Flóknara Ísland – nýjar íþyngjandi matvælareglur

Umhverfisráðherra hefur sett nýja reglugerð nr. 526/2006 um íblöndun bætiefna í matvæli. Samkvæmt reglugerðinni ber þeim sem blanda bætiefnum í matvæli að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar sem metur hvort neysla viðkomandi vöru sé til þess fallin að valda heilsutjóni. Stofnunin getur skilyrt íblöndunina og gert kröfu um sérstaka merkingu vörunnar. Þeir sem blanda bætiefnum í vörur sem þegar eru á markaði eiga að sækja um leyfi fyrir viðkomandi vöru fyrir 14. júní 2007. Bætiefni samkvæmt reglugerðinni eru vítamín, steinefni, amínósýrur og fitusýrur.

Langt seilst í nýtingu lagaákvæðis

Reglugerðin er sett samkvæmt lögum um matvæli nr. 93/1995 en samkvæmt þeim getur ráðherra sett reglugerð um notkun bætiefna. Það er langt seilst að nýta þetta lagaákvæði til að leyfisbinda alla íblöndun bætiefna. Ekki er ljóst á hvaða forsendum leyfi verður veitt og enn síður hvernig meta á hvort neyslan sé til þess fallin að valda heilsutjóni.

Evrópusambandið hefur um langa hríð unnið að reglum um bætiefni í matvælum en niðurstaða ekki fengist. Í drögum að reglum ESB er gert ráð fyrir að tilkynna skuli um íblöndun bætiefna en ekki er gert ráð fyrir leyfisveitingum. Ekki er heldur kunnugt um sambærilegar leyfisveitingar í nálægum löndum.

Minna má á að heimilt er að selja vítamín og steinefni óblönduð án þess að hver vara hafi fengið sérstakt leyfi og eins þarf ekki að sækja um leyfi til að blanda ýmsum aukefnum í matvæli eins og bragðefnum, litarefnum og rotvarnarefnum.

Enn eitt leyfið

Hér er um nýjar kvaðir að ræða og enn eitt leyfið sem framleiðendur matvæla hér á landi þurfa að sækja um og finnst þó mörgum nóg komið. Afleiðingarnar eru aukinn kostnaður og umstang sem verður enn einn þátturinn sem viðheldur háu matvælaverði hér á landi. Ávinningurinn er sennilega enginn en í besta falli óljós.