Fleiri og betri störf í ferðaþjónustu

Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri og stofnandi ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor, segir að með fjölgun ferðamanna til Íslands sé hægt að skapa fleiri og betri störf í greininni. Hann segir framtíð greinarinnar vera bjarta en mikilvægt sé að gleyma sér ekki í skammtíma góðæri. Íslendingar þurfi sem þjóð að móta langtímastefnu í ferðaþjónustu með sjálfbæran vöxt að markmiði.

Ásberg Jónsson á aðalfundi SA 2013

Ásberg flutti erindi á aðalfundi SA 2013 um tækifærin í greininni. Hægt er að horfa á erindi hans hér að neðan. Hann telur að huga þurfi alvarlega að eftirfarandi þáttum til að ferðaþjónustan geti vaxið á sjálfbæran hátt:

Rannsóknir
Við þurfum að auka rannsóknir og meta áhrif fjölgunnar ferðamanna á þolmörk ferðaþjónustunnar.

Langtímastefna
Við þurfum sem þjóð að móta langtímastefnu í ferðaþjónustu með sjálfbæran vöxt að markmiði.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða
Við þurfum að styrkja framkvæmasjóð ferðamannastaða og hefja stóraukna uppbyggingu innviða ferðaþjónustu. Til að fjármagna sjóðinn þurfum við að hefja sölu á hálendis-, þjóðgarða- eða náttúrupassa sem og með auknum greiðslum úr ríkissjóð.

Ísland allt árið
Við þurfum að halda áfram á þeirri braut að leggja megin áherslu í okkar markaðssetningu á komu ferðamann utan sumarmánaða.

Stýring umferðar
Við þurfum að koma upp kerfi til að stýra umferð um okkar viðkvæmustu svæði með gjaldtöku og eftirliti.

Viðhorf almennings 
Þó svo að umfjöllum fjölmiðla um ferðaþjónustu sé jákvæð í dag þá gæti það hæglega breyst.  Við megum því ekki gleyma að kynna jákvæðar hliðar ferðaþjónustunnar gagnvart almenningi til að tryggja að Íslendingar haldi áfram að upplifa aukningu ferðamanna á jákvæðan hátt.

Nordic Visitor hóf starfsemi sem lítil einkarekin upplýsingamiðstöð og hjólaleiga í Lækjargötu. Í dag er fyrirtækið ein stærsta ferðaskrifstofa landsins, með 50 starfsmenn, og selur ferðir allt árið um öll Norðurlönd.

Ásberg telur að sú áhersla sem hefur verið í fjölmiðlum og almennri umræðu um fjölda og fjölgun ferðamanna á villigötum.

"Fjöldinn er í mínum huga í raun afgangsstærð, það sem skiptir máli er hversu mikið þeir ferðamenn sem koma hingað til lands eyða hér á landi og hver sé okkar raunkostnaður við að taka á móti þessum ferðamönnum. Við eigum því ekki að einbeita okkar að verðum heldur eigum við að veita bestu upplifunina og fá greitt vel fyrir. 

Því eins og staðan er í dag þá tekur landið ekki endalaust við og þörf er á vissri hugarfarsbreytingu hér á landi ef við ætlum að taka á móti vel yfir einni milljón ferðamanna á hverju ári í náinni framtíð."

SMELLTU HÉR TIL AÐ HORFA Á ERINDI ÁSBERGS