Fjármálageirinn greiðir yfir 40% af álögðum tekjuskatti lögaðila

Vöxtur fjármálaþjónustu á Íslandi síðustu 10 árin hefur verið gríðarlega hraður. Umfang greinarinnar og verðmætasköpun hefur margfaldast ásamt skattgreiðslum til þjóðfélagsins. Áætlað er að geirinn í heild greiði um 15 milljarða króna í tekjuskatt sem nemur um 40% af álögðum tekjuskatti lögaðila á árinu 2006 sem er vegna tekna ársins 2005. Útlit er fyrir að skattgreiðslurnar aukist enn frekar á næsta ári, en samanlagður hagnaður viðskiptabankanna eftir fyrstu níu mánuði þessa árs er nú þegar orðinn meiri en á öllu árinu 2005.

Ný úttekt HR á íslenskum fjármálamarkaði

Háskólinn í Reykjavík kynnti á stofnfundi Samtaka fjármálafyrirtækja þann 7. nóvember nýja úttekt á íslenskum fjármálamarkaði. Þar segir í niðurlagi að fjármálaþjónusta á Íslandi hafi ýtt undir hagvöxt, hagsæld og almenna velmegun í landinu. Ólafur Ísleifsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, kynnti niðurstöðurnar, en í þeim má m.a. finna eftirfarandi mynd sem sýnir að álagður tekjuskattur á viðskiptabankanna er rúmlega 11 milljarðar króna en fjármálageirinn í heild greiðir yfir 40% af tekjuskatti lögaðila miðað við álagningu ársins 2005.

Skattgreiðslur

Í úttektinni kemur ennfremur fram að heildarskatttekjur hins opinbera af starfsemi fjármálafyrirtækja í heild gætu legið á bilinu 30-35 milljarðar króna eða sem nemur ríflega 8% af öllum skatttekjum ríkis og sveitarfélaga.

Þriðjungur hagvaxtar frá fjármálageira

Í úttekt HR kemur fram að framlag fjármálageirans til landsframleiðslu á Íslandi hefur farið vaxandi undanfarinn áratug og nam árið 2005 um 9% af landsframleiðslu. Samanburður OECD sýnir að það er það hæsta sem þekkist á Norðurlöndum og að íslenskur fjármálageiri er að nálgast sterkustu fjármálaríki heims, Bretland og Bandaríkin, að þýðingu í þjóðarbúskapnum. Verg landsframleiðsla jókst um 19,1% á tímabilinu 2001-2005, skv. tölum Hagstofu Íslands. Af þeirri aukningu verðmætasköpunar þjóðarbúsins stafa 35% frá fjármálageiranum.

Framlag til hagvaxtar

Af sem áður var

Skattgreiðslur fjármálafyrirtækja hafa margfaldast í takt við aukin umsvif þeirra, einkum á erlendum mörkuðum. Það sést vel þegar litið er á tölur frá ríkisskattstjóra um álagðan tekjuskatt á fjármálageirann á árunum 1999-2005. Árið 1999 nam álagningin 1.240 milljónum króna en á þeim tíma var eignarhald ríkisins ráðandi á fjármálamarkaði. Samkvæmt úttekt HR má sem fyrr segir ætla að fjármálafyrirtækin í heild greiði um 15 milljarða króna í tekjuskatt vegna tekna ársins 2005. Svo háar tekjuskattgreiðslur eins atvinnuvegar eiga sér engin fordæmi hér á landi og eru þær margfalt meiri en þeirra atvinnuvega sem næstir koma í greiðslu tekjuskatts lögaðila. Athygli vekur að tekjuskattgreiðslur fjármálafyrirtæja nema hærri fjárhæð en allur álagður tekjuskattur á lögaðila fyrir árin 2003 og 2004. Árið 2003 nam álagningin 13,8 milljörðum króna en árið 2004 nam hún 13,6 milljörðum króna.

Álagður tekjuskattur á fjármálageirann

(í milljónum króna)

 

1999          1.240

2000          1.106

2001          753

2002          1.520

2003          2.369

2004          2.079

2005          5.571

2006        15.000*

Heimild: Ríkisskattstjóri.

*Úttekt HR á íslenskum fjármálamarkaði. Nóvember 2006.

 

Úttekt HR á íslenskum fjármálamarkaði (PPT-skjal).