Fjárfestingasjóður Íslands - 75 milljarða fjárfestingargeta

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa beitt sér fyrir því á vettvangi lífeyrissjóðanna að stofnaður verði á þeirra vegum Fjárfestingasjóður Íslands í því skyni að taka þátt í endurreisn atvinnulífsins. Þessi sjóður verður öflugur með 75 milljarða króna fjárfestingagetu á þremur árum. Frumvarp um breytingu á lögum um lífeyrissjóði var samþykkt á Alþingi í árslok 2008 í því skyni að auðvelda stofnun hans. Á vettvangi lífeyrissjóðanna er nú verið að fjalla um stofnun sjóðsins og þátttöku þeirra í uppbyggingu hans.

Mikilvægt er að vel takist til með uppbyggingu og starfsemi væntanlegs Fjárfestingasjóðs. Hlutverk hans og markmið er að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn atvinnulífsins. Ætlunin er að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru fjárhagslega illa sett en með álitlega rekstrarstöðu og skila þeim áfram þannig að þau geti orðið sterkur hlekkur í íslensku atvinnulífi. Fjárfestingar sjóðsins ráðast af væntanlegri arðsemi fjárfestinganna. Ekki verður gerður greinarmunur á fyrirtækjum eftir atvinnugreinum.

Allir lífeyrissjóðir munu þurfa að skuldbinda sig til þátttöku í sjóðnum í þrjú ár. Reiknað er með því að á þessum þremur árum renni allt að 25 milljarðar króna árlega inn í sjóðinn þannig að heildarfjárfestingar hans verði allt að 75 milljarðar. Líftími sjóðsins er áætlaður um 10 ár og að allar eignir hans hafi þá verið seldar.

Mikil áhersla verður lögð á fagmennsku í starfsemi sjóðsins og aðkomu að fyrirtækjum og leitast er við að ná saman þekkingu á vegum lífeyrissjóðanna og viðbótarþekkingu til þess að tryggja árangursríka starfsemi sjóðsins. Lífeyrissjóðirnir munu á næstu árum verða fyrir mikilli ásókn um ráðstöfun fjármuna sinna og mikilvægt er að tryggja að aðkoma þeirra að endurreisn atvinnulífsins skili þeim góðum arði á sama tíma og slík aðkoma hefur lykilþýðingu fyrir atvinnulífið og uppbyggingu virks hlutabréfamarkaðar.

Staða lífeyrissjóðanna og geta þeirra til þess að greiða lífeyrisþegum lífeyri stendur í beinu samhengi við styrk atvinnulífsins og því er aðkoma þeirra að uppbyggingu fyrirtækja eðlilegur og nauðsynlegur. Lífeyrissjóðir gegna mikilvægu hlutverki fagfjárfesta sem gera kröfur til góðra stjórnarhátta í fyrirtækjum og þurfa að hafa virkt eftirlit með fjárfestingum sínum.