Fjölgun örorkulífeyrisþega hefur mikil áhrif á vinnumarkað

Örorkulífeyrisþegum á Íslandi hefur fjölgað hratt undanfarin ár. Í árslok 2006 voru þeir rúmlega 13.200 sem er tæp 8% af vinnuafli í landinu. Svokallað nýgengi örorku, þ.e. fjöldi nýrra örorkumatsúrskurða er orðinn svo mikill að það hefur ekki einungis veruleg fjárhagsleg áhrif á gjöld og skuldbindingar ríkissjóðs og lífeyrissjóða, heldur eru áhrifin á vinnumarkaðinn einnig tilfinnanleg.

Nýgengi örorku á ári undanfarin þrjú ár hefur numið 1.270 manns að meðaltali sem er tæp 0,8% af vinnuaflinu árlega. Skiptingin milli kynja er á þann veg að karlar eru 40% nýrra lífeyrisþega og konur 60%. Þá hefur aldursgreining leitt í ljós að meðalaldur örorkulífeyrisþega fer lækkandi og eykur það enn á framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs og lífeyrissjóða.

Nýgengi örorkulífeyrisþega (75% örorkumat) 2004-2006

Heimild: Tryggingastofnun ríkisins

Fjölgun örorkulífeyrisþega á fyrstu 6 mánuðum 2007

Á fyrstu 6 mánuðum þessa árs hefur nýgengi örorkulífeyrisþega haldið áfram í sama takti og undanfarin ár. Þeim fjölgaði um 622 og voru karlar þar af 255 og konur 367 þannig að hlutfallsleg skipting milli kynja er sú sama og áður. Fjölgunin er 5% miðað við fyrra árshelming 2006 en fækkun miðað við 2004 og 2005 þegar nýgengið náði sögulegu hámarki.

Fjöldi örorkulífeyrisþega (með 75% örorkumat)

þann 30. júní ár hvert og nýgengi (fjöldi örorkumatsúrskurða)

Smelltu á töfluna til að sjá stærri útgáfu!

Smelltu á töfluna til að sjá stærri útgáfu!

Heimild: Tryggingastofnun ríkisins

Samhengi örorkutíðni við framboð og eftirspurn á vinnumarkaði

Há örorkutíðni undanfarin ár hefur leitt til þess Íslendingum á vinnumarkaði hefur fjölgað mjög lítið, þar sem atvinnuþátttaka örorkulífeyrisþega er lítil. Þetta hefur síðan m.a. leitt til mikillar eftirspurnar eftir erlendum starfsmönnum.

Á fyrstu 6 mánuðum ársins fjölgaði íbúum á vinnualdri, 18-66 ára, um tæplega 3.500, þar af um 2.200 karla og 1.300 konur. Kynjamunurinn endurspeglar þá miklu eftirspurn sem verið hefur eftir erlendum byggingaverkamönnum því aðfluttir karlar umfram brottflutta voru 1.600 en konur tæplega 800. Á þessu tímabili fluttu heldur fleiri Íslendingar frá landinu en til þess. Tveir þriðju þeirra sem fluttust til landsins á fyrstu sex mánuðum ársins (aðfluttir umfram brottflutta) settust að á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. 1.100 karlar og 500 konur, en til staða utan höfuðborgarsvæðisins fluttust 500 karlar og 300 konur.

Þegar aðfluttir umfram brottflutta eru dregnir frá íbúafjölguninni kemur í ljós að "Íslendingum" (í þeim hópi er að sjálfsögðu fjöldi fólks af erlendu bergi brotið sem flust hefur til landsins á liðnum árum) hefur fjölgað um tæplega 1.100, þar af körlum um tæplega 600 og konum um 500.  Þegar fjölgun örorkulífeyrisþega er sett í samhengi við þessa fjölgun Íslendinga koma vinnumarkaðsáhrifin í ljós því að frádregnum nýjum örorkulífeyrisþegum þá hefur fjölgun Íslendinga á vinnumarkaði einungis numið tæplega 500 manns, þar af 332 karlar og 136 konur. Til samanburðar þá hefur störfum á vinnumarkaði fjölgað um 8.000-9.000 á ári í síðustu mælingum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar eða um 4.000-4.500 á hverju sex mánaða tímabili. Þó Íslendingum á vinnumarkaði fjölgi um 400-500 manns á sama tíma vegur það ekki þungt upp í þá eftirspurn og því þarf engan að undra að erlendum starfsmönnum hafi fjölgað gríðarlega á árinu.

Fjölgun íbúa á aldrinum 18-66 ára

og fjölgun örorkulífeyrisþega á fyrstu 6 mánuðum ársins 2007

FÖL3

* að því gefnu að örorkulífeyrisþegar hverfi af vinnumarkaði

Heimild:  Hagstofa Íslands, Tryggingastofnun ríkisins