Fjöldi starfandi aldrei jafn mikill

Starfandi fólki á íslenskum vinnumarkaði hefur ekki fjölgað jafn mikið frá hruni eins og á árinu sem er að líða. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands sem Samtök atvinnulífsins tóku saman en fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag. Meðalfjöldi starfandi á árinu fyrir utan desember er 191. 036 og fjölgaði um 7.311 frá meðaltali ársins 2015. Fjöldi starfandi fólks á Íslandi hefur aldrei verið jafn mikill og á árinu 2016. Mestur var fjöldinn í júlí eða 197.900 og í nóvember 197.200.

Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálstofnun, rýnir í tölurnar í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta er ann­ars veg­ar vegna fjölg­un­ar í ferðaþjón­ustu, sem er meiri en menn gerðu ráð fyr­ir og síðan er bygg­ing­ariðnaður­inn far­inn í gang, þar er orðin margra ára upp­söfnuð þörf fyr­ir fram­kvæmd­ir - al­mennt hús­næði, at­vinnu­hús­næði, vega­gerð og fleira,“ seg­ir Karl og bendir á að það sé í fyrsta skipti í ár sem veru­leg fjölg­un sjá­ist í bygg­ing­ariðnaði. Hann telur að fjölgun starfa haldi áfram á næsta ári og verði sambærileg því sem nú sést og ferðaþjónustan vaxi á svipuðum hraða á næsta ári.

Í tölum Hagstofunnar kemur fram að hlutfall starfandi af heildarmannfjölda 16-74 ára var árið 2016 81,1% og hefur ekki verið hærra síðan árið 2007 þegar hlutfallið var 81,4%.

  • Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var fjöldi starfandi á árinu 2012 að meðaltali 169.275
  • Meðalfjöldi starfandi á árinu 2013 var 174.942 sem var fjölgun um 5.667 frá árinu áður.
  • Starfandi fólki á vinnumarkaði fjölgaði enn árið 2014 en þó ekki eins mikið og árið áður eða um 2.792 að meðaltali yfir árið.
  • Meðalfjöldi starfandi árið 2015 var 183.725 og hafði fjölgað um 5.992 frá meðaltali ársins á undan.