Fjölmennur fundur um fjármögnunarsamninga

Yfir eitt hundrað manns mættu á opinn fund SA, SI og SVÞ og um fjármögnunarsamninga fyrirtækja sem fram fór í gær á Grand Hótel Reykjavík. Þar var rætt um þá réttaróvissu sem skapast hefur í kjölfar nýlegra dóma og útreikning vaxta af erlendum lánum, sem dæmd hafa verið ólögleg.  Þorsteinn Einarsson hrl. fjallaði um Lýsingardóminn og fordæmisgildi hans, Einar Hugi Bjarnason hrl. fjallaði um vexti ólöglegra erlendra lána og Hjördís D. Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum svaraði fyrirspurnum fundargesta.

Tilgangur fundarins var að skýra þá óvissu sem fjölmörg fyrirtæki eru í vegna fjármögnunarsamninga. Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins stýrði fundinum. Hann sagði fundarboðendur hafa leitað leiða til þess að einfalda og hraða málum svo að hægt væri að ná niðurstöðu sem fyrst.

Frá umræðum á fundinum

Staðan er samt flókin og í máli Þorsteins og Einars Huga kom fram að fjölmörg dómsmál þurfi til viðbótar til að leysa úr ýmsum álitamálum og líklega þurfi hver og einn að láta reyna á réttarstöðu sína fyrir dómi þar sem dómar hafi til þessa verið misvísandi. Í máli þeirra kom fram að það gæti tekið langan tíma en vonir standa til að þau prófmál sem verða sett í forgang verði afgreidd af hæstarétti ekki síðar en vorið 2013 - það gæti þó dregist enn frekar og mál sem varða fjármögnunarsamninga eru ekki í forgangi hjá dómstólunum.

Hvert sæti var skipað á Grand Hótel Reykjavík

Á fundinum fór Einar Hugi yfir samstarf lánveitanda og fulltrúa lántakenda um úrvinnslu gengistryggðra lána en því er nú lokið. Í fréttatilkynningu frá SFF og Umboðsmanni skuldara kemur fram að búið er að velja ellefu prófmál þar sem mun reyna á tuttugu álitaefni sem þarf að fá úr skorið fyrir dómstólum. Af þessum málum tengjast sex lánum einstaklinga og fimm lánum lögaðila. Þau mál sem ekki verða þingfest nú í júní verða þingfest strax að loknu réttarhléi. Formlega hefur verið óskað eftir flýtimeðferð fyrir þessi mál hjá héraðsdómi Reykjavíkur og vonast er til að dómar verði uppkveðnir fyrir áramót.

Í tilkynningunni segir:

"Samstarf lánveitenda, með aðkomu embættis umboðsmanns skuldara, Neytendastofu og embættis talsmanns neytenda, sem miðar að því að hraða úrvinnslu skuldamála sem varða gengistryggð lán og heimilað var með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þann 9. mars sl., er nú lokið.

Þann 8. maí sl. skilaði samstarfið af sér samantekt þar sem tilgreind voru um tuttugu ágreiningsefni sem gæti reynt á fyrir dómstólum. Samstaða hefur náðst um val á ellefu prófmálum, þar sem leitast er eftir því að láta reyna á þessi ágreiningsefni.

Í sex af þessum ellefu málum eru lántakar einstaklingar, en í fimm málum eru lántakar lögaðilar.

Fjórir lögmenn, þeir Aðalsteinn E. Jónasson hrl. og Stefán A. Svensson hrl. fyrir hönd fjármálafyrirtækja og Dróma og Einar Hugi Bjarnason hrl. og Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl. fyrir hönd umboðsmanns skuldara, völdu þessi ellefu mál útfrá fyrrnefndri samantekt um álitaefni. Þeim fjölmörgu sem höfðu samband og óskuðu eftir að taka þátt í þessum dómsmálum er þakkaður áhuginn.

Meðal annars voru valin mál þar sem:

  • lánsfjárhæð var ýmist há eða mjög lág,

  • lánstími var ýmist skammur eða til lengri tíma,

  • lán hafði verið í vanskilum en komið í skil með ýmsum úrræðum,

  • lán hafði alltaf verið í skilum,

  • lán var enn í vanskilum,

  • lán var greitt upp fyrir lok lánstíma,

  • lán var fasteignalán,

  • lán var bílalán.

Einstaklingarnir hafa verið hvattir til að hafa samband við umboðsmann skuldara, sem mun veita þeim aðstoð eftir því sem við á og greiða lögmannskostnað. Lántakendum er í sjálfsvald sett hvaða lögmenn þeir kjósa sér og mun umboðsmaður skuldara ekki skipta sér að því vali. Þó er æskilegt að lögmennirnir hafi réttindi til að flytja mál fyrir Hæstarétti.

Ekki mun nást að þingfesta öll þessi mál fyrir réttarhlé, en kapp verður lagt á að það verði gert ekki síðar en strax eftir réttarhlé. Tryggja verður að lögmenn lántaka hafi nægan tíma til að undirbúa mál sinna umbjóðenda. Þegar hefur verið haft samband við Héraðsdóm Reykjavíkur og Dómstólaráð og óskað eftir flýtimeðferð þessara ellefu mála. Einnig verður óskað eftir flýtimeðferð fyrir Hæstarétti, en vonast er til að mál þessi verði tilbúin til málflutnings fyrir Hæstarétti síðla hausts."