Fjórðungs skuldaaukning stærstu sveitarfélaga
Skuldir, lífeyrisskuldbindingar og ábyrgðir fjögurra stærstu sveitarfélaga landsins og stofnana þeirra jukust um fjórðung að raungildi á hvern íbúa frá 1996 til 2000. Mest jukust skuldirnar sjálfar, eða um 45% að raungildi, en lífeyrisskuldbindingar og ábyrgðir minna. Skuldir og ábyrgðir á Hafnfirðing jukust um tvo þriðju hluta að raungildi á þessum fjórum árum og skuldir og ábyrgðir á Reykvíking jukust um þriðjung. Skuldir og ábyrgðir Akureyringa stóðu sem næst í stað, en skuldir og ábyrgðir hvers Kópavogsbúa drógust saman um fjórðung.
(Smellið á myndina)
Hæstar í Reykjavík
Mestar eru skuldbindingar Reykvíkinga, um 800 þúsund
krónur á mann, en minnstar eru þær í Kópavogi, um 350 þúsund. Ein
skýringin á vaxandi skuldum sveitarfélaga er flutningur grunnskóla
til sveitarfélaga 1996. Þá fengu sveitarfélögin jafnframt meiri
tekjur, en þær virðast ekki hafa vaxið til jafns við útgjöldin.
Umsvif Orkuveitunnar á Nesjavöllum og víðar eiga þátt í
skuldaaukningu Reykjavíkurborgar. Hafnarframkvæmdir og smíði
íþróttahúss, áhaldahúss og skóla hafa aukið skuldbindingar
Hafnarfjarðarbæjar á undanförnum árum.
(Smellið á myndina)
Mælikvarði á fjárhagslega áhættu
borgaranna
Skuldir og ábyrgðir sveitarfélaga eru mælikvarði á þá áhættu sem
þau leggja sig og íbúa sína í. Eignir koma á móti skuldunum, en þær
eru hverfular (það á bæði við um peningalegar eignir og
efnislegar). Ekki er nóg að líta á sveitarsjóðina sjálfa, heldur
verður að skoða samstæðu sveitarsjóðs og stofnana þeirra, enda dæmi
um að mikið fé sé fært þarna á milli. Eignirnar sem koma á móti
skuldunum eru mistraustar, og mismikil hætta er á að ábyrgðir falli
á sveitarfélögin. Ábyrgðir sveitarfélaga vegna skulda rafveitna
hafa ekki sett þau í mikla hættu til þessa, enda hafa veiturnar
setið að öruggum markaði. Þetta breytist þegar samkeppni verður
innleidd á þessu sviði, eins og stefnt er að með frumvarpi
iðnaðarráðherra. Ef ætlunin er að bregða upp góðri mynd af áhættu
sveitarfélaga verður að skoða hverja eign og hverja ábyrgð fyrir
sig og meta áhættuna. Summa skulda og ábyrgða gefur aðeins nokkra
hugmynd um hana.
(Smellið á myndina)
Bæjarfélög þurfa að leysa til sín félagslegt húsnæði á kostnaðarverði, ef þess er óskað. Ekki liggja alls staðar fyrir upplýsingar um þessar ábyrgðir. Á Akranesbæ hvíla hér um bil engar kvaðir vegna þessa, en annars staðar eru þær nokkrar, þó að tölur vanti frá Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Seltjarnarnesi. Ef fólki fækkar geta sveitarfélög lent í vanda vegna þessa. Á Akureyri er innlausnarverðið til dæmis tæpir 5 milljarðar króna. Áhætta sveitarfélaganna er mismikil vegna þessa og er líkast til mest hætta á að þetta skapi vandræði í fámennum byggðum á landsbyggðinni, þar sem sveiflur í mannfjölda geta verið miklar.
Veitur og hafnir eru dýrar
Skuldbindingarnar eru minnstar á þeim bæjumum sem ekki
eru með eigin veitur eða höfn. Seltjarnarnesbær á eigin
hitaveitu, Kópavogur höfn, en Garðabær á hvorki veitur né
höfn. Þá ábyrgjast Reykjavík og Akureyri skuldir
Landsvirkjunar (á 3. hundrað þúsund krónur á hvern íbúa í þessum 2
bæjum).
Ábyrgðir
Áður virðast ábyrgðir hafa verið fremur auðsóttar hjá
sveitarfélögum. Þau ábyrgðust til dæmis skuldir fyrirtækja á
staðnum, íþróttafélaga og kirkjubygginga. Margar þessara ábyrgða
féllu á bæina og í sveitarstjórnarlögum frá 1998 er
sveitarfélögunum óheimilt að ábyrgjast skuldir annarra en
sveitarsjóðs, eigin stofnana og fyrirtækja, sem geta þó komið víða
við.
Hlutafélagsformið hefur ýmsa kosti
Bæirnir ábyrgjast yfirleitt allar skuldir veitna og annarra
bæjarfyrirtækja. Þetta gerir fyrirtækjunum kleift að fá ódýrari lán
en ella, en á móti leggja lántökur fyrirtækjanna bæjarfélagið og
íbúana í hættu. Ábyrgðin gerir það líka að verkum að aðhald er
minna en ella að fjárfestingum fyrirtækjanna. Bankar lána óhræddir
fyrirtækjum með bæjarábyrgð. Ef ábyrgðin hverfur, til dæmis ef
fyrirtækjum er breytt í hlutafélag, ganga lánardrottnar miklu
harðar eftir því að fé þeirra sé vel varið, þannig að líklegt sé að
það muni skila góðum arði. Þegar bæjarfyrirtækjum er breytt í
hlutafélög minnkar áhætta íbúanna af rekstrinum, raunverulegur
kostnaður við reksturinn verður sýnilegur og aðhald eykst að
fjárfestingum þeirra. Auk þess á bæjarfélagið þá þann kost að selja
hlutafé í fyrirtækjunum, ef það vill losa um fé bæjarins.