Fjárlagafrumvarpið er ögrun við atvinnulífið

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013 sem kynnt var í dag er ögrun við fyrirtækin í landinu og starfsfólk þeirra. Ætlunin er að hækka tryggingagjald þannig að fyrirtækin fá ekki að njóta lækkaðra útgjalda til atvinnuleysistrygginga eins og gert var ráð fyrir við gerð kjarasamninga vorið 2011. Þannig er ráðist að forsendum kjarasamninga og möguleikum fyrirtækjanna að standa við þá án þess að hækka verðlag. Skýrt kom fram þegar samningarnir voru kynntir að gert var ráð fyrir að tryggingargjaldið yrði lækkað í takt við minnkandi atvinnuleysi. Við fyrstu sýn virðist sem lækkunin ætti að nema a.m.k. 0,5% 2013.

Fyrirvaralaus þreföldun virðisaukaskatts á gistiþjónustu mun kollvarpa áætlunum ferðaþjónustunnar fyrir næsta ár. Viðskipti við erlend ferðaþjónustufyrirtæki eru sett í uppnám og greininni er gert erfitt fyrir að standa undir þeirri fjárfestingu sem ráðist var í, í kjölfar markaðsátaks erlendis sem stutt var af stjórnvöldum. Hækkun vörugjalda á bílaleigubíla er önnur alvarleg atlaga að ferðaþjónustunni.

Síhækkandi álögur á fjármálafyrirtæki, nú í formi sérstaks viðbótarþreps í fjársýsluskatti, bitna fyrst og fremst á viðskiptavinum þeirra með hærri vöxtum og þjónustugjöldum og eru ekki til þess fallnar að örva fjárfestingar, fjölga störfum og stækka skattstofna sem ætti að vera megin viðfangsefni og markmið stjórnvalda.

Atvinnulífið átti ekki von á því að einföldun á álagningu vörugjalda á matvæli myndi leiða til 800 milljóna króna skattahækkunar eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Þessi hækkun kemur beint fram í hækkuðu vöruverði.

Þá tvöfaldast skattar á sjávarútveg í formi veiðigjalda og getur ekki leitt til annars en að fyrirtækin bregðist við með aukinni hagræðingu í rekstri. Auk þess er með öllu óljóst hvort einstök fyrirtæki geti staðið undir gjaldinu.

Árið 2009 var undirritað samkomulag milli stjórnvalda, SA og stórnotenda raforku um fyrirframgreiðslu tekjuskatts og tímabundna álagningu orkuskatts gegn því að hann félli niður að þremur árum liðnum. Það samkomulag er nú að engu haft og loforð ekki efnd um samráð við Samtök atvinnulífsins um mótun sambærilegra skattaskilyrða og fyrirtæki í Evrópu búa við.

Framangreind tekjuaukning nýtist ekki til að bæta afkomu ríkissjóðs, sem þó er ekki vanþörf á, heldur er henni ætlað að fjármagna aukin útgjaldaáform ríkisstjórnarinnar í aðdraganda alþingiskosninga og dugar hún samt engan veginn til.

Verði þessi áform að veruleika verður þess enn að bíða að fyrirtækjum gefist kostur á að hefja uppbyggingu starfsemi sinnar með auknum fjárfestingum og nýjum störfum.

Tengt efni:

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands vegna kjarasamninga til þriggja ára í maí 2011 (PDF)

Fréttatilkynning SA 5. maí 2011 (PDF)