Flokkarnir hafa talað - seinni hluti

Heilbrigðismál, menntamál og sjálfbærni 

SA hafa birt áherslur sínar undir yfirskriftinni Höldum áfram þar sem farið er yfir áskoranir og lausnir í íslensku samfélagi. Skoðað var hversu vel áherslur stjórnmálaflokkanna ríma við áherslur atvinnulífsins í helstu málaflokkum. Til skoðunar voru stefnur þeirra stjórnmálaflokka sem mælast með meira en 1% fylgi í nýlegum skoðanakönnunum. Þetta eru Flokkur fólksins, Framsóknarflokkur, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn og Vinstri græn. Stuðst var við efni sem var aðgengilegt á heimasíðum stjórnmálaflokkanna. 

Hér verða tekin fyrir heilbrigðismál, menntamál og sjálfbærni, en hér má sjá sambærilega umfjöllun um efnahagsmál, vinnumarkaðinn og atvinnulífið.

Heilbrigðismál – Notandann í fyrsta sæti 

Lífskjarasókn, hraðar tækniframfarir og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar leiða af sér nýjar áskoranir í heilbrigðiskerfinu. Áskoranir næstu áratuga munu snúa að því hvernig íslenskt samfélag getur boðið upp á framúrskarandi heilbrigðisþjónustu án þess að stórauka kostnað almennings af því að njóta hennar. Í átt að því marki leggja SA áherslu á að fjárframlög ríkisins séu nýtt með sem hagkvæmustum hætti með því að nýta samkeppni um veitingu sjúkraþjónustu að uppfylltum kröfum um magn, gæði og verð. Þarfir notanda heilbrigðisþjónustu eiga að vera í forgrunni allrar stefnumótunar yfirvalda. Fjármagn skuli fylgja notanda og tryggt að honum sé veitt viðeigandi þjónusta innan ásættanlegs biðtíma.

Allir flokkarnir hafa markað sér stefnu í heilbrigðismálum og sameiginlegt megininntak þeirra að mikilvægt sé að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu sem og aðgengi allra að viðeigandi þjónustu. Þá er gegnumgangandi að flokkar vilji halda gjaldtöku í lágmarki, jafnvel fara alla leið og veita gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu. Allir vilja styðja og styrkja þessa mikilvægu stoð. Hvernig staðið verði að því er þó öllu óljósara. Stefnur margra einkennast af óljósum yfirlýsingum um að „tryggja“, „efla“ og „bæta“ án þess að útfæra það nánar. Hvort slíkar æfingar feli í sér vilja til að tryggja notanda viðeigandi þjónustu innan ásættanlegs biðtíma eða eitthvað allt annað er alls kostar óljóst.

Þrír flokkar eiga það aftur á móti sammerkt að marka sér skýra stefnu í átt að ákveðnum viðmiðunarmörkum um biðtíma og þjónustutryggingu. Það eru Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn.

Afstaða flokkanna til þess hvort nýta megi samkeppni um veitingu heilbrigðisþjónustu – þ.e. að leyfa fjármagni að fylgja notanda – er nokkuð skýrari. Aðeins Vinstri græn og Sósíalistar setja sig upp á móti fjölbreyttu rekstrarformi í heilbrigðisþjónustu á meðan aðrir flokkar telja í það minnsta tilefni til að slíkt verði skoðað, eða hreinlega að nýta eigi einkaframtakið í meira mæli, þannig að unnt sé að veita einstaklingum nauðsynlega þjónustu þegar þörfin knýr dyra.

Óskýr markmið og viðmið hins opinbera um hvaða heilbrigðisþjónustu skuli niðurgreiða og hver megi veita þjónustuna koma niður á þjónustu við notendur. Þarfir notenda heilbrigðisþjónustu þurfa hins vegar ávallt að vera í forgrunni við stefnumótun yfirvalda. Stjórnvöld eiga að ákveða og leiða í lög hvaða heilbrigðisþjónustu skuli tryggja. Semja þarf um alla heilbrigðisþjónustu við þá sem hana veita óháð rekstrarformi þess sem þjónustuna veitir, enda á notandinn ávallt að vera í forgrunni. Þannig eru sambærileg fjármögnun og jafnt aðgengi notenda tryggð fyrir sömu tegund heilbrigðisþjónustu. Ítarlegri tillögur SA um heilbrigðismál má lesa hér. 

Menntamál – Aukið sjálfstæði skóla 

Mikil miðstýring skólakerfisins hér á landi aftrar mikilvægu nýsköpunarstarfi þegar kemur að gerð námsefnis. Ör tækniþróun hefur leitt til gjörbreytts umhverfis nemenda. Sú þróun hefur ekki endurspeglast með sama hraða í skólastarfi og námsefni. Með auknu valfrelsi nemenda og svigrúmi stjórnenda er ýtt undir þróun aðferða sem henta mismunandi hópum nemenda best. Skapa þarf umgjörð um íslenskt menntakerfi sem hvetur til skapandi nálgunar og fjölbreytileika í skólastarfi.

Stjórnmálaflokkarnir eru almennt sammála um að menntun sé ein af meginstoðum öflugra og jafnara samfélags, með auknum tækifærum og lífsgæðum almennt. Öflugt menntakerfi sé grundvöllur sterks atvinnulífs og efnahagsframfara. Þannig er frammistaða drengja í skólakerfinu þeim flestum hugleikin sem og nemenda af erlendum uppruna; menntakerfið þurfi að styðja við þá sem ekki finna sig í núverandi kerfi. Þá er mörgum námslánafyrirkomulagið hugleikið auk framboðs náms á landsbyggðinni og auknu aðgengi að sí- og endurmenntun.

Menntamál hafa ekki verið áberandi í samfélagsumræðunni undanfarið. Hið sama má segja um stefnuskrár flokkanna; lítið er um róttækar hugmyndir eða kerfisbreytingar að þessu sinni. Þó eru fjórir flokkar sem hyggjast taka á mikilli miðstýringu í skólakerfinu og þá helst með auknum sveigjanleika í námsskrám. Þá eru einungis tveir flokkar, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn, sem opna á að nýta einkaframtakið í meira mæli.

Sjálfbærni – Hagrænir hvatar og græn orka  

Auðlindir eru takmarkaðar og jafnvægi á milli samfélags, náttúru og efnahags er forsenda fyrir áframhaldandi hagsæld. Staðsetning, saga, menning og náttúruímynd Íslands, auk grunninnviða orkuframleiðslu setja okkur í kjörstöðu til þess að ná árangri þegar kemur að sjálfbærum lifnaðar- og atvinnuháttum. Aðkoma atvinnulífsins skiptir hér sköpum þar sem horfa þarf til nýsköpunar og fjárfestingatækifæra á þessu sviði.

Stjórnmálaflokkunum er flestum umhugað um umhverfismál. Óljóst og loðið orðalag einkennir þennan málaflokk þó. Margir vilja styðja græna nýsköpun sérstaklega og efla innlenda orkukosti svo Ísland megi verða óháð jarðefnaeldsneyti, fremst meðal jafningja. Flestir flokkar vilja nýta græna skatta, hvata og orku en lítið er um útfærslur í tillögum flokkanna eða hvaða mælanlegu markmiðum breytinunum er ætlað að ná fram.

Til að tryggja næga græna orku til atvinnuuppbyggingar framtíðarinnar þarf skýra stefnu yfirvalda þegar kemur að nýtingu grænna orkukosta og uppbyggingu innviða. Til að stuðla að mikilvægum umbótum hjá fyrirtækjum þarf hagræna hvata til fjárfestinga í grænum lausnum. Grænir skattar eiga að þjóna því markmiði að draga úr óæskilegri hegðun en ekki vera varanleg tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Ítarlegri tillögur SA í átt að sjálfbærri þróun má lesa hér.