekki á sama tíma mun samkeppnisstaða flugsins versna miðað við aðrar samgöngur. Þetta hefur í för með sér að kostnaður við samgöngur og flutninga frá fjarlægum stöðum inn á stóra markaði í Evrópu mun hækka. Sérstaklega á þetta við um fjarlægar eyjar þar sem engar aðrar raunhæfar samgöngur eru til staðar og geta gegnt sama hlutverki. Það virðist augljóst að það þurfi að kanna nákvæmlega hvernig það stenst grundvallarreglur ESB að leggja svona kvaðir á eina tegund samgangna en ekki aðrar. Fyrirtæki sem staðsett er nálægt stórum mörkuðum er augljóslega í betri stöðu en það sem fjær er eftir að þessu kerfi hefur verið komið á.
b) Búast má við að flugfargjöld hækki í kjölfarið. Í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB er rætt um að verð farmiða (fram og til baka) geti hækkað um 9 evrur en þetta er háð verði á losunarheimildum og einnig er nefnt að með háu verði á losunarheimildum og með því að setja mörk á losun köfnunarefnisoxíða geti verð flugmiða hækkað um allt að 29 evrur fyrir hvert flug. Þetta bitnar sem fyrr mest á fjarlægum stöðum og fyrir þá sem til dæmis þurfa að taka tvö flug til að komast á áfangastað er kostnaðaraukinn að sjálfsögðu tvöfaldur.
c) Önnur afleiðing er sú að ferðalög til fjarlægra staða verða ekki jafnfýsileg og áður og þeir sem búa á slíkum stöðum þurfa að leggja meira á sig til að geta kynnt sér menningu og sögu annarra svæða.
d) Það gefur einnig auga leið að lægstu fargjöldin munu hækka mest og mest áhrif mun þessi tilskipun hafa á möguleika þeirra sem lægstar hafa tekjurnar til að ferðast. Embættismennirnir sem ferðast á annarra kostnað munu væntanlega ekki þurfa að hafa miklar áhyggjur af eigin ferðavenjum.

Nú er málið statt þannig að það fer til meðhöndlunar hjá Evrópuþinginu og í ráðinu. Auk þess ætlar framkvæmdastjórnin að stofna til nefndarstarfs þar sem kallaðir verða til sérfræðingar og hagsmunaaðilar. Þess er vænst að íslensk stjórnvöld fylgist vel með þessum málum þannig að ekki verði komið á evrópskri löggjöf sem beinlínis ógnar íslenskum hagsmunum.