Fjármálaráðherra hvattur til breytinga á reglum um virðisaukaskatt

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, og SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu, hafa sent fjármálaráðherra, Árna Mathiesen, bréf þar sem hann er hvattur til þess að hafa frumkvæði að því að breyta reglum um virðisaukaskatt, þannig að þær hindri ekki kaup opinberra aðila á þjónustu einkaaðila. Ráðherra hefur móttekið bréfið og hefur fjármálaráðuneytið nú málið til meðferðar. Ofangreind samtök vænta viðbragða úr ráðuneytinu innan tíðar enda telja þau að ekki eigi að stýra því með virðisaukaskatti hvaða þjónustu einakaaðilar geti boðið opinberum aðilum. Hagkvæmnin ein eigi þar að ráða.  

Samtökin leggja til að í stað þess að skilgreina það með tæmandi hætti hvaða þjónusta teljist endurgreiðsluhæf, verði meginreglan sú að opinberum aðilum og öðrum aðilum sem reka sambærilega óskattskylda þjónustu skuli endurgreiddur virðisaukaskattur af aðkeyptri þjónustu. Að því marki sem frávik frá þessari meginreglu geti talist nauðsynleg verði þau skilgreind sérstaklega.

Í niðurlagi bréfsins segir: "Samtökin fara þess hér með á leit að þér beitið yður fyrir endurskoðun á reglum um virðisaukaskatt til þess að tryggja að þær hindri ekki kaup opinberra aðila og annarra sem undanþegnir eru greiðslu virðisaukaskatts á þjónustu einkaaðila. Um er að ræða mikið framfaramál sem yrði jafnt í anda verkefnis stjórnvalda um "Einfaldara Ísland" sem og nýkynntrar stefnu fjármálaráðuneytisins, þar sem hagkvæmt og skilvirkt skattkerfi eru meðal meginmarkmiða auk framtíðarsýnar ráðuneytisins um að auka samkeppnishæfni íslensks samfélags." Bréf samtakanna (PDF-skjal).