Fjárfestum í samgöngum: Samantekt frá fundi SA
Samtök atvinnulífsins héldu í morgun opinn fund um mikilvægi þess að fjárfesta í samgöngubótum. Í upphafi fundar lagði Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ og fundarstjóri, áherslu á mikilvægi hagvaxtar og fjárfestingar til að styrkja samkeppnishæfni atvinnulífsins og skapa störf. Mikið hefði verið rætt um auknar samgönguframkvæmdir í því sambandi en þær ættu sér margar hliðar. Ræðumenn á fundinum voru Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI, Kristján Möller, alþingismaður og formaður iðnaðarnefndar, og Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga.
Framkvæmdastjóri SI: Nú er tækifæri að auka öryggi á vegum og efla hagvöxt
Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI, sagði nýjar samgönguframkvæmdir snúast um að auka öryggi á vegum auk þess að skapa ný störf og efla hagvöxt. Tækifærið sé til staðar, framleiðsluslaki nú sé meiri en í tæpa hálfa öld og atvinnuleysi mikið. Fjárfesting þjóðarbúsins í heild nemi nú 13% af landsframleiðslu en hefði numið 25% á síðustu áratugum. Einkaneysla væri lítil og útflutningur taki ekki við sér þrátt fyrir lágt gengi krónunnar. Orri sagði kjarasamninga til þriggja ára gera ráð fyrir öflugum hagvexti en þeir væru bjarnargreiði ef það brygðist.
Gróska í hugverkaiðnaði, heilbrigðistækni, tölvugeira og líftækni breyta heildarmyndinni ekki mikið að mati Orra. Sköpuð hafi verið óvissa í sjávarútvegi og sandur sé í tannhjólunum í orkuframleiðslu og orkunýtingu. Tillögur hafi verið settar fram um að lífeyrissjóðir fjármagni samgönguframkvæmdir en nú endurtaki það sig að innanríkisráðherra telji sig óbundinn af nýlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar um þau mál líkt og gerðist hjá umhverfis- og sjávarútvegsráðherrum í tengslum við stöðugleikasáttmálann sem undirritaður var fyrir tveimur árum.
Orri sagði að umgjörð gjaldeyrishafta virki letjandi á fjárfestingar ásamt umræðusem fór fram í tengslum við eignarhald Magma að HS orku. Þá valdi það áhyggjum að Seðlabankinn sé farinn að íhuga vaxtahækkanir þrátt fyrir mikinn slaka í hagkerfinu. Það vanti vilja og hröð og markviss vinnubrögð til þess að ráðast í umfangsmiklar samgönguframkvæmdir og vinna þannig upp slakann. Þær hafi verið slegnar út af borðinu með skammaryrðinu vegtollar.
Þegar umfang byggingariðnaðarins var sem mest störfuðu 18 þúsund manns í greininni, en nú stefnir í að þar starfi aðeins 4-6 þúsund manns. Fyrirtækjum hefur fækkað og þau fara jafnframt minnkandi. Framkvæmdasjóri SI lagði áherslu á að sem kaupandi ætti hið opinbera nú að nýta slakann þar sem hagstæð verð fengjust og birgjasamband héldist. Á teikniborðinu væru arðbærar framkvæmdir sem leiddu til aukinnar samkeppnishæfni. Hið opinbera magnaði hagsveifluna, hvort sem áraði vel eða illa, og fjárfestingar þess hefðu dregist saman um 60% undanfarin ár. Að lokum kallaði Orri eftir uppbyggilegri umræðu um framtíðarsýn í þessum málaflokki, Íslendingar gætu orðið leiðandi í tækniþróuninni og í stöðunni fælust mikilvæg tækifæri.
Formaður iðnaðarnefndar Alþingis: Aukinn hagvöxtur eina leiðin út úr kreppunni. Ekki eftir neinu að bíða
Kristján Möller, alþingismaður og formaður iðnaðarnefndar Alþingis, sagði að aðgerða væri þörf til að bæta samgöngur og auka umferðaröryggi. Í stöðunni væru tveir kostir, að efna til ca. 40 milljarða króna flýtiframkvæmda á umferðaræðunum að og frá höfuðborgarsvæðinu sem stæðu yfir í fjögur ár, og yrðu fjármagnaðar með lánum sem endurgreidd yrðu með notendagjöldum, eða fara hefðbundna leið ríkisframkvæmda sem tæki 15-25 ár. Lagði hann áherslu á hagvöxt og fjárfestingar sem skiluðu auknum útflutningi.
Umræða á villigötum
Kristján sagði áform í stöðugleikasáttmálanum 2009 um
auknar vegaframkvæmdir með aðkomu lífeyrissjóða hefðu ekki gengið
eftir og hefði viðræðum verið slitið 10. desember 2010 þar sem ekki
náðist saman um vaxtakjör. Þá hefði andstaða og áróður FÍB haft
mikil áhrif sem safnaði 41 þúsund undirskriftum gegn þeim hugmyndum
sem unnið hafði verið með.
Kristján minnti á þingræðu sína frá 7. júní 2010 þar sem hann lýsti framtíðarsýn sem við blasti, sem væri rafræn innheimta notenda- eða notkunargjalda í gegnum gervihnött. Á þeim tíma var rætt um að þverpólitísk nefnd allra flokka, og e.t.v. fleiri aðila, endurskoðaði framtíðartekjuöflun til vegagerðar, viðhalds og reksturs. Eitt gjald kæmi í stað annarra gjalda, eins og olíugjalda og bensíngjald. Við blasti að gjaldtöku þyrfti að endurskoða þar sem það kostaði rafbíl 2.500 kr. að aka hringinn en eldsneytiskostnaður díselbíls væri 40 þúsund á sömu leið.
