Fjöldi jákvæðra frétta borist til SA

Samtök atvinnulífsins opnuðu á dögunum pósthólf fyrir jákvæðar fréttir á vef SA og skemmst er frá því að segja að fjöldi jákvæðra frétta hefur borist úr íslensku atvinnulífi á stuttum tíma.  Samtök atvinnulífsins hvetja fyrirtæki og frumkvöðla til að halda áfram að stinga að SA góðum fréttum - ekki veitir af við þær erfiðu aðstæður sem nú eru í íslensku atvinnulífi. Á vef SA má nú sjá brot af því sem hefur borist í pósthólfið en við munum halda áfram að birta það sem berst í pósthólfið á næstu dögum og vikum.

Hægt er að stinga að okkur jákvæðri frétt með því að smella hér

Meðal jákvæðra frétta sem SA hafa borist má nefna þessar:

Þjóðverjarnir koma!
Flugfélögin German Wings, Air Berlin og Lufthansa hyggjast auka sætaframboð til Íslands næsta sumar og sama er að segja um Iceland Express og Icelandair. Þannig er gert ráð fyrir að í boði verði um 5000 sæti á viku til Íslands frá Þýskalandi næsta sumar. Útflutningsráð Íslands, Ferðamálastofa og Samtök ferðaþjónustunnar efna til markvissrar kynningar á íslenskri ferðaþjónustu á næstu mánuðum. Í því skyni hefur verið stofnaður sérstakur markaðshópur 13 öflugra ferðaþjónustufyrirtækja sem munu kynna þjónustu sína á völdum mörkuðum í Evrópu.

ReMake Electric skrifar undir samning við alþjóðlegt stórfyrirtæki
Íslenska nýsköpunarfyrirtækið ReMake Electric ehf. hefur skrifað undir samning við alþjóðlegt stórfyrirtæki. ReMake er nú skrefinu nær að koma sínum einkaleyfisvörðu vörum á markað en hjá fyrirtækinu sem ReMake hefur samið við starfa um 70 þúsund manns og vörur þess eru seldar í 150 löndum. ReMake Electric hefur unnið að þróun nýrrar kynslóðar rafmagnsöryggisvara sem fyrirtækið á alþjóðaeinkaleyfi yfir. Fyrirtækið er staðsett í Hafnarfirði en hefur þróað vörurnar í Kína.  

Kaffitár nýtir íslenska framleiðslu í ilmandi jólapakka

Kaffitár kynnti nýlega nýja Hátíðakaffið og einnig nýja gjafakassa sem voru hannaðir og prentaðir hér á landi. "Í gegnum árin hefur Kaffitár selt mikið af gjafakörfum fyrir jólin. Í ár var hugmyndin hjá starfsfólkinu að draga úr körfu-innflutningi bæði vegna kostnaðar og umhverfisáhrifa. Úr varð að hannaður var glæsilegur gjafakassi hjá H2 hönnun sem prentaður var hjá Odda. Í þennan kassa fara kaffipakkar frá Kaffitári, súkkulaði frá Freyju og Nóa Síríus og eins smákökur frá eldhúsi Kaffitárs. Allar vörur íslenskar og ferskar," segir í frétt frá Kaffitári en þar ræður hugmyndaflug og gleði ríkjum þessa dagana.

Er CCP að leita að þér?
Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP, sem vinnur nú að framleiðslu á þremur stórum tölvuleikjum á Íslandi, í Bandaríkjunum og Kína, hyggst fjölga starfsmönnum sínum verulega á næstu 12-18 mánuðum eða um rúmlega 150 manns. Fyrirtækið hefur þegar ráðið til sín um 90 starfsmenn það sem af er þessu ári og er heildarfjöldi þeirra sem vinna fyrir CCP nú rétt tæplega 450. Að sögn forráðamanna CCP er tækifæri til þess að ráða stóran hluta af þessum 150 starfsmönnum á Íslandi, ef mannskapur fæst. Fyrirtækið leitar nú logandi ljósi að fólki með menntun á sviði verkfræði, tölvunarfræði, stærðfræði eða eðlisfræði til þess að framleiða afþreyingarvörur framtíðarinnar. Þeim sem vilja sækja um starf hjá CCP er bent á vefsíðuna www.ccpgames.com/jobs   

