Fjárfestingar betri en þróunaraðstoð

Fyrirtækin eru lausnin, ekki vandamálið. Þetta er heiti nýrrar skýrslu sænsku samtaka atvinnulífsins um þróunaraðstoð og erlendar fjárfestingar í þróunarríkjum. Þeim þróunarríkjum sem ná að laða til sín erlenda fjárfestingu vegnar samkvæmt skýrslunni mun betur efnahagslega en öðrum. Samkvæmt skýrslunni eru fyrirtækin því lausnin, ekki vandamálið líkt og oft megi ætla af almennri umræðu um erlendar fjárfestingar í þróunarríkjum. Til þess að lífsgæði þeirra fátækustu batni ber því að hvetja fyrirtæki til að setja upp starfsstöðvar í þróunarríkjunum. Opinber þróunaraðstoð skilar ekki sama árangri. Bætt lífsgæði eru mæld í þjóðartekjum á íbúa en auknum þjóðartekjum fylgja svo meiri menntun, hærri meðallífaldur, minni ungbarnadauði o.s.frv.

Sem dæmi um þetta eru í skýrslunni borin saman Suður-Kórea og Zambía. Árið 1964 var Suður-Kórea helmingi fátækari en Zambía en er nú 27 sinnum ríkari. Á sama tíma hefur Zambía móttekið 14 sinnum hærri upphæðir í þróunaraðstoð á hvern íbúa. Áhersla á efnahagsvöxt og fulla þátttöku í alþjóðlega hagkerfinu hefur fært Suður-Kóreu nær sambærileg lífskjör og gerist í Vestur-Evrópu á sama tíma og Zambía hefur setið eftir sem þiggjandi erlendrar þróunaraðstoðar.

Sjá skýrsluna á heimasíðu sænsku samtaka atvinnulífsins (pdf-skjal).