Alþingi samþykkti að ráðast í framkvæmdir
Formaður iðnaðarnefndar minnti á lög nr. 97/2010 sem
samþykkt voru samhljóða á Alþingi 28. júní 2010. Lögin veita
innanríkisráðherra heimild til að stofna opinbert hlutafélag sem
hafi þann tilgang að standa að vegalagningu umhverfis
höfuðborgarsvæðið, auk Vaðlaheiðarganga, og taka gjald af umferð um
viðkomandi vegi. Staða mála væri sú að áform um auknar
vegaframkvæmdir hefðu verið ítrekaðar í tengslum við
kjarasamningana en nú væru horfur á því að Vaðlaheiðagöng yrðu eina
verkefnið.
Kristján gagnrýndi harðlega ýmis ummæli talsmanna FÍB undanfarið og taldi þá ekki hafa farið með rétt mál. Hann rifjaði upp að árið 2006 hefði þáverandi samgönguráðherra verið afhent áskorun um breikkun Suðurlandsvegar með 25 þúsund undirskriftum og síðar hefði hann sem samgönguráðherra tekið á móti 27 þúsund undirskriftum sama efnis. Nú hefði 41 þúsund undirskriftum verið safnað í kjölfar áróðursherferðar. Í framhaldinu væri innanríkisráðherra búinn að slá þessi áform af þrátt fyrir mikinn undirbúning.
Að lokum sagði Kristján að leysa þyrfti þetta mál, stofna þverpólitíska nefnd með aðild hagsmunaaðila og sveitarfélaga. Aukinn hagvöxtur væri eina leiðin út úr kreppunni.
Framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi: 120 milljarða í samgönguátak
Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, lagði til fundi SA um samgöngumál, að stjórnvöld, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, taki nú ákvörðun um að á næstu 12 árum verði ráðist í stórframkvæmdir í samgöngumálum fyrir 120 milljarða króna, eða 10 milljarða á ári. Lífeyrissjóðirnir láni til framkvæmdanna eins og stefnt hefur verið að og settur verði á laggirnar stórframkvæmdasjóður sem verði fjármagnaður með sérstökum hætti utan hefðbundinna framlaga til samgöngumála. Þorvarður hvatti til þess að þessi vegferð hefjist sem allra fyrst með sameiginlegu og samstilltu átaki stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila.
Umferð mun tvöfaldast
Í erindi sínu fór Þorvarður yfir umferð á Suðurlandsvegi
sl. áratug sem numið hefði 6-10 þúsund bílum á sólarhring.
Aukningin á 10 árum væri 45% þrátt fyrir áhrif kreppunnar og sagði
hann að umferðin muni tvöfaldast næstu tvo áratugi. Þungaflutningar
væru mun meiri en áður og Landeyjarhöfn hefði mikil áhrif. Fjölgun
erlendra ferðamanna leiddi einnig til aukinnar umferðar og allt
þetta kallaði á auknar framkvæmdir þar sem líta þyrfti til
langtímasjónarmiða. Banaslys hefðu verið 12 á síðustu 9 árum á
þessari leið, 35 alvarleg slys, 219 minni háttar slys og 789 önnur
óhöpp, eða samtal 1.055 slys og óhöpp. Árlegur heildarkostnaður
vegna slysa á þessari leið hefði verið áætlaður um einn milljarður
króna á ári.
Mikill stuðningur við tvöföldun Suðurlandsvegar
Þorvarður benti á að samkvæmt Gallupkönnun 2009 hefðu 55%
landsmanna talið tvöföldun Suðurlandsvegar brýnustu framkvæmdina,
en í næsta sæti var framkvæmd sem 8% töldu mikilvægasta. Hann sagði
Sunnlendinga leggjast gegn vegtolli þar sem jafnræðis væri ekki
gætt. Tekjur ríkisins af umferð á veginum næmu 1,5 milljörðum króna
á ári og að viðbættu 370 kr. veggjaldi pr. ferð bættist við einn
milljarður króna á ári við tekjur ríkisins af umferð um veginn. Ef
miðað væri við að framkvæmdin kostaði 20 milljarða króna þá
greiddist hún upp á innan við 10 árum m.v. framangreindar
forsendur.
Tillaga Sunnlendinga nr. 1 væri að dregið yrði úr kostnaði við framkvæmdina og ekki verði lagður á sérstakur vegtollur. Valkostur nr. 2 væri að fjármagna framkvæmdina með vegtollum með þeim skilyrðum að einn samræmdur vegtollur verði lagður á alla tvöfalda vegi út frá Reykjavík og stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu með fjórum eða fleiri akreinum. Samræmdur jarðgangatollur verði lagður á umferð um öll jarðgöng með tveimur akreinum. Vegtollarnir falli inn í samræmt veggjaldakerfi þegar það verður tekið upp í stað eldsneytisgjalda.
Tveir kostir í stöðunni
Í lokin dró Margrét Kristmannsdóttir umræðuna saman og
sagði tvo kosti vera fyrir hendi. Að fara leið sérstakrar
fjármögnunar þessara mikilvægu samgönguframkvæmda og framkvæma þær
á næstu árum. Um það hefði verið þverpólitísk samstaða á Alþingi
fyrir tveimur árum. Nú hefðu þessi áform verið slegin af vegna
ósamstöðu. Því þyrftu hlutaðeigandi sveitarfélög, FÍB,
stjórnmálamenn og aðilar vinnumarkaðarins og koma sameiginlega að
borðinu og marka stefnuna. Hinn kosturinn væri að framkvæma þessar
brýnu samgöngubætur á 25 árum sem ekki væri áhugaverð
framtíðarsýn.
Umfjöllun fjölmiðla:
Viðtal
RÚV við Kristján Möller
Umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2