Helga stofnaði eigið fyrirtæki: Tölvur og Tungumál
Helga G. Hinriksdóttir er menntaður kennari og kerfisfræðingur. Hún lærði kerfisfræði í Danmörku en fjölskyldan flutti heim til Íslands, á Hvammstanga nánar tiltekið, fyrir tæpu ári síðan. "Mér stóð til boða vinna við forritun í litlu fyrirtæki en við bankahrunið var það dregið til baka. Við vorum þá þegar farin að undirbúa flutning heim. Ég fékk vinnu við afleysingar á leikskólanum eftir áramót og með vorinu var mér boðin full vinna og deildarstjórn fyrir komandi vetur. Að vinna á leikskóla er ekki það sem ég hafði haft í huga við heimkomu svo ég lagði höfuðið í bleyti og ákvað í kjölfarið að stofna mitt eigið fyrirtæki," segir Helga.

Fyrirtæki Helgu hóf síðan starfsemi í ágúst en það heitir  Tölvur og Tungumál og er heiti þess lýsandi fyrir starfsemina. "Í dag vinn ég 60% vinnu á leikskólanum ásamt því að vinna í fyrirtækinu mínu. Ég er með 3 tungumálanámskeið í gangi; eitt íslenskunámskeið fyrir útlendinga og tvö enskunámskeið. Ég er með þýðingarverkefni fyrir lítið fyrirtæki og eitt verkefni varðandi heimasíðu. Eftir áramót stefni ég að framhaldsnámskeiðum í ensku og íslensku, námskeiði í pólsku og ítölsku fyrir byrjendur og tölvunámskeiðum. Viðtökur hafa farið fram úr mínum björtustu vonum! Stefnan er auðvitað að geta sinnt þessu 100% frá og með næsta hausti," segir Helga G. Hinriksdóttir sem er að hasla sér völl í íslensku atvinnulífi. Gangi henni vel!

Hjól atvinnulífsins mjakast segir framkvæmdastjóri STRÁ MRI
"Hjól atvinnulífsins virðast vera að mjakast örlítið áfram á ný," segir Guðný Harðardóttir, framkvæmdastjóri STRÁ MRI, og tekur fram að þau störf sem bjóðist séu helst fyrir sérhæfðara starfsfólk innan hugbúnaðar- og fjármálageirans, hjá þjónustufyrirtækjum. Segir hún ekki mikla eftirspurn eftir almennu skrifstofufólki, nema þaulvönum bókurum en gífurlega mikið framboð sé af hæfum einstaklingum í atvinnuleit. Sjá nánar hér

SagaMedica í útflutningsátak og vörur seljast vel innanlands

Nýliðinn október var einn söluhæsti mánuður SagaMedica - Heilsujurta ehf. á innlendum markaði frá upphafi. "Þetta bendir til ánægju neytenda með vörurnar, en einnig þess að kreppan hafi lítil áhrif til þessa. Almennt er viðurkennt að fyrirtæki í heilsugeiranum eru minna háð sveiflum í efnahagslífinu en margur annar rekstur," segja forsvarsmenn fyrirtækisins. Unnið er að útflutningsátaki á vörum SagaMedica með áherslu á Norðurlöndin, Bandaríkin og Kanada. Ásamt þessu hefur SagaMedica nýlega stofnsett vefverslun, www.sagamedica.com, fyrir erlenda markaði og er hún staðsett á Akranesi.

Á næstu vikum verður opnuð vefverslun fyrir innlendan markað til þess að auðvelda landsmönnum öllum aðgengi að vörunum. Vísindamenn SagaMedica hafa staðið að rannsóknum á íslenskum lækningajurtum frá árinu 1992. Afrakstur þessara rannsókna eru vörurnar SagaPro, SagaMemo, Angelica og Voxis. Vörurnar eru framleiddar úr íslenskri ætihvönn og blágresi og er þeim ætlað að hjálpa fólki sem glímir við tíð næturþvaglát og kvíða og að veita forvörn gegn minnistapi, kvefi og flensu. Starfsfólk SagaMedica hefur orðið vart við mikla jákvæðni gagnvart fyrirtækinu og vörum þess erlendis sem innanlands. Áhersla er lögð á að SagaMedica sé íslenskt fyrirtæki með íslenskar vörur, framleiddar úr hreinni náttúru landsins með vísindalegar rannsóknir að baki.

Fleiri jákvæðar fréttir birtast fljótlega á vef SA  